Færsluflokkur: Dægurmál

Gellurnar í 10-11

Ég sá hluta af frétt nýlega, var sjálf á hlaupum og missti af byrjun fréttarinnar og veit ekki af hverju það var verið að tala um þetta, enda skiptir það kannski ekki öllu máli. En umræðan var um ungt fólk sem starfar í verslun og þjónustu.
Iðulega koma bæði sjónarmiðin upp, þ.e. annars vegar að unga fólkið sé ekkert verra starfsfólk, einhverstaðar þurfi krakkarnir að hafa möguleika á að byrja sína göngu í atvinnulífinu, þetta hafi forvarnargildi fyrir þau og geti stuðlað að því að krakkar endi ekki í óreglu og bulli og svo framvegis. Hins vegar er talað um hversu óþolandi það sé að viðskiptavinir fái ekki almennilega þjónustu og að sjoppu mórallinn sé óþolandi, sem sumir vilja meina að fylgji "ungum vinnustöðum".
Ég er eiginlega sammála þessu öllu. Ég á sjálf 19 ára gamlan strák og ég tel að það hefði verið ömurlegt fyrir hann að fá hvergi vinnu, en af því það eru svo margir sem fagna ungu og ódýrara vinnuafli, þá hefur hann aldrei verið í vandræðum með að fá atvinnu.
Sem viðskiptavinur finnst mér þetta hins vegar stundum alveg óþolandi. Ég sakna stundum almennrar reynslu og kunnáttu sem aldur gefur, en þetta er ekki í boði á vinnustöðum þar sem eingöngu krakkar eru að starfa á. Ég meina flest af þeim eru auðvitað alveg yndisleg, kurteis og flott, en ég sakna þess að oft getur engin svarað spurningum manns. Hér kemur lítið dæmi:
Ég í 10-11 að versla fyrir snjalla hugmynd að máltíð sem ég hafði fengið og ég spyr afgreiðslustúlkuna: Eru til gellur?
Hún: Ha?????
Ég: Eru til gellur
Hún: Ha gellur?
Ég: Já gellur
Hún fer að flissa og kallar í nálæga stúlku sem var líka að vinna í búðinni og segir við hana: Þessi kona vil kaupa gellur, ha ha ha...
Stúlka #2: Gellur!!!!
Stúlka #1: Já hún segir það
Ég sá að það var alveg ljóst að þær höfðu enga hugmynd um hvað gellur voru svo að ég spurði þær kurteislega hvort þær gætu spurt einhvern sem vissi hvað gellur væru. Þær sögðust ætla að ná í verslunarstjórann og ég beið þolinmóð, kíkti í frystinn á meðan í þeirri von að ég fyndi þar frystar gellur. Og svo kemur verslunarstjórinn, krúttlegur strákur, kannski 18-20 ára. Örlítið rauður í framan með búttaðar kinnar. Hann fann greinilega pínulítið til sín, reyndi að setja í brýnnar og ætlaði sér örugglega að vera ábúðarfullur, enda frekar mikilvægt að vera kallaður svona fram.
Ég endurtók spurningu mína um gellurnar og drengurinn setti upp sinn strangasta svip og sagði með næstum því fullorðnisrödd: Það eru engar gellur hér, stelpurnar hér eru sko ekki kallaðar gellur og ef þú ætlar að vera með einhvern dónaskap....að þá hérna...að þá sko...
Ég brosti þolinmóð og útskýrði fyrir þeim að gellur væru hluti af fiskhausum og að ég hafi ætlað að kaupa þetta í kvöldmatinn, að ég hafi ekki verið með neinn dónatón. Þau gláptu á mig eins og ég væri geimvera og ég sá að þetta var vita tilgangslaust. Ég nennti þessu ekki lengur, fór og keypti fiskibollur í dós frá Ora og bjó til bleika sósu með.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband