Frí

Ég er ein af þeim sem er heima hjá mér þessa miklu ferðahelgi. Ég fer sjaldan eitthvað útá land um verslunarmannahelgina, ég eiginlega forðast það. Mér finnst ekki eins gaman að ferðast um landið um leið og allir hinir Íslendingarnir, þá eru þjóðvegirnir fullir og allir stoppistaðir að springa undan kaupglöðu eða nestisþurfi fólki, biðraðir á öll salerni. Svipaður fílingur eins og að vera í Bónus á föstudegi, maður rekst alls staðar utan í fólk.
Mér finnst miklu skemmtilegra að fara útá landsbyggðina og einmitt upplifa þessa mannlausu eða mannfáu víðáttu. Komast í tengsl við náttúruna, heyra fuglana syngja eða garga, hlusta á þögnina, finna lykt af mosa og bláberjum, stinga tánum ofan í jökulkaldan læk, pissa bakvið þúfu og vita að engin er nógu nálægt til að sjá...nema kannski jórtrandi kind.
Þetta er einmitt það sem mig langar að gera það sem eftir lifir sumars. Ég er komin í sumarfrí, byrjaði í dag og nýt þess út í ystu æsar, og ég er svo heppin að eiga nokkur heimboð í farteskinu frá vinum mínum sem eru búsettir hingað og þangað um landsbyggðina svo að ég ætla að leggja land undir fót. Ég er samt ekki búin að ákveða alveg hvenær. Vá hvað ég nýt þess að þurfa ekki að plana neitt næstu vikur, þetta er æði.
Ég ætla líka að reyna fá son minn til að koma með í eitthvað roadtripp á nýja bílnum hans. Ég get örugglega sameinað það einhveru heimboðinu. Hann var að kaupa sér kraftmikinn og fallegan bíl og er að prufukeyra gripinn í fyrsta sinn útá þjóðvegunum nú um helgina. Hann er góður og reyndur ökumaður...samt er erfitt að hugsa ekki um allar hætturnar sem geta skapast þegar troðningur myndast á vegunum, það eru nefnilega ekki allir góðir ökumenn þarna úti.
Ég óska syni mínum og öllum góðs gengis í umferðinni um helgina. Komdu heill heim.
Ég er farin í bili, ætla að njóta þess að geta verið nákvæmlega eins löt og ég nenni að vera :)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Njóttu þess að geta gert það sem þú vilt næstu vikurnar og þegar þú vilt líka og ef leiðir liggja hér framhjá er alltaf hægt að redda kaffi

Dísa (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 07:36

2 Smámynd: Linda Ásdísardóttir

Já hið eina rétta um þessa helgi er að vera heima í leti! Innipúkinn í reykjavík er örugglega spennandi fyrir þá sem búa þar.

Linda Ásdísardóttir, 5.8.2007 kl. 09:52

3 Smámynd: Garún

Já það er margt að varast í umferðinni.  Ég mun reyna að hafa áhrif á guttann þegar hann fær bíl að hann fái Volvo eða Bens sem eru víst með auka styrkingu.  Er volvo ekki öruggast bíllinn?? En til hamingju með sumarfríið.

Garún, 5.8.2007 kl. 16:52

4 identicon

ahhhh,,, hafðu það gott í fríinu, ég var að ljúka mínu.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 9.8.2007 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband