Færsluflokkur: Bloggar
Ég hef velt málefnum heimilislausra á Íslandi talsvert fyrir mér. Ég ætlaði reyndar á málþing síðasta föstudag um málefni heimilislausra, en komst ekki vegna flensunnar.
Mér finnst það skelfilegt að það skuli vera til heimilislausir einstaklingar í samfélaginu okkar og ég hugsa oft um af hverju í ósköpunum þetta er svona. Erum við ekki ein ríkasta og hamingjusamasta þjóð í heimi? (alla vega samkvæmt allskonar könnunum). Samt virðumst við ekki hafa burði til að sjá fyrir frumþörfum okkar allra. Þetta einfaldlega stenst ekki. En ég er bjartsýn að eðlisfari og trúi því að við getum breytt þessu.
Einn hópur heimilislausra hefur þó ekki mikið verið í umræðunni í þessu samhnegi og það eru konur og börn sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis. Stór hópur kvenna og barna þurfa að kúldrast hjá ættingjum og vinum eða í kvennaathvarfinu árlega vegna þessa.
Síðasta ár þurftu 99 konur að leita til kvennaathvarfsins um gistingu því þær höfðu ekki í neitt annnað hús að venda. Allt saman konur að flýja ofbeldi. Í þessari tölu er ekki fjöldi barnanna sem fylgdi þeim. Höfum líka í huga að mest eru þetta konur af höfuðborgarsvæðinu, það eru ótaldar fjöldi kvenna á landsbyggðinni sem eiga ekki auðvelt með að leita til kvennaatharfs í Reykjavík.
Margar þessara kvenna eiga erfit með að hefja nýtt líf án ofbeldismannsins, oft vegna fjárhagsaðstæðna og þar getur samfélagið gripið inní. Ég veit vel að það þyrfti gríðarlegt grettistak til að stöðva allt ofbeldi, trúlega er það ekki gerlegt, en við getum stutt af bestu getu við þá sem eru beittir ofbeldi. Til dæmis verið með einhvers konar séraðstoð innan félagsmálakerfisins til handa konum og börnum sem eru að flýja ofbeldisaðstæður. Það þarf að gera konum kleift að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Nógu skelfilegt er fyrir þær og börnin þeirra að hafa verið beitt ofbeldi með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir og missa svo heimil sín, veraldlegar eigur og stundum persónulegar líka, ofan á það.
Ég hreinlega kaupi það ekki að jafn flott samfélag og við getum haft hér, sé ráðalaust gagnvart þessu.
Það á engin að þurfa vera heimilislaus á íslandi í dag.
Bloggar | 27.3.2007 | 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Síðustu jól fékk ég "Planet Earth" seríuna í gjöf frá góðum vini og hef verið að horfa á þessa þætti undanfarið. Það dróst svolítið að skella þeim í tækið því alltaf var eitthvað meira spennandi í boði, fullt af spennu og rómantík.
Ég var þó fljót að sjá að þessir þættir eru ekkert síður fullir af spennu og nú er ég búin að horfa á sex þætti. Sex stórkostlega þætta. Þvílík fegurð og þvílík fjölbreytni sem Jörðin okkar býr yfir.
Þetta er svosem alls ekki í fyrsta skipti sem ég að sjá fallegar myndir af landslagi, ljónum, gíröffum, fjalladýrum, fuglum og svo mætti lengi telja. Þetta var meðal uppáhalds sjónvarpsefnis míns þegar ég var barn og unglingur, en það er samt orðið ansi langt síðan ég hef gefið mér tíma til að sökkva mér ofan í hugrenningar um náttúru og dýralíf í svona stóru samhengi. Ég hef meira verið að spá í nánasta umhverfið okkar, þ.e. Ísland.
Þessir þættir eru líka svolítið frábrugðnir þáttunum sem ég horfði á sem barn því núna er svo miklu meira talað um hætturnar sem steðja allstaðar að lífinu. Og þá meina ég ekki aðeins hver étur hvern, heldur að svo víða er búið að þjarma svo ótæpilega að náttúru Jarðar að það eru ekki mörg óspillt svæði eftir.
Ég á enn dýrabók sem var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var krakki og í þessari bók er mynd af hvítum nashyrningi, glæsilegu dýri sem bjó í Afríku. Í fyrra dó síðasta dýrið og nú eru þeir ekki lengur til. Þetta fyllir mig sorg. Enn eru þó mörg dýr þarna úti sem við getum sleppt því að útrýma og ótal náttúruperlur sem við getum sleppt að eyðileggja og við getum byrjað hér heima með því að hætta þessari stóriðjubilun.
Þessir þættir minntu mig á hversu mikil virði Jörðin með allri sinni fegurð er, og að það er á okkar ábyrgð að gera það sem við getum til að bjarga því sem bjargað verður. Við einfaldlega megum ekki sofna á verðinum, það er svo mikið í húfi.
Þetta minnti mig líka á að ég þarf að vera duglegri að ferðast á ómenguð svæði, ég veit ekki hverus lengi þau verða þannig.
Bloggar | 22.3.2007 | 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það er heilmikið sem mig langar að skrifa um, en ég ætla samt ekki að tjá mig neitt stórkostlega í kvöld. Klukkan er orðin margt og ég er eiginlega á leiðinni undir sæng. Ég er í frábærum lesklúbbi sem heitir "Skruddurnar" og á síðasta fundi var okkur gert að lesa bókina "Hroki og Hleypidómar" eftir Jane Austen. Ætli ég kíkji ekki aðeins í bókina áður en ég svíf á vit draumaheimanna.
Góða nótt :)
Bloggar | 21.3.2007 | 08:22 (breytt kl. 23:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)