Hjá Tannlækninum

Ég fór til tannlæknis á föstudaginn síðasta sem er í frásögur færandi í mínu lífi. Ég er nefnilega skelfingu lostin við tannlækna og kvíði alltaf svakalega mikið fyrir því að fara. Samt er ég með mjög góðan tannlækni. Hann er endalaust þolinmóður með mér og tekur sér alltaf tíma til að útskýra vel hvað hann ætlar að gera og hverju ég má eiga von á. Helst myndi ég vilja láta svæfa mig í hvert sinn en jafnvel tannlæknafóbíukonan ég, get alveg séð að það er alls ekki góð hugmynd.
Svo kom að því að borga og ég held að minn góði tannlæknir sé ekkert dýrari en gengur og gerist. Tannhirða er bara almennt alveg svakalega dýr. Ég velti því oft fyrir mér af hverju tannheilsa sé ekki innan heilbrigðiskerfisins? Af hverju er tannheilsa tekin svona sérstaklega út fyrir kerfið og sett á einhvern sér stað?
Það er alveg ljóst að við þurfum öll að fara til tannlæknis mörgum sinnum á lífsleiðinni (úff...) og því miður þekkja allt of margir hvað tannpína getur verið svakalega sársaukafull. Alls kyns vandræði, lítið alvarleg eða mjög alvarleg, bæði líkamleg og andleg geta sprottið útfrá tannheilsu og það er svo augljóst að þetta ætti að tilheyra almennri heilsugæslu fólks.
Ég á fullt í fangi með að koma tannhirðu kostnaði inn í mánaðar planið mitt, og hvað þá með fólk sem hefur enn minni pening á milli handanna? Það einfaldlega hafa ekki allir efni á tannheilsu sinni og ég velti fyrir mér hvort við séum sátt við að hafa það svoleiðis í samfélaginu okkar?
Mér finnst það alls ekki í lagi að þeir sem ekki hafa efni á að borga tannlækni missi tennur sínar eða þjáist af tannpínu eða alls kyns sýkingum og bólgum. Það hlýtur að vera hægt að þoka þessum málum eitthvað áfram.
Út í allt annað, það var ákveðið á síðasta Skruddufundi að við ætlum næst að lesa Yacoubian Bygginguna eftir Alaa Al Aswany. Ég er byrjuð á henni og líst ljómandi vel á. Kannski ég fari bara að lesa núna :)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Íris Ásdísardóttir

Sammála þessu með tannlækningarnar. Það er eins og að viðgerð á tönnum sé í sama flokki og brjóstastækkun eða nefminnkun til að líta betur út !!! Við förum ekki til tannlæknis til að flikka upp á lúkkið, við förum þangað því annars erum við að kalla yfir okkur heilbrigðisvandamál.......for crying out loud !!!

Íris Ásdísardóttir, 15.1.2008 kl. 19:03

2 Smámynd: Áddni

Það er nokkuð sjálfgefið að allir tannlæknar hafi verið meðlimir spænska ranssóknarréttarins í fyrra lífi! Hverjir aðrir geta komist upp með að pynta mann og láta manni finnast að það sé manni sjálfum að kenna :)

Áddni, 17.1.2008 kl. 16:14

3 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Sammála! Tannlækningar inn í heilbrigðiskerfið, enda geta sýkingar í tannholdi leitt til dauða. Ótrúlegt en satt.

Barnsfaðir minn lætur alltaf svæfa sig hjá tannlækni Við stríðum honum óspart á þessu. Hann býr náttúrlega í Bretlandi þar sem tannlækningar ERU í heilbrigðiskerfinu og á viðráðanlegu verði.

Laufey Ólafsdóttir, 18.1.2008 kl. 20:43

4 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Já Árni og láta okkur líka borga morðfjár fyrir!

Annars kemur bloggið þitt Thelma æðislega vel út á nýja sjónvarpsskjánum mínum

Kristján Kristjánsson, 20.1.2008 kl. 01:59

5 Smámynd: Grumpa

það er auðvitað líka hægt að gera eins og gert var í den, rífa allt draslið úr um þrítugt, fá sér falskar og málið er dautt

Grumpa, 22.1.2008 kl. 19:34

6 Smámynd: Sigga Hjólína

Halló, er að kíkja inn í fyrsta sinn til þín :o) Má til með að bæta við umræðuna.... Hvað finnst ykkur um tannréttingar? Að mínu mati ættu þær að vera ókeypis fyrir börn! Ég á tvo unglingsstráka sem þurftu báðir að fara í tannréttingar (byrjuðu 10 og 11 ára) og ekki af fagurfræðilegum ástæðum! S.l. 3 ár er kostnaðurinn 550.000 kall á hvorn takk fyrir. Framlag Tryggingarstofnunar ríkisins er 50.0000 en ekki fyrr en að teinarnir eru komnir í. Borga ekki góm og annað fram að þeim tímapunkti. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig slíkur kostnaður er fyrir fólk á lágmarkslaunum. Ætli tannréttingar séu ekki neðst á forgangslistanum?

Sigga Hjólína, 25.1.2008 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband