Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Ég er búin að vera í heimsókn hjá mömmu, Íris systur og Patreki Kára, litla frænda síðan á miðvikudagskvöld. Dásamlegt að vera hér í sveitasælunni á Eyrarbakka í kyrrð og ró. Eins og venjulega þá er ég búin að sofa eins og sleggja hér, það er bara eins og ég missi alltaf meðvitund þegar ég kem hingað. Ég veit ekki hvort það er vegna kyrrðarinnar eða af því ég er komin til mömmu :) Mér er eiginlega alveg sama af hverju það er, þetta er bara yndislegt.
Íris systir er orðin dagmamma hér á Eyrarbakka og í gær fylltist húsið af litlum krílum. Ég fékk að fylgjast með allan daginn og það var frábært. Það er endalaust krúttlegt að fylgjast með litlum börnum bauka við lífið sitt. Hvert með sinn persónuleika og sinn áhuga og sínar aðferðir. Íris er frábær dagmamma, algjörlega fædd til að vera umkringd börnum og greinilegt að litlu krílunum líður vel hjá henni.
Mér fannst æðislegt að fá að fylgjast með þeim í einn dag og taka þátt.
Eins og víðar virðist vera skortur á plássum í barnagæslu og það var fljótt að fyllast hjá Íris, þó losna aftur hjá henni tvö pláss eftir mánuð þar sem tvö af krílunum komast að á leikskóla staðarins. Íris sagði mér að sveitafélagið borgi 30.000 með hverju barni svo foreldrarnir þurfi að borga minna fyrir gæsluna. Ég fór að hugsa hvort það væru ekki margir foreldrar sem myndu kjósa að vera heima lengur með börnunum sínum. 30.000 er kannski engin gífurleg upphæð en gæti samt gert gæfumuninn á mörgum heimilum. Af hverju ætli það sé ekki í boði að fólk fái þennan pening bara beint með barninu inn á eigið heimili til að foreldrar geti verið meira heima með sínum krílum?
Ég var svo heppin að það var mögulegt fyri mig að vera meira og minna heima með syni mínum í rúmlega tvö ár og svo gat ég leyft mér að vinna hálfan daginn í nokkur ár í viðbót. Vá hvað mér þótti það dýrmætt. En þetta var aðeins mögulegt af því þáverandi maðurinn minn var með nógu góðar tekjur fyrir okkur öll ef við lifðum sparlega, sem við gerðum.
Ég er algjörlega viss um að fleiri foreldrar myndu óska þess að þetta væri mögulegt og kannski gæti þessi 30.000 kall verið akkúrat sú upphæð sem brúaði bilið hjá mörgum. Það væri alla vega þess virði að reyna það.
Vinir og fjölskylda | 26.4.2008 | 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ég og Atli, sonur minn, fórum samdægurs til nágrannkonunnar og sóttum Kodama og æ hvað hann var ræfilslegur þessi elska. Hann var aðframkominn af hungri og vosbúð. Svo grindhoraður og máttfarinn að hann stóð ekki í lappirnar, hálf meðvitundarlaus og svo skítugur að fallegi hvíti feldurinn hans var orðinn grár og mattur og litlaus.
Það þarf nú ekki meira til að ég fari að háskæla og mér rétt tókst að halda andlitinu gagnvart nágrannakonu minni þegar kisinn minn kúrði sig skjálfandi í hálsakotið, en bara rétt svo.
Það var greinilegt að Kodama þekkti okkur Atla, en var svo veikur að hann gat lítil viðbrögð sýnt. Við fórum beint með hann heim og hlúðum að honum. Keyptum fínasta mat sem við fundum og líka kettlingamat því hann er svo næringarríkur.
Nú eru nokkrir dagar liðnir og Kodama er búinn að sofa út í eitt og úða í sig mat þess á milli. Hann er allur að hressast, en er þó enn máttfarinn. Hinn kötturinn okkar, Shane, var ekki alveg jafn hrifinn af heimkomu Kodama, því nú er hann ekki lengur kóngurinn í ríki sínu. Og þó, ég sá nú Shane kúra með Kodama í dag. Þeir voru góðir vinir áður og verða það eflaust aftur.
Og mikið er ég heppin með nágranna, takk fyrir að bjarga kisunni minni kæri nágranni og fyrir að hugsa svona vel um hann.
Vertu velkominn heim elsku Kodama minn, þín var sárt saknað.
Vinir og fjölskylda | 9.9.2007 | 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mótið var haldið að Húnavöllum, en móðurætt mín er mest þaðan úr nágrenninu. Við fórum á Blönduós, Skagaströnd og að bænum Hof til að skoða staði og hitta fólk. Ég finn alltaf illa fyrir því að ég er andlitsblind á svona samkomum og gengur afar illa að þekkja fólk í sundur. Það er líka svo mikill ættarsvipur með mörgum í ætt minni og það flækti málin. Ég þorði stundum ekki að fara að fólki og kynna mig og segja:
"Sæl, ég heiti Thelma og er dóttir Ásdísar Páls", því ég var svo hrædd við að fá svarið:
"Heyrðu væna mín, þú varst að kynna þig fyrir mér fyrir hálftíma síðan. Hvurslags vitleysisgangur er þetta?"
Svo að ég hélt mér til hlés og vonaði að aðrir myndu stökkva á mig. Það gekk alveg ágætlega og ég gat kynnt mig fyrir fullt af fólki :)
Á sunnudaginn ákváðum við Ruth systir (en við vorum saman í bíl) að skella okkur til Akureyrar fyrst við vorum nú komnar hálfa leiðina hvort sem var. Íris, mamma og Patrekur litli ákváðu að koma með okkur í samfloti á Írisar bíl og svo eyddum við góðum tíma á Akureyri saman í dásamlegu veðri. Við fengum okkur að borða á Bautanum og ég gef þeim stað toppeinkunn. Maturinn var mjög góður og þjónustan aldeilis frábær.
Á leiðinni heim villtust Íris, mamma og Patti inná Blönduós og þeim fannst svo gaman að vera í ferðalagi að þau ákváðu að vera degi lengur. Fengu sér gistingu og gerðust túristar og fóru að skoða alls konar staði. Síðast frétti ég af þeim við einhverja steinakirkju. Vonandi rata þau heim.
Við komum heim frekar seint í gærkvöldi sem var ágætt því þannig sluppum við við örtröðina í umferðinni. Urðum auðvitað vitni að nokkrum bjánum í umferðinni, en þannig er það trúlega alltaf. Við sáum bæði fólk sem ók á alltof miklum hraða og skapaði þannig hættu fyrir alla í kring og svo líka nokkra sem óku alltof hægt, söfnuðu löngum röðum fyrir aftan sig, og bjuggu þannig til hættuástand
Í heildina var þetta frábær helgi. Ég ætla að gera meira af þessu það sem eftir er sumars.
Vinir og fjölskylda | 30.7.2007 | 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Elsku kötturinn minn hann Kodama stakk af að heiman og hefur ekki sést síðan. Ég sakna hans sárlega þó hann hafi stundum verið alger pína. Kodama er hvítur með svart skott og nokkra svarta bletti á búk og við eyrun
Við búum við Hringbraut, rétt hjá Meistaravöllum og síðast sást til Kodama í garði við Grandaveg. Hann er fælinn en skilur nafnið sitt. Hann er ekki með hálsól en er eyrnamerktur. Ef þið sjáið til hans, viljiði þá vera svo yndisleg og láta mig vita?
Ég vil fá Kodama heim
Vinir og fjölskylda | 13.7.2007 | 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)