Mig langar til að þakka fjölskyldu minni og öllum vinum mínum sem deildu þessu með mér á einn eða annan hátt. Þið eruð æðisleg!
Það var líka alveg frábært að komast aðeins út fyrir bæinn og njóta náttúrunnar, vakna við fuglasöng og önnur dýrahljóð (já og hamagang í yngri gestum hússins :)
Takk aftur, þetta hefði ekki verið mögulegt nema með ykkur. Ég hef aldrei átt jafn gott afmæli og er alveg örugg um að gera þetta einhvern tíma aftur, að halda uppá það með því að leigja hús útí sveit og bjóða öllum að koma og gista. Ég alla vega mæli með þessu.
Bloggar | 10.4.2007 | 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég hef lítið komist á bloggið undanfarið, það hefur verið svo mikið að gera og ég rétt kem heim til mín til að sofa. Tel mig heppna ef ég næ að stinga í eina vél.
Ég fór á Hitt Feminístafélagsins í gærkvöldi, en þar var verið að ræða um vændi og heimilislausar konur á Íslandi, ja eða mest í Reykjavík. Guðrún í Stígamótum og Eva Lind talskona heimilislausra voru með frábær erindi og þetta var kraftmikið og fræðandi.
Ég ætla samt ekki að ræða það meira, enda þegar komnir góðir pistlar hjá Guðfríði Lilju, Sóley og Katrín Önnu (sjá bloggvini mína).
Ég hugsa eiginlega ekki um neitt núna nema dagana sem eru framundan, páskahelgina. Ég á afmæli á morgun og ætla að eyða helginni allri út í sveit með fjölskyldu minni og vinum og ég hlakka óhemjumikið til . Það er allt of sjaldan sem ég hitti fólkið mitt án þess að vera á einhverjum hlaupum og nú hef ég fjóra, næstum fimm daga, til að slappa af með öllum. Æðislegt!! Aldrei að vita nema ég narti jafnvel í eitt páskaegg?
Gleðilega páska!!!
Gleðilega páska
Bloggar | 4.4.2007 | 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Kosið um framtíð álversins í Hafnarfirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 31.3.2007 | 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það sem mig langar að svekkja mig á er af hverju ég fæ ekki að kjósa um þetta líka. Ekki aðeins vegna þess að ég ólst upp í Hafnarfirði og mér stendur alls ekki á sama um framtíð Hafnarfjarðar, heldur líka vegna þess að mér finnst þetta ekki vera mál Hafnfirðinga eingöngu.
Ég meina mun mengunin af þessu álveri vita að hún má ekki svífa lengra með andrúmsloftinu en að mörkum Garðabæjar? Verða kannski einhver mengunarviðsnúningartæki umhverfis Hafnarfjörð til að aðeins Hafnfirðingar muni súpa seyðið af þessu. Nei ég held ekki, enda alls ekki æskilegt.
Mér finnst að þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar um málefni sem varða svo marga, allt höfuðborgarsvæðið, já alla Íslendinga, þá á ekki að fara eftir því í hvaða bæjarfélagi lóðin liggur, heldur hugsa í víðara samhengi um áhrif ákvörðunarinnar. Það er líka alveg ljóst að ef Hafnfirðingar kjósa að setja svo mörg egg í sömu fjárhagskörfuna og það færi síðar illa, þá munu önnur bæjarfélög og ríkið þurfa að grípa þar inn í.
Ég vil fá að kjósa um þetta líka, þetta kemur mér svo sannarlega við.
Bloggar | 30.3.2007 | 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég hef velt málefnum heimilislausra á Íslandi talsvert fyrir mér. Ég ætlaði reyndar á málþing síðasta föstudag um málefni heimilislausra, en komst ekki vegna flensunnar.
Mér finnst það skelfilegt að það skuli vera til heimilislausir einstaklingar í samfélaginu okkar og ég hugsa oft um af hverju í ósköpunum þetta er svona. Erum við ekki ein ríkasta og hamingjusamasta þjóð í heimi? (alla vega samkvæmt allskonar könnunum). Samt virðumst við ekki hafa burði til að sjá fyrir frumþörfum okkar allra. Þetta einfaldlega stenst ekki. En ég er bjartsýn að eðlisfari og trúi því að við getum breytt þessu.
Einn hópur heimilislausra hefur þó ekki mikið verið í umræðunni í þessu samhnegi og það eru konur og börn sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis. Stór hópur kvenna og barna þurfa að kúldrast hjá ættingjum og vinum eða í kvennaathvarfinu árlega vegna þessa.
Síðasta ár þurftu 99 konur að leita til kvennaathvarfsins um gistingu því þær höfðu ekki í neitt annnað hús að venda. Allt saman konur að flýja ofbeldi. Í þessari tölu er ekki fjöldi barnanna sem fylgdi þeim. Höfum líka í huga að mest eru þetta konur af höfuðborgarsvæðinu, það eru ótaldar fjöldi kvenna á landsbyggðinni sem eiga ekki auðvelt með að leita til kvennaatharfs í Reykjavík.
Margar þessara kvenna eiga erfit með að hefja nýtt líf án ofbeldismannsins, oft vegna fjárhagsaðstæðna og þar getur samfélagið gripið inní. Ég veit vel að það þyrfti gríðarlegt grettistak til að stöðva allt ofbeldi, trúlega er það ekki gerlegt, en við getum stutt af bestu getu við þá sem eru beittir ofbeldi. Til dæmis verið með einhvers konar séraðstoð innan félagsmálakerfisins til handa konum og börnum sem eru að flýja ofbeldisaðstæður. Það þarf að gera konum kleift að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Nógu skelfilegt er fyrir þær og börnin þeirra að hafa verið beitt ofbeldi með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir og missa svo heimil sín, veraldlegar eigur og stundum persónulegar líka, ofan á það.
Ég hreinlega kaupi það ekki að jafn flott samfélag og við getum haft hér, sé ráðalaust gagnvart þessu.
Það á engin að þurfa vera heimilislaus á íslandi í dag.
Bloggar | 27.3.2007 | 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Þegar maður nefnir teiknimyndir þá dettur flestum sjálfkrafa í hug Disney myndir fyrir börn, ekkert skrýtið þar sem Disney, Pixar og 20th century virðast eiga vestræna teiknimyndamarkaðinn. Ég er hins vegar búin að uppgötva (fyrir nokkru síðan reyndar) að það eru til frábærar teiknimyndir ætlaðar fullorðnum. Og nei, ég er ekki að tala um einhverjar dónamyndir heldur vegna þess að að þær þykja of ógnvekjandi eða of flóknar fyrir börn að skilja.
Ekki það að margar af vestrænu barnamyndunum eru drepfyndnar og fullorðnir skemmta sér örugglega jafnvel yfir þeim og börnin gera, eins og Shrek myndirnar, The Incredibles og fleiri.
En svo eru það japönsku teiknimyndirnar. Í Japan virðist litið allt öðrum augum á teiknimyndaformið en hér á Vesturlöndum. Við erum föst í því að teiknimynd á að vera sniðug, krúttleg og litrík á meðan Japanir virðast líta á teiknimyndina sem flott tækifæri til að gera eitthvað frumlegt. Eitthvað sem ekki er hægt að gera í leikinni mynd.
Auðvitað er flóran mikil og víð og fullt af drasli meðal Japanskra teiknimynda eins og í öðru. Þannig að þegar ég fór að skoða þessar myndir fyrst þá hafði ég enga hugmynd um hvað ég átti að kíkja á og hverju að sleppa.
Ég fékk þó góð ráð hjá vinum og var mjög heppin með myndir. Nú á ég ágætis safn af japönskum myndum, bæði teiknmyndum og leiknum. Ég ætla að nefna nokkrar af teiknimyndunum.
"Grave of the Fireflies" leikstýrt af Isao Takahata. Þetta er ein albesta stríðsmynd sem ég hef séð, fjallar um tvö munaðarlaus börn, systkin sem eru að reyna bjarga sér í seinni heimstyrjöldinni. Ótrúlega falleg og hjartnæm mynd (jamm ég hágrét á köflum).
"Spirited away" leikstýrt af snillingnum Hayao Miyazaki. Stórkostlegt ævintýri þar sem blandað er saman nokkrum gömlum japönskum þjóðsögum og um leið deilt á nútíma neyslusamfélag, sem er svo gráðugt að fólk týnir persónuleika sínum og jafnvel nafni. Framúrskarandi mynd.
"Princess Mononoke" líka eftir Miyazaki. Mjög falleg mynd byggð á gamalli þjóðsögu og gömlum japönskum lifnaðarháttum og viðhorfum. Heillandi og mannleg hetjusaga.
"Advent Children" leikstýrt af Tetsuya Nomura. Þetta er sú alfallegasta. Útpæld tölvuteiknimynd sem var mörg ár í vinnslu. Það er bókstaflega allt fallegt í þessari mynd, umhverfið, fólkið, meira að segja farartækin. Og svo eru smáatriðin svo nákvæm að maður sér jafnvel vefnaðinn í fatnaði fólksins. Advent Children er gerð sem framhald af playstation 1 tölvuleiknum, "Final Fantasy 7". Þó að fólk hafi aldrei spilað leikinn er myndin vel þess virði að horfa á. Samt er Advent Children frekar vestræn í uppsetningu með margt, en þó alveg dásamlega japönsk.
Mér finnst það svo einkennandi við japanskar myndir að það er ekki farið eftir þessum klassísku vestrænu klisjum sem maður þekkir orðið alltof vel. Það eru auðvitað einhverjar klisjur en samt geta japanskar myndir endalaust komið manni á óvart. Eitt sem mér finnst áberandi víða er að hlutirninr eru sjaldan settir fram í svart/hvítu eins og í vestrænum kvikmyndum. Oft sér maður sjónarhorn allra aðila og ekki er verið að rembast við að troða í mann hver á að vera vondur og hver á að vera góður. þetta kemur sérlega vel fram í "Princess Mononoke"
Semsagt ég mæli eindregið með japönskum kvikmyndum og ekki síst teiknimyndunum. Vinir mínir mega alveg kalla mig nölla vegna þess. Ef það gerir mig að nörd að horfa á japanskar myndir þá ber ég þann titil með stolti :)
Kvikmyndir | 25.3.2007 | 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ég er að rembast við að reyna lesa eitthvað á milli hóstakastanna og miðdegislúranna (sem geta sko verið ansi margir yfir einn dag þegar maður er með tóman graut í hausnum). Ég er enn að lesa "Hroki og Hleypidómar" eftir Jane Austen og hef gaman að henni þó ég sé nú að lesa hana í annað sinn. Mér þykir sérlega gaman að lesa hana með kynjagleraugun á nefinu og hef verið að hlæja upphátt að því hvernig konur birtast í þessari bók.
Flestar konurnar eru grunnhyggnar, bjargarlausar, ósjálfstæðar, hugmyndasnauðar, vægt til orða tekið hálf kjánalegar. Þær hafa ekki áhuga á neinu nema slúðri og framtíðarplönum um hjónaband þar sem karlpeningurinn er mældur eftir hvað hann hefur í tekjur á ári.
Nema aðalkvenhetjan, Elísabet Bennet, Lissý. Hún er greind, fjörug og frökk. Hún meira að segja hafnaði dansi við Mr. Darcy og það þó hann hefði 10.000 pund í árstekjur! Hún er semsagt femínisti síns tíma en þó alveg einstaklega stillt og prúð kona og hefur allt til að bera sem blíða og umhyggjusama eiginkonu þarf að príða. Í dag myndi auðvitað engum finnast Lissý frökk, en hún hefur svo sannarlega þótt það í sínum tíma (bókin var fyrst gefin út 1813 í London)
Þetta er samt mjög skemmtileg bók að lesa og líka gaman að máta þennan tíma, þegar konur voru bara til skrauts, rós í hnappagat eiginmannsins, við nútímann okkar. Þó að enn sé langt í land víða með jafnréttið, þá er þó gott að við konur þurfum ekki lengur að láta svona kjánlega eins og konurnar í heimi Jane Austen.
Ég held að ég muni það rétt að "Hroki og Hleypidómar" er fyrsta bókin sem Jane Austen gaf út undir sínu nafni. Áður notaði hún karlmannsnafn til að einhver fengist til að lesa bækurnar.
Bækur | 23.3.2007 | 16:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Síðustu jól fékk ég "Planet Earth" seríuna í gjöf frá góðum vini og hef verið að horfa á þessa þætti undanfarið. Það dróst svolítið að skella þeim í tækið því alltaf var eitthvað meira spennandi í boði, fullt af spennu og rómantík.
Ég var þó fljót að sjá að þessir þættir eru ekkert síður fullir af spennu og nú er ég búin að horfa á sex þætti. Sex stórkostlega þætta. Þvílík fegurð og þvílík fjölbreytni sem Jörðin okkar býr yfir.
Þetta er svosem alls ekki í fyrsta skipti sem ég að sjá fallegar myndir af landslagi, ljónum, gíröffum, fjalladýrum, fuglum og svo mætti lengi telja. Þetta var meðal uppáhalds sjónvarpsefnis míns þegar ég var barn og unglingur, en það er samt orðið ansi langt síðan ég hef gefið mér tíma til að sökkva mér ofan í hugrenningar um náttúru og dýralíf í svona stóru samhengi. Ég hef meira verið að spá í nánasta umhverfið okkar, þ.e. Ísland.
Þessir þættir eru líka svolítið frábrugðnir þáttunum sem ég horfði á sem barn því núna er svo miklu meira talað um hætturnar sem steðja allstaðar að lífinu. Og þá meina ég ekki aðeins hver étur hvern, heldur að svo víða er búið að þjarma svo ótæpilega að náttúru Jarðar að það eru ekki mörg óspillt svæði eftir.
Ég á enn dýrabók sem var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var krakki og í þessari bók er mynd af hvítum nashyrningi, glæsilegu dýri sem bjó í Afríku. Í fyrra dó síðasta dýrið og nú eru þeir ekki lengur til. Þetta fyllir mig sorg. Enn eru þó mörg dýr þarna úti sem við getum sleppt því að útrýma og ótal náttúruperlur sem við getum sleppt að eyðileggja og við getum byrjað hér heima með því að hætta þessari stóriðjubilun.
Þessir þættir minntu mig á hversu mikil virði Jörðin með allri sinni fegurð er, og að það er á okkar ábyrgð að gera það sem við getum til að bjarga því sem bjargað verður. Við einfaldlega megum ekki sofna á verðinum, það er svo mikið í húfi.
Þetta minnti mig líka á að ég þarf að vera duglegri að ferðast á ómenguð svæði, ég veit ekki hverus lengi þau verða þannig.
Bloggar | 22.3.2007 | 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það er heilmikið sem mig langar að skrifa um, en ég ætla samt ekki að tjá mig neitt stórkostlega í kvöld. Klukkan er orðin margt og ég er eiginlega á leiðinni undir sæng. Ég er í frábærum lesklúbbi sem heitir "Skruddurnar" og á síðasta fundi var okkur gert að lesa bókina "Hroki og Hleypidómar" eftir Jane Austen. Ætli ég kíkji ekki aðeins í bókina áður en ég svíf á vit draumaheimanna.
Góða nótt :)
Bloggar | 21.3.2007 | 08:22 (breytt kl. 23:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)