Færsluflokkur: Kvikmyndir

Bíóferð

Mér var boðið í bíó í síðustu viku og var það bara skemmtilegt.  Við fórum á Harry Potter í Álfabakka og var myndin ágæt, samt ekta svona "millikafla"-mynd.

Vinur minn var flottur á því og við fórum í Vip salinn.  Ég hef séð myndir þar áður og alltaf verið voða ánægð, en þetta varð svolítið skondin bíóferð.  Fyrst þurftu allir að bíða í forsalnum fyrir aftan band og okkur var ekki hleypt inn fyrr en talsverður fjöldi var komin og þá ruddust auðvitað allir inn í einu og bestu sætin kláruðust strax.  Ég og vinur minn fengum sæti í fremstu röð og ég hafði engar áhyggjur af því, vegna þess að ég hafði setið fremst áður og vissi að ef maður bara hallar sætinu vel aftur þá yrði þetta fínt.  Þegar við vorum passlega búin að koma okkur vel fyrir þá koma þrjár konur og biðja okkur um að vera svo væn að færa okkur um einn rass svo að þær gætu setið saman.

Verð að viðurkenna að mér fannst það ekkert æðislegt, enda tekur hvert sæti svo mikið pláss í salnum að þetta gerði það að verkum að við vorum komin meira út til hliðar en við óskuðum okkur, en við ákváðum samt að vera voða indæl og færðum okkur, enda ekkert gaman fyrir konurnar að vera fara þrjár saman í bíó og þurfa svo að sitja dreifðar út um allan sal.

Alla vega; svo byrjar myndin og ég ætla að fara stilla sætið mit, þá kemur upp úr dúrnum að neðri hreyfanlegi hlutinn (skemmillinn) er bilaður og getur bara verið í neðstu stöðu Angry, þannig að ég gat ekki hallað mér eins langt aftur og ég hefði viljað...ég er nefnilega frekar stutt og allt var í vitlausu jafnvægi þegar bara annar hlutinn af sætinu virkar.  Ekki laust við að ég fyndi til smávegis öfundar í garð konunnar sem sat í "sætinu mínu" við hliðina á mér, þar sem allt virkaði voða vel.  En ég nennti ekki að vera svekkja mig á þessu og naut bara myndarinnar.  Í hléinu nennti ég svo ekki að fara fram að kvarta, enda ekki trúlegt að gert yrði við sætið í hléinu, sennilegra var að mér hefði bara verið vísað á annað sæti og það fannst mér ekki freistandi, vildi sitja við hliðina á vini mínum.

Svo þegar sýningin var búin og ég ætlaði að stilla bakið aftur upp í efstu stöðu þá var sú stilling hætt að virka líka GetLost.  Mér tókst tiltölulega auðveldlega að klöngrast upp úr mínu sæti, og þegar ég er staðin upp þá sé ég að allir eru að brölta eitthvað voða mikið í salnum.  Ég sé þá að öll sætin höfðu bilað, rafmagn farið af öllum stölunum og sætin því föst í þeim stöðum sem fólk hafði hreiðrað um sig í.  Ég get rétt ímyndað mér vesenið á mér ef skemmillinn hefði verið í uppréttri stöðu hjá mér, ég með mínu stuttu lappir, ég væri örugglega ennþá föst Sideways.

Ég reyndi að hlæja ekki of mikið, en það var erfitt.  Ég er nefnilega illa haldin af aulahúmor þegar ég verð vitni að svona bauki og brölti og þetta var bara drepfyndið LoL.

Skemmtileg bíóferð.  Takk Kiddi Smile


Japanskar teiknimyndir

Þegar maður nefnir teiknimyndir þá dettur flestum sjálfkrafa í hug Disney myndir fyrir börn, ekkert skrýtið þar sem Disney, Pixar og 20th century virðast eiga vestræna teiknimyndamarkaðinn. Ég er hins vegar búin að uppgötva (fyrir nokkru síðan reyndar) að það eru til frábærar teiknimyndir ætlaðar fullorðnum. Og nei, ég er ekki að tala um einhverjar dónamyndir heldur vegna þess að að þær þykja of ógnvekjandi eða of flóknar fyrir börn að skilja.
Ekki það að margar af vestrænu barnamyndunum eru drepfyndnar og fullorðnir skemmta sér örugglega jafnvel yfir þeim og börnin gera, eins og Shrek myndirnar, The Incredibles og fleiri.

En svo eru það japönsku teiknimyndirnar. Í Japan virðist litið allt öðrum augum á teiknimyndaformið en hér á Vesturlöndum. Við erum föst í því að teiknimynd á að vera sniðug, krúttleg og litrík á meðan Japanir virðast líta á teiknimyndina sem flott tækifæri til að gera eitthvað frumlegt. Eitthvað sem ekki er hægt að gera í leikinni mynd.
Auðvitað er flóran mikil og víð og fullt af drasli meðal Japanskra teiknimynda eins og í öðru. Þannig að þegar ég fór að skoða þessar myndir fyrst þá hafði ég enga hugmynd um hvað ég átti að kíkja á og hverju að sleppa.

Ég fékk þó góð ráð hjá vinum og var mjög heppin með myndir. Nú á ég ágætis safn af japönskum myndum, bæði teiknmyndum og leiknum. Ég ætla að nefna nokkrar af teiknimyndunum.
"Grave of the Fireflies" leikstýrt af Isao Takahata. Þetta er ein albesta stríðsmynd sem ég hef séð, fjallar um tvö munaðarlaus börn, systkin sem eru að reyna bjarga sér í seinni heimstyrjöldinni. Ótrúlega falleg og hjartnæm mynd (jamm ég hágrét á köflum).
"Spirited away" leikstýrt af snillingnum Hayao Miyazaki. Stórkostlegt ævintýri þar sem blandað er saman nokkrum gömlum japönskum þjóðsögum og um leið deilt á nútíma neyslusamfélag, sem er svo gráðugt að fólk týnir persónuleika sínum og jafnvel nafni. Framúrskarandi mynd.
"Princess Mononoke" líka eftir Miyazaki. Mjög falleg mynd byggð á gamalli þjóðsögu og gömlum japönskum lifnaðarháttum og viðhorfum. Heillandi og mannleg hetjusaga.
"Advent Children" leikstýrt af Tetsuya Nomura. Þetta er sú alfallegasta. Útpæld tölvuteiknimynd sem var mörg ár í vinnslu. Það er bókstaflega allt fallegt í þessari mynd, umhverfið, fólkið, meira að segja farartækin. Og svo eru smáatriðin svo nákvæm að maður sér jafnvel vefnaðinn í fatnaði fólksins. Advent Children er gerð sem framhald af playstation 1 tölvuleiknum, "Final Fantasy 7". Þó að fólk hafi aldrei spilað leikinn er myndin vel þess virði að horfa á. Samt er Advent Children frekar vestræn í uppsetningu með margt, en þó alveg dásamlega japönsk.

Mér finnst það svo einkennandi við japanskar myndir að það er ekki farið eftir þessum klassísku vestrænu klisjum sem maður þekkir orðið alltof vel. Það eru auðvitað einhverjar klisjur en samt geta japanskar myndir endalaust komið manni á óvart. Eitt sem mér finnst áberandi víða er að hlutirninr eru sjaldan settir fram í svart/hvítu eins og í vestrænum kvikmyndum. Oft sér maður sjónarhorn allra aðila og ekki er verið að rembast við að troða í mann hver á að vera vondur og hver á að vera góður. þetta kemur sérlega vel fram í "Princess Mononoke"

Semsagt ég mæli eindregið með japönskum kvikmyndum og ekki síst teiknimyndunum. Vinir mínir mega alveg kalla mig nölla vegna þess. Ef það gerir mig að nörd að horfa á japanskar myndir þá ber ég þann titil með stolti :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband