Ráðhús eða Háðhús?

Það er svo mikið búið að vera gerast í pólítík borgarinnar undanfarið að maður á fullt í fangi með að taka það allt inn og vega það og meta. Það er líka búið að skrifa og fjalla endalaust mikið um þetta, í fjölmiðlum, hér á blogginu allir eru að tala um sápuóperuna í Ráðhúsinu.
Ég hef reynt að venja mig á að mynda mér ekki skoðanir nema kynna mér málin áður og auðvitað eru nokkrir fletir á þessu öllu saman. Samt get ég ekki betur séð en að í stuttu máli hafi gjörsamlega verið valtað yfir borgarbúa með þessum skrípaleik. Ætli menn eins og Vilhjálmur, Ólafur og fleiri hafi gefið sér nægan tíma til að hugsa af alvöru um hver tilgangurinn með þessu sé? Fyrir hverja er eiginlega veirð að vinna? Ég get ekki ímyndað mér að þeir sofni á kvöldin alsælir og sáttir með þessi dagsverk, vitandi að þeir eru að ryðja sér svona freklega yfir þá borgarbúa sem þeir eiga að vera vinna fyrir. Ég hef enga trú á að nokkurt launaumslög sé þess virði að standa svona að verki.
Þegar sonur minn var lítill og við vorum oftar sem áður að þvælast við Tjörnina, gefa öndunum og velja okkur kaffihús að setjast inn á eftir miðbæjargöngutúrinn, þá er stráksi að leika sér að því að lesa utan á Ráðhúsið.
Ráááðhúúúss... svo fer hann hlæja, kippir í mig og segir: "Mamma, það stendur næstum því Háðhús á húsinu".
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær og mér finnst þetta eiginnlega alveg eiga við núna.
Það er líka annað sem mér finnst svolítið merkilegt og það er að þegar hópur fólks tekur sig til og mótmælir á pöllunum þá eru það strax stimpluð sem skrílslæti af sumum. Ég var ekki þarna sjálf og veit ekki nákvæmlega hvernig þetta fór fram eða hvað var sagt og kallað svo að ég er kannski ekki alveg dómbær, þó finnst mér ekki hægt að afgreiða þetta sem múgæsingu eða skrílslæti. Við Íslendingar látum ekki oft til okkar heyra á þennan hátt og því kannski eðlilegt að sumum bregði við, en ættum við ekki fyrst og fremst að spyrja af hverju svona stór hópur tók sig til og safnaðist á pallana? Af hverju fjölda friðsamra Íslendinga er svo nóg boðið að ástæða þyki til að grípa til svona aðgerða? Í staðinn fyrir að reyna ómerkja þetta sem skrílslæti. Ég hefði farið þangað líka og eflaust látið í mér heyra ef ég hefði ekki verið að vinna og ekki komist frá.
Það er einhver örvænting og fáránleiki í þessari pólitík sem við þurfum að komast út úr. Ég myndi vilja fá að kjósa núna.

Hjá Tannlækninum

Ég fór til tannlæknis á föstudaginn síðasta sem er í frásögur færandi í mínu lífi. Ég er nefnilega skelfingu lostin við tannlækna og kvíði alltaf svakalega mikið fyrir því að fara. Samt er ég með mjög góðan tannlækni. Hann er endalaust þolinmóður með mér og tekur sér alltaf tíma til að útskýra vel hvað hann ætlar að gera og hverju ég má eiga von á. Helst myndi ég vilja láta svæfa mig í hvert sinn en jafnvel tannlæknafóbíukonan ég, get alveg séð að það er alls ekki góð hugmynd.
Svo kom að því að borga og ég held að minn góði tannlæknir sé ekkert dýrari en gengur og gerist. Tannhirða er bara almennt alveg svakalega dýr. Ég velti því oft fyrir mér af hverju tannheilsa sé ekki innan heilbrigðiskerfisins? Af hverju er tannheilsa tekin svona sérstaklega út fyrir kerfið og sett á einhvern sér stað?
Það er alveg ljóst að við þurfum öll að fara til tannlæknis mörgum sinnum á lífsleiðinni (úff...) og því miður þekkja allt of margir hvað tannpína getur verið svakalega sársaukafull. Alls kyns vandræði, lítið alvarleg eða mjög alvarleg, bæði líkamleg og andleg geta sprottið útfrá tannheilsu og það er svo augljóst að þetta ætti að tilheyra almennri heilsugæslu fólks.
Ég á fullt í fangi með að koma tannhirðu kostnaði inn í mánaðar planið mitt, og hvað þá með fólk sem hefur enn minni pening á milli handanna? Það einfaldlega hafa ekki allir efni á tannheilsu sinni og ég velti fyrir mér hvort við séum sátt við að hafa það svoleiðis í samfélaginu okkar?
Mér finnst það alls ekki í lagi að þeir sem ekki hafa efni á að borga tannlækni missi tennur sínar eða þjáist af tannpínu eða alls kyns sýkingum og bólgum. Það hlýtur að vera hægt að þoka þessum málum eitthvað áfram.
Út í allt annað, það var ákveðið á síðasta Skruddufundi að við ætlum næst að lesa Yacoubian Bygginguna eftir Alaa Al Aswany. Ég er byrjuð á henni og líst ljómandi vel á. Kannski ég fari bara að lesa núna :)

Gamall hryllingur á nýju ári

Gleðilegt nýár elsku bloggvinir og takk fyrir skemmtilegt nýliðið ár.
Jæja þá er dásamlegum jólum að ljúka og komin tími til að kasta sér aftur út í hringiðu hversdagsins. Ég er búin að eiga mjög gott frí og er bara bjartsýn á nýja árið. Ég held að margt spennandi eigi eftir að gerast...meira um það seinna.
Ég er búin að vera taka svolítið til heima hjá mér í jólafríinu og fara í gegnum alls konar dót, meðal annars dvd myndir sem vilja staflast bakvið sjónvarpið á sjónvarpsborðinu. þar fann ég nokkrar myndir sem vinir mínir höfðu lánað mér fyrir mörgum vikum og þar sem ég var ekki búin að horfa á þær allar ákvað ég að skella einni í tækið áður en ég skila þeim á mánudag. Það var gamla myndin Exorcist sem ég horfði á (ég veit, ekkert sérlega jólaleg mynd).
Ég sá þessa mynd fyrir mörgum árum og varð þá skíthrædd, þó ég hefði frekar dottið niður dauð en að viðurkenna það fyrir nokkrum manni. En ég hafði litlar áhyggjur núna, enda verða svona gamlar hryllingsmyndir yfirleitt bara hlægilegar. Allt of mikið subb, allir alveg hrikalega vitlausir og tæknibrellurnar bara krúttlegar. En viti menn og konur! Ég varð alveg jafn skíthrædd núna og ég varð fyrir mörgum árum en var of spennt til að slökkva á henni. Mikið svakalega er þessi mynd skelfileg og dökk. Og hvað var ég að hugsa að horfa á hana alein við kertaljós á dimmu vetrarkvöldi? Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að fara strax að sofa og til að hreinsa hugann setti ég Shrek 3 í tækið. Drakk í mig alla skæru litina og trúna á eitthvað fallegt og sætt.
Það er Skruddufundur hjá mér á morgun (jiiiibbbííí...) og ég ætla að athuga hvort ég geti ekki fengið lánaða kaffivél hjá vini mínum, ég er ansi hrædd um Skruddufélagarnir verði ekki alsælir með litlu pressukönnuna mína sem tekur aðeins einn bolla í einu :)

Jólakveðja

Nú styttist til jóla og ég er komin í jólafrí, sem er bara frábært. Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá mér undanfarið, alltaf nóg um að vera í vinnunni og svo er auðvitað allt á fullu fyrir jólin. Ég er mikið jólabarn og hef óskaplega gaman að undirbúningi fyrir jólin. Aðventan er bara yndisleg.
Ég ákvað að skrifa engin jólakort í ár og þess vegna vil ég nota bloggið mitt til að senda ykkur öllum einlægar óskir um gleðileg jól. Ég vona að þið munið hafa það jafn dásamlegt og ég um jólin og finna frið í hjartanu.
Ég veit, ég verð alltaf svolítið væmin um jólin...en það er allt í lagi, ég má það alveg :)
Milljón knús til ykkar frá mér.

Skrílslæti

Veit ekki alveg hvað ég ætla að blogga um, mér dettur ýmislegt í hug hmmm....
Jú, ég hef til dæmis verið að hugsa um hvað það eru heiftarleg viðbrögð stundum hér á blogginu yfir skoðunum sumra. Eins og með femínisma. Einn yfirlýstur femínisti hér á moggablogginu er bókstaflega lögð í einelti. Um leið og hún skrifar eitthvað femíniskt á bloggið sitt þá rýkur hópur til (mest karlar) og eys yfir hana (oft mjög persónulegum) árásum og fúkyrðum. Mörg kommentin hjá þessu fólki eru svo barnaleg og fáránleg að mér finnst mesta furða að þau skuli ekki hverfa af skömm yfir því að birta sig svona bjánalega. Hvað er eiginlega að? Má manneskjan ekki hafa sínar skoðanir þó það séu ekki allir sammála?
Þetta fólk æpir hástöfum að hún (femínistinn) sé alltaf eitthvað að reyna troða sínum skoðunum uppá aðra, sé með skoðanakúganir (hvaða bull er nú það, það er engin að neyða nokkurn til að lesa bloggið hennar), og að ekki megi vera ósammála henni. Halló!!! Hverjir eru það sem eru að reyna banna hverjum að hafa ákveðnar skoðanir? Þetta fólk grenjar og orgar um að femínistinn sé stöðugt að væla yfir einhverju....en, hvað eru þau þá að gera???
Um daginn birti Femínistinn mynd af umdeildri auglýsingu frá Toyota og setti eina setningu undir sem var á þá leið að hún hefði ekki áhuga á að eiga viðskipti við þetta fyrirtæki. Og með það sama ruddist heill haugur af yfir sig æstum og stórhneyksluðum bloggurum inn á kommentakerfið hennar og fór að gera sig að erkifíflum. Mörg kommentinn voru ekki í neinu samræmi við færslu femínistans og gerði auðvitað ekkkert annað en að opinbera þröngsýna hugsun hjá viðkomandi. Þetta er svo skrílslegt, vantar bara heykvíslarnar.
Á þetta fólk ekkert líf? Er mesta spennan í tilverunni að bíða eftir því að Femínistinn bloggi nýja færslu svo að hægt sé að ausa úr sér ómálefnalegum vitleysisgangi, allt til að reyna þagga niður í femínistum? Takið ykkur saman í andlitinu og hagið ykkur eins og fullorðið fólk.
Auðvitað eru ekki allir sem kommenta hjá þessum femínista eða öðrum, með tóman kjánaskap og auðvitað er það í besta lagi að vera ósammála, en þessi heift og persónulega reiði í garð einnar manneskju, sem jaðrar á stundum við andlegt ofbeldi, gerir lítið annað en að sýna hvar fólk er sjálft statt andlega.
Æi hvað ég er eitthvað pirruð yfir þessu, kannski ég fái mér annan kaffibolla.
Komin með þetta líka svaka fína kaffi, rjúkandi heitt.
Jæja læt þetta duga núna, búin að fá fína útrás :)
Ætla að fara gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað jólalegt :)

Kringlan og Happamaðurinn

Vá hvað ég er búin að vera eitthvað löt á blogginu undanfarið. Ég er ekkert að gefast upp á þessu, það er bara svo margt um að vera og ég hef ekki gefið mér tíma til að dóla mér á bloggsíðunni minni.
Nú styttist líka í jólin og þar sem ég er afskaplega mikið jólabarn þá er ég komin með jólafiðring. Núna er ég að hlusta á gullfallega jólatónleika sem voru teknir upp í Hallgrímskirkju fyrir þremur árum. Ýmsir flytjendur og ég er að velja lög til að setja á ipodinn minn. Ekki seinna vænna að setja saman góðan jólalista :)
Annars fór ég með góðum vini mínum í Kringluna í gær. Það var voða fínt. Alveg svakalega mikið af fólki samt, við þurftum að hafa okkur öll við til að vera ekki stöðugt að klessa á fólk. Við kíktum í Betra Líf og fengum fínan fyrirlestur um jóga og óvænta hugleiðslu í leiðinni, bara notalegt.
Svo versluðum við það sem vantaði og kortið mitt átti "fótum fjör að launa" í einni snyrtivörubúðinni. Mig vantaði bara hreinsivatn fyrir andlitið en hitti fyrir svona afskaplega duglega sölukonu sem týndi stöðugt úr hillunum dót sem henni fannst að ég yrði að eiga. Ég reyndi í örvæntingu minni að raða vörunum jafnharðan aftur upp í hillurnar og tókst það næstum. Fór bara út úr búðinni með nokkra gagnlega hluti :)
Á leiðinni út úr Kringlunni kom ég við í Happahúsinu til að kaupa mér Lottómiða. Ég kaupi mér mjög sjaldan Lottó eða nokkuð því líkt, en fannst að ég yrði að láta reyna reyna á nokkrar tölur sem mig dreymdi nýlega. Í Happahúsinu hitti ég fyrir alveg gríðarlega pirraðan mann. Hann var eiginlega alveg að springa, með samanbitnar varir, svitaperlur á enninu og brjálæðisglampa í augunum. Ég var ekki með allt á hreinu í sambandi við Lottóið og vogaði mér að spyrja manninn spurninga og ég hélt að hann myndi grýta í mig miðastandinum, hann varð svo æstur. Hann er kannski ekkert heppinn þó hann vinni í Happahúsinu.
Kannski ég fari og kíkji á Lottótölurnar og athugi hvort ég hef unnið eitthvað.

Neyðarkallinn reyndist vera kona

Ég eyddi síðustu helgi í algerri afslöppun hjá mömmu, Íris systur og Patreki litla á Eyrarbakka.  Það var alveg dásamlegt Heart

Það gerðist svo sem ekki margt fyrir utan framleiðslu á framúrskarandi graskerspæi (a la Ruth), óteljandi leiki, fettur og hlátur með honum Patreki litla; heimsókn Lindu, Moiru og Douglas og tvær stuttar ferðir á Selfoss.  Nema svo var bankað eitt kvöldið þegar við sátum að snæðingi og okkur boðið að kaupa "Neyðarkallinn".  Íris systir reið á vaðið og fjárfesti samviskusamlega í einum kalli og til þess að vera ekki minni konur ákváðum við hinar, ég, Ruth og mamma að kaupa hver sinn kall.

Það flaug í gegnum huga minn hvað þetta væri eitthvað staðlað slagorð: "Neyðarkall". " Eru engar konur í þessum björgunarsveitum?" hugsaði ég.  Ég veit að karlmenn eru í meirihluta og að það átti trúlegast líka að höfða til útkallanna í nafninu, en mér fannst þetta allt voða karllægt eitthvað og pínu pirrandi að hunsa svona framlag kvenna til björgunarstarfa GetLost.

En mikið var mér komið skemmtilega á óvart þegar ég dró pínulitla björgunarkonu upp úr bóluplastinu.  Frábært!!!  Grin Það er bara jákvætt þegar jafnréttið birtist svona í skemmtilegum smáatriðum líka.  Miklu ferskara heldur en stöðluð og pikkföst gamaldags birtingarform sem stundum virðist ekki mega hrófla við.

Áfram björgunarfólk, konur og menn!!!  


Notalegt í sveitinni

Jæja, loksins blogga ég aftur. Nú er ég á Eyrarbakka hjá mömmu, Irís systur og Patreki litla. Ruth bættist svo í hópinn í gær og var í nótt eins og ég. Það er alveg dásamlegt að vera hér og ég ætla að vera fram á sunnudag. Ég slappa svo vel af hér að ég eiginlega missi meðvitund. Hleð batteríin, hlusta á öldurnar og máfagarg og skríkina í Patreki litla frænda.
Ég var á mjög krefjandi námskeiði alla síðustu helgi hjá Kathleen Brooks sem fjallaði um hvernig hægt er að vinna með sitt innra barn. Við vorum að frá kl 14 á föstudegi til 21 á sunnudegi og vorum til miðnættis bæði föstudags og laugardagskvöld. Þetta var mikil vinna og talsverður rússíbani og það tók mig nokkra daga að vinna úr námskeiðinu. En ég lærði ýmislegt sem ég ætla að nýta mér.
Ég ætla að hætta blogga núna, Linda systir er væntanleg í heimsókn, vonandi með strákana sína tvo en dóttirin Moira Dís er þegar komin hingað og er að kúra í sófanum hjá ömmu sinni.
Góða helgi allir vinir mínir

Hugh Hefner...bjakk!!!

Mikið svakalega finnst mér það hallærislegt að vera bjóða Hugh Hefner á Airwaves. Hvað kemur hann tónlist við? Hver er eiginlega pælingin á bakvið þetta? Einhver hundgamall saurlífskarl að spóka sig með kornungum stúlkum. Stúlkum sem hefðu vafalítið ekkert við þennan hlægilega karl að segja nema af því hann borgar þeim fúlgur fjár og gefur möguleika á myndbirtingu eða framkomu í sjónvarpi. Ég bara trúi því ekki að nokkrum finnist þetta svalt. Þetta er eins glatað og hugsast getur og veldur svo miklum kjánahrolli að það er tómt vesen að losna við hann aftur.
Mennigargildi hátíðarinnar hrundi niður í kjallara við þessa frétt og ég held í þá von að þetta hafi verið einhver helber þvæla af því ég hef ekki lesið neitt meira um þetta.
Þetta er langt fyrir neðan virðingu Airwaves.
Vonandi kommentar einhver hjá mér og segir mér að þetta sé ekki rétt, að þessi stórkostlega hallærislegi karl og allt sem hann stendur fyrir sé ekki að fara að subba út alvöru menningu eins og Airwaves hefur hingað til verið.
Sveiattan...pffft...bjakk...gubb...skirp...

Helsinki

Ég kom frá Helsinki seinnipartinn í gær. Ég var frekar þreytt og syfjuð og ákvað að leggja mig um hálfátta, ætlaði bara að fá mér smákríu, en steinsvaf í næstum 12 tíma. Ótrúlegt, en alveg ágætt samt :) Nú er ég eldhress, ætla að fara taka uppúr töskunum og dútla mér.
Ég var í Helsinki á ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins um kynbundið ofbeldi. Mjög fróðlegt og gagnlegt og skemmtilegt fólk frá Eystrasaltslöndunum, Rússlandi og Norðurlöndunum. Ráðstefnan var haldin á Hanasaari, á lítilli landtengdri eyju þar sem er þetta hús, sem er hótel, ráðstefnuhús og menningarhús. Yndislegur staður. Skógur allt í kring með dásamlegum fuglasöng á morgnana og glampa á blátt vatn.
Ég fór inní miðborg Helsinki líka að skoða, fá mér að borða og versla smá. Bara gaman. Ég og ferðafélagi minn, Sigrún, fórum fyrst á sunnudagskvöld og ætluðum að finna einhvern finnskan veitingastað sem seldi klassískan finnskan mat og sáum fyrir okkur hreindýrakássu á kartöflumús og berjasósu. Við þrömmuðum út um allt en fundum ekker nema nokkra pöbba, kaffihús og skyndibitastaði. Að lokum snerum við aftur á torgið sem við byrjuðum á (ég þá farin að urra af hungri :), og fórum inná amerískan stað sem heitri Colorado.
Okkur fannst nú ekki spennandi að fara borða amerískan mat í Finnlandi en létum okkur hafa það og pöntuðum báðar rifjasteik, hvor sinn skammt. Maturinn kom á stóru trébretti og þvílíkur skammtur! Bara minn skammtur hefði nægt fyrir mig og Atla, son minn á venjulegum sunnudegi og samt verið afgangur fyrir mánudagskvöld. En maturinn var svakalega góður, algert sælgæti og við borðuðum okkur sprengsaddar og engin möguleiki á eftirrétt. Ég semsagt mæli með þessum veitingastað, Colorado, ef þið eigið leið um Helsinki.
Annars er miðborgin skemmtileg blanda af nýju og gömlu. Glerhús, múrsteinar, sporvagnar, torg, fólk og menning.
Semsagt Helsinki er fín, heðfi bara viljað hafa lengri tíma, en gaman að hafa komið þangað. Takk fyrir góða samveru Sigrún og Kristín :)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband