Ég er búin að vera í heimsókn hjá mömmu, Íris systur og Patreki Kára, litla frænda síðan á miðvikudagskvöld. Dásamlegt að vera hér í sveitasælunni á Eyrarbakka í kyrrð og ró. Eins og venjulega þá er ég búin að sofa eins og sleggja hér, það er bara eins og ég missi alltaf meðvitund þegar ég kem hingað. Ég veit ekki hvort það er vegna kyrrðarinnar eða af því ég er komin til mömmu :) Mér er eiginlega alveg sama af hverju það er, þetta er bara yndislegt.
Íris systir er orðin dagmamma hér á Eyrarbakka og í gær fylltist húsið af litlum krílum. Ég fékk að fylgjast með allan daginn og það var frábært. Það er endalaust krúttlegt að fylgjast með litlum börnum bauka við lífið sitt. Hvert með sinn persónuleika og sinn áhuga og sínar aðferðir. Íris er frábær dagmamma, algjörlega fædd til að vera umkringd börnum og greinilegt að litlu krílunum líður vel hjá henni.
Mér fannst æðislegt að fá að fylgjast með þeim í einn dag og taka þátt.
Eins og víðar virðist vera skortur á plássum í barnagæslu og það var fljótt að fyllast hjá Íris, þó losna aftur hjá henni tvö pláss eftir mánuð þar sem tvö af krílunum komast að á leikskóla staðarins. Íris sagði mér að sveitafélagið borgi 30.000 með hverju barni svo foreldrarnir þurfi að borga minna fyrir gæsluna. Ég fór að hugsa hvort það væru ekki margir foreldrar sem myndu kjósa að vera heima lengur með börnunum sínum. 30.000 er kannski engin gífurleg upphæð en gæti samt gert gæfumuninn á mörgum heimilum. Af hverju ætli það sé ekki í boði að fólk fái þennan pening bara beint með barninu inn á eigið heimili til að foreldrar geti verið meira heima með sínum krílum?
Ég var svo heppin að það var mögulegt fyri mig að vera meira og minna heima með syni mínum í rúmlega tvö ár og svo gat ég leyft mér að vinna hálfan daginn í nokkur ár í viðbót. Vá hvað mér þótti það dýrmætt. En þetta var aðeins mögulegt af því þáverandi maðurinn minn var með nógu góðar tekjur fyrir okkur öll ef við lifðum sparlega, sem við gerðum.
Ég er algjörlega viss um að fleiri foreldrar myndu óska þess að þetta væri mögulegt og kannski gæti þessi 30.000 kall verið akkúrat sú upphæð sem brúaði bilið hjá mörgum. Það væri alla vega þess virði að reyna það.
Vinir og fjölskylda | 26.4.2008 | 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Eins og gengur fékk ég nokkrar gjafir og þar á meðal Top Gear safnið. Valin atriði úr sjónvarps-seríunum, bílar og aftur bílar. Ég hef verið veik fyrir bílum síðan ég man eftir mér og ég fæ ennþá fiðring í magann þegar ég heyri sterka vél gefa inn. Ég á það meira a segja til að stökkva út í næsta glugga þegar ég heyri í girnilegri vél út á götu. Úr uppáhaldsglugganum mínum í íbúðinni horfi ég eftir Hringbrautinni og stundum hvíli ég hugann með því að horfa út um gluggann, á mannlíf og fallega bíla.
Svolítið skondið að ég skuli ekki eiga bíl sjálf, en samt kannski ekki. Ég hef ekki efni á að eiga bíl eins og mig langar til að eiga og ég hef heldur ekki tíma núna til að sinna slíku áhugamáli. Svo að ég læt mér nægja að horfa út um gluggann minn og drekka í mig Top Gear þættina.
Þessir þættir, eða hlutar úr þáttum sem eru á dvd diskunum eru mun eldri en það sem er verið að sýna í sjónvarpinu í dag og ég varð fyrir sárum vonbrigðum þegar hundfúl gamaldags karlremba poppar upp reglulega í þáttunum. Ég hef ekki séð þessa gömlu þætti áður, veit ekki einu sinni hvort þeir voru sýndir í sjónvarpinu á sínum tíma. En ég hef einmitt verið svo hrifin af því að í Top Gear er ekki verið að slengja fáklæddum konum uppá húddinn á bílunum eða koma með hallærisleg komment um konur í tengslum við bílana.
Ég var alsæl með Top Gear, loksins einhverjir sem gátu fjallað um fallega bíla, sem leyfa bílunum að njóta sín í botn. Ótrúlega hugmyndaríkir þættir og alveg drepfyndnir, Jeremy, Hammond og James eru ekkert nema frábærir og alls engin karlremba. Æðislegt...
...En í þessum eldri þáttum sýnir Jeremy á sér aðra og leiðinlegri hlið. Segir hluti eins og að sætið í einum bílnum sé svo dásamlegt að það sé "...eins og það sé lítil víetnömsk kona í sætinu að gefa manni nudd". Í öðru atriði var verið að meta tvo bíla, hvor væri betri í alla staði. Úrslitin réðust af því að íturvaxnar stúlkur í stuttum pilsum voru látnar setjast uppí bílana. Það sást greinilega í klofbót nærbuxna annarar stúlkunnar þegar hún settist uppí bílinn (passað vel að taka nærmynd af því) og sá bíll hafði betur vegna þess að hann sýndi upp undir pils stúlkna. Djöfull varð ég ógeðslega fúl. Ég slökkti á þessu og sagði upphátt að Jeremy gæti farið þangað sem sólin ekki skín, samt var ég ein og engin heyrði til mín...alla vega ekki Jeremy.
Ég varð aðallega fyrir svo miklum vonbrigðum, þættirnir misstu ljómann sinn og Jeremy varð með það sama að glötuðum karlfauski, hallærislegum aula sem missti kúlið. Ég hugsa samt að ég muni halda áfram að horfa á þættina, enda man ég ekki eftir að hafa séð þessa stæla í nýrri þáttunum. En mér finnst Jeremy vera eins og asni. Það hefur áreiðanlega ekki verið hann sem vildi taka rembuna úr nýrri þáttunum því þá hefði hann varla haldið þessum atriðum inná dvd settinu. Af hverju er aldrei hægt að fjalla um fallega bíla án þess að draga níð um konur inn í það?
Mér finnst þessir þættir hins vegar of góðir til að ég leyfi gömlum aulaskap í Jeremy að eyðileggja það fyrir mér, en það er alveg á hreinu að þeir féllu niður um nokkrar hæðir.
Bloggar | 13.4.2008 | 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ég var að vona að skattaskýrslan hyrfi út úr heiminum ef ég myndi vanda mig mjög við að hugsa ekki um hana, en...no such luck.
Alveg merkilegt hvað ég nenni þessari blessuðu skýrslu aldrei, samt er þetta ekkert flókið og aldrei mikið mál bara þegar kona hefur sig í að byrja á þessu. Það er bara svo fast greypt í hausinn á mér að "skattaskýrslan er það leiðinlegasta sem fylgir fullorðinsárunum" Hmm ef ein aumingjaleg skattaskýrsla væri nú í rauninni það flóknasta við lífið þá værum við trúlega flest í fínum málum. Nei þetta er bara enn einu sinni spurningin um að endurskoða gamlar skoðanir í hausnum á sér og velja eitthvað nýtt í staðinn.
Samt á ég nú bágt með að sjá hvernig hægt er að gera skattaskýrsluna að einhverju skemmtilegu. Og þó, kannski væri hægt að halda árlega keppni í skattaskýrsluútfyllingum? Það væri hægt að hafa marga flokka. Hver er fljótastur? Hver fyllir sína flottast út? Hver getur sett eitthvað í sem flesta reiti? Hver er með flestu núllinn í heildina? Það væri líka hægt að leyfa skreytingar og svo gæti það orðið svona fjölskyldusamkoma að allir kæmu saman að skreyta skýrslurnar svona eins og allir komu saman í gamla daga og gerðu laufabrauð. Eða skattaskýrslu-músastiga eða pappírsfígúrur?
Nei ég er nú bara að fíflast, best að hætta þessum kjánaskap og hunskast til að klára þessa skattaskýrslu. Æi samt klukkan er orðin svo margt og það er vinna á morgun...geri þetta annað kvöld :)
Bloggar | 26.3.2008 | 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Jæja, loksins er ég eitthvað að hressast. Þetta er búin að vera sú versta flensa sem ég man eftir að hafa fengið, alveg óþolandi. En takk fyrir allar fallegu kveðjurnar til mín kæru bloggvinir :)
Annars er ég ferlega pirruð út í dómskerfið um þessar mundir. Hvað á þessi argavitleysa eiginlega að þýða?
Tveir íslenskir dómarar að spjalla:
"Heyrðu nei sko þarna er nauðgari! Hann er víst búin að nauðga tveimur konum."
"jamm jamm og berja þá þriðju til óbóta, konan sú er víst enn á spítala."
"Nú nú, ætli við verðum þá ekki að þyngja dóminn í 3 mánuði skilorðisbundið"
"Hvað meinarðu félagi! Við verðum að gera betur en það. Hendum í hana einhverju klinki."
"Jamm jamm, við getum svo sem alveg sýnt þessari konu einhverja linkind, þó það hafi nú verið hún sem byrjaði."
"150.000 kall?"
"Jamm jamm, segjum það, hún getur þá keypt sér nýja pönnu í staðinn fyrir þá sem karlgreyið þurfti að brjóta á hausnum á henni"
"Vissirðu að við fáum Stóra málið?"
"Ha! Ertu að meina það? 11 ára stúlkuna? Sú skal sko ekki sleppa! Ha ha!!! Og reyna svo að skýla sér á bak við eitthvað heilkenni!!"
"Já ég á ekki til orð yfir þessa ósvífni í stelpunni! Og svo þykist hún líka vera of ung til að skilja að maður lokar ekki hurðum þó maður sé í uppnámi og...og...reyndi hún ekki að halda því fram líka að henni hafi brugðið?"
"Jamm mig minnir það, en hún skal nú ekki hafa okkur að fíflum, við erum klárari kallar en svo. 10 milljónir í það minnsta!"
"Sammála 10 milljónir alla vega fyrst hún þykist of ung til að sitja inni. Við verðum að stöðva þessa stelpu. Er ekki hægt að setja hana svo í skuldafangelsi?"
"Ha ha, þar gæti hún kannski dúsað með rithöfundinum sem reyndi að stela orðum annars rithöfundar. Þvílíkir stórglæpamenn!"
"Já hvert er þetta land eiginlega að stefna? En gott að við erum hér til að halda raunverulega hættulega fólki af götunum."
"Ójá, þvílíkit og annað eins pakk! Að skella hurð og stela orðum! Pffft..."
Svona er Ísland í dag og það finnst mér ekki gott. Sveiattan á íslenskt dómskerfi!!!!!
Bloggar | 16.3.2008 | 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Ég þorði ekki einu sinni að liggja alveg útaf í nótt af því þá fannst mér eins og hálsinn gæti bara alveg lokast. Ég veit, kannski smá móðursýki, en ég er illa lasinn og hugsa þá kannski ekki alveg eins og venjulega.
Ég var svo heppin að fá tíma hjá lækninum mínum núna á eftir, losnaði óvænt tími og ég hringdi inn á réttri stund og fékk þann tíma.
Vá, mér fannst ég hafa svo mikið að segja þegar ég settist niður, alveg heilu og hálfu ræðurnar sem höfðu myndast í hausnum á mér, en nú er allt horfið úr heilanum. Ferlegt að geta ekki talað, ég get ekki einu sinni spjallað við köttinn minn.
Ætla reyna fá mér eitthvað að borða. Stafrænt knús á ykkur öll...þannig smita ég alla vega engan :)
Bloggar | 12.3.2008 | 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Nú er skemmtilegri viku að ljúka. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér síðan ég kom heim frá New York og mér finnst ég næstum ekkert hafa verið heima hjá mér, nema rétt til að kasta mér undir hlýja sæng yfir blánóttina.
Í gær héldum við uppá afmæli Stígamóta sem eru orðin 18 ára. Stígamót komin á sjálfræðisaldur :) Þetta var svakaskemmtilegur dagur í gær. Að venju var fundur með fjölmiðlafólki um morgunin þar sem árskýrslan var kynnt. Um daginn, milli 14-16 var svo opið hús fyrir vini Stígamóta og það voru mjög margir sem litu við og þáðu vöfflur og kakó.
Við höfum í nokkur ár boðið nokkrum listakonum að fóstra herbergin í húsinu, í eitt ár í senn, og afmælisdagurinn hefur ævinlega verið dagurinn sem við notum til að kynna nýjar listakonur og þakka þeim sem eru að fara með listaverkin sín. Bara gaman.
Nú er laugardagur og ég er bara búin að vera dútla mér í dag, horfa á Top Gear, sem er einn af mínum uppáhaldsþáttum og dekra við son minn sem gaufast hér undir teppum og sængum með háan hita og er ósköp aumur. Ekki oft sem ég sé stráksa með svona slæma flensu. Hann fór uppá vakt áðan bara til að vera viss um að ekkert væri komið ofan í lungun. Kannski ég fari og útbúi handa honum eitthvað "gott mömmusull" :)
Bloggar | 8.3.2008 | 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
En það er sko ekki raunin. Það er auðvitað stöðugur hávaði og svona "borgarhljóð" en það er allt í lagi, þetta er ekkert meira en í mörgum öðrum borgum. Og byggingarnar eru hver annari fallegri. Hér ægir saman glæsilegum glerturnum innan um gamlar byggyngar í evrópskum stíl.
Það er ekkert mál að komast á milli staða, auðvelt að rata og lítið mál að veifa í næsta leigunbíl (ég hef sérlega gaman að því að "veiða" leigubíla :) Mér finnst ég vera búin að fara út um allt á þessum fáu dögum, meðal annars bæði í Apple búðina og í fallega borgarbókasafnið. Mikið rosalega er það æðisleg bygging. Ég settist þar inn í einn lessalinn og skrifaði í dagbókina mína og bara andaði að mér loftinu þar inni. Yndislegt!
Hótelið okkar er við 51. stræti og ég bý á 14 hæð. Ég er með skemmtilegt útsýni út götuna, umferð og mannlíf.
Kveðjur til allra
Ferðalög | 1.3.2008 | 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
En tíminn er frekar stuttur svo að ég verð að velja vel. Og það eina sem ég get alls ekki hugsað mér að sleppa er borgarbókasafnið (þetta með ljónastyttunum við innganginn) og svo finnst mér ég verða að kíkja í Apple búðina við 5th Avenue...en fyrir þá sem ekki vita þá er ég forfallin Apple aðdáandi :)
Það verður mikið fjör á kvennaþinginu og ég hlakka til að vera innan um baráttukonur allstaðar að úr heiminum. Nú tökum við Manhattan!! Málum hana rauða...eða bleika! :)
Ég á auðvitað að vera pakka niður og gera eitthvað voðalega gáfulegt, en mér fannst að ég yrði að blogga pínu áður en ég fer. Knús á ykkur öll.
Bloggar | 24.2.2008 | 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Ekki það að ég er á þeirri skoðun að aldur fólks skipti harla litlu máli...svona oftast. Ég meina það segir ekki mikið um manneskju hvað hún er gömul. Ég hef bæði kynnst framúrskarandi djúphugulum börnum og unglingum og einnig alveg einstaklega óþroskuðum, rígfullorðnum einstaklingum.
En alla vega þá er ég afskaplega stolt af mínum strák, hann er allra bestur :) En vá hvað mér finnst samt stutt síðan hann var bara lítill labbakútur og ég fékk að lesa fyrir hann á hverju kvöldi og ráða hvernig hann klæddi sig. Mikið líður tíminn hratt...en kannski samt ekki. Það er svo ótalmargt búið að gerast á þessum tíma. Mikið er ég heppin að eiga svona yndislegan son, hvaða máli skiptir hvort kona á einn eða tvo bíla eða jafnvel engan bíl þegar kona á svona einstakan strák? En æi nú er ég orðin væmin svo ég hætti að blogga um elsku Atla minn.
Til hamingju með afmælið elsku vinur :)
Bloggar | 18.2.2008 | 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Shane er yngri, aðeins um ársgamall og mjög kröftugur. Hann er kolsvartur, óvenju stór, með mjög gljáandi feld og afskaplega glæsilegur. Hann er eins og lítill pardus og þarf mikið pláss. Hann er miklu forvitnari en Kodama og elskar vatn, ég þarf bókstaflega að slást um vaskinn við hann á morgnana til að geta burstað tennurnar.
Það er núna komið í ljós að Shane þarf meira pláss en ég get boðið honum í 3ja herbergja íbúðinni minni uppá 3ju hæð. hann þarf meiri athygli en frá mér og syni mínum, við erum svo oft ekki heima. Kodama líður vel hjá okkur og er greinilega sáttur við að vera inniköttur en Shane er ekki hamingjusamur þrátt fyrir bestu umhyggju sem ég kann að gefa honum. Mig vantar því gott heimili fyrir hann. Ég er á fullu núna að reyna finna handa honum nýjan stað en gengur ekki vel. Það væri frábært ef einhver af bloggvinum mínum vissi um stað handa yndislegum ketti, látið mig endilega vita.
Jæja, ætla snemma í háttinn (aldrei þessu vant :) og býð öllum góða nótt.
Bloggar | 3.2.2008 | 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)