Ég vil fá að kjósa!

Nú styttist í að kosið verði um stækkun álversins í Hafnarfirði og ég verð að viðurkenna að það er svolítill titringur í mér vegna þess. Ég vil alls ekki að þetta álver stækki. Vegna alls kyns ástæðna sem þegar er búið að ræða mikið um og ég nenni ekki að skrifa um í smáatriðum núna, enda flestir nokkuð vel með á nótunum um rökin með og á móti.
Það sem mig langar að svekkja mig á er af hverju ég fæ ekki að kjósa um þetta líka. Ekki aðeins vegna þess að ég ólst upp í Hafnarfirði og mér stendur alls ekki á sama um framtíð Hafnarfjarðar, heldur líka vegna þess að mér finnst þetta ekki vera mál Hafnfirðinga eingöngu.
Ég meina mun mengunin af þessu álveri vita að hún má ekki svífa lengra með andrúmsloftinu en að mörkum Garðabæjar? Verða kannski einhver mengunarviðsnúningartæki umhverfis Hafnarfjörð til að aðeins Hafnfirðingar muni súpa seyðið af þessu. Nei ég held ekki, enda alls ekki æskilegt.
Mér finnst að þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar um málefni sem varða svo marga, allt höfuðborgarsvæðið, já alla Íslendinga, þá á ekki að fara eftir því í hvaða bæjarfélagi lóðin liggur, heldur hugsa í víðara samhengi um áhrif ákvörðunarinnar. Það er líka alveg ljóst að ef Hafnfirðingar kjósa að setja svo mörg egg í sömu fjárhagskörfuna og það færi síðar illa, þá munu önnur bæjarfélög og ríkið þurfa að grípa þar inn í.
Ég vil fá að kjósa um þetta líka, þetta kemur mér svo sannarlega við.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grumpa

En spáðu í það hvað Hafnfirðingar verða ógeðslega ríkir!!
En án alls djóks finnst mér sjálfsagt að við höfum tækifæri til að kjósa um mikilvæg málefni sem varðar okkur öll um langa framtíð. En það tíðkast víst ekki hér. Við bara kjósum sama þreytta liðið bara ef okkur er lofað jarðgöngum í gegn um hvern hól og 1000 kalli í skattalækkun. Við höfum bara ekki tekið eftir því að skattar hafa verið hækkaðir mjög lymskulega á síðustu árum þannig að við eigum sjálfsagt enn eitt vafasamt heimsmetið, við erum öll svo bissí að græða á "góðærinu".
En kanski finnst okkur bara hipp og kúl að Ísland er að verða eins og Bandaríkin með hrikalegri misskiptingu auðs, mennta- og heilbrigðiskerfi þar sem þú þarft að borga fyrir almennilega þjónustu, almannatryggingakerfi sem er endalust verið að skera niður og stéttaskiptingu sem við höfum ekki átt að venjast. Ef þetta er okkar draumaþjóðfélag þá höldum við auðvitað bara áfram að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og hættum þessu helvítis væli!

Grumpa, 30.3.2007 kl. 14:17

2 identicon

Og svo orkan sem fer í álbræðsluna, virkjanir koma okkur öllum við. Ég vil kjósa líka

Guðrún

Guðrún (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband