Færsluflokkur: Bloggar

Áfram Stígamót

Nú er Stígamótarútan búin að fara um Norðurlandið og nú erum við stödd við náttúruböðin við Mývatn, þar sem við ætlum að gera smástopp. Flestir ætla að skreppa í böðin og slaka vel á. Við erum búnar að stoppa á nokkrum stöðum í viðbót, Hvammstanga, Sauðárkróki, Dalvík og Húsavík. (Já Grumpa við erum búin að vera á Sauðárkróki, fúlt að missa af þér). Allir fundirnir gengu mjög vel. Það er svo mikill kraftur í þessu.
Það er gott að sjá hvað fagfólkið á stöðunum hefur verið duglegt við að mæta á fundina okkar. Hver fundur hefur líka verið fullur af hetjum, Stígamóta-hetjum.
Við erum búin að lenda í alls konar ævintýrum og upplifa margt skemmtilegt. Eins og í gær var okkur boðið að heimsækja frænda Bjargar. Sá öndvegismaður, sem ég kalla Hreinan Snilling, bauð okkur í kaffi í sumarbústað fjölskyldunnar, sem er skip útá miðju túni. Ég hef aldrei áður séð svona frumlegan sumarbústað, hann var ótrúlega flottur og það var svolítið merkilegt að þegar maður stóð uppí stýrishúsinu, þá gat maður fundið hreyfingar hafsins :) Þó ekki þannig að maður fengi sjóriðu. Stígamótafólki var líka boðið að skjóta af forláta haglabyssu og það kom í ljós að miklir skyttuhæfileikar reynast meðal Stígamóta kjarnakvenna og karla. Það eru nokkrir sundurskotnir gosbrúsar um borð í rútunni okkar því til sönnunar :)
Áfram höldum við og næsta stopp er Vopnafjörður síðdegis. Gangi okkur vel :)

Rútuferð Stígamóta

Nú er fyrsti dagur hringferðarinnar okkar liðinn og við sitjum að morgunverði á Hótel Framnesi, Grundarfirði og hlæjum að sögunum hans Júlla :)
Þessi fyrsti dagur var meiriháttar. Við stoppuðum í Borgarnesi í hádeginu og héldum góðan fund í Landnámssetrinu. Síðan héldum við gallvösk af stað og ókum um stórfenglega náttúru og héldum kvöldfund hér í Grundarfirði. Það var líka mjög góður fundur.
Við vorum ótrúlega heppin með veður, fengum sól og stillu allan daginn og nutum þess í botn. Stemmingin í rútunni er búin að vera einstök og mikill hugur í fólki. Þetta er ótrúlega skemmtilegt.
Verð að rjúka, Tóta Trucker er að mynda sig við stýrið og hún verður svo ströng ef maður gerir ekki eins og hún segir :)

Sólstafir

Ég var að koma frá ísafirði þar sem ég var að heimsækja kraftmiklar konur hjá Sólstöfum. Mér finnst frábært að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessum flottu konum og taka þátt í starfinu þeirra, þó það hafi aðeins verið í tvo daga.
Sólstafir eru eins og systursamtök Stígamóta, baráttusamtök gegn kynferðisofbeldi og staður þar sem þolendur þess konar ofbeldis geta fengið stuðning og hjálp með sín mál og sínar afleiðingar.
Ég var að koma til Ísafjarðar í fyrsta sinn síðan ég var 17 ára gömul. Þá var ég öskureiður og uppreisnargjarn unglingur og fór til að sýna öllum, algerlega öllum að ég gæti sko bjargað mér sjálf við hvaða aðstæður sem kæmu upp. Þá fór ég að vinna í frystihúsinu á Hnífsdal og bjó á verbúð sem var kölluð Heimabær.
Sunneva, hetja Vestfjaraða, fór með mig í smá bíltúr í dag og sýndi mér gamlar slóðir og mér fannst það svolítið merkilegt að sjá aftur húsið sem ég hafði búið í á sínum tíma. Frekar skrýtið. Ég átti samt erfitt með að tengja þetta hrörlega hús sem ég sá í dag við minningarnar sem ég á í huga mínum af gömlu verbúðinni. Mér fannst húsið alltaf vera fullt af sögu og afturgöngum þegar ég bjó í því 17 ára gömul. Í dag leit það sko sannarlega út eins og gamalt draugahús. Samt eitthvað heillandi.
Brekkan upp að því var samt nákvæmlega eins og ég rataði auðveldlega upp að því.
Ég óska Sólstöfum mikillar gæfu í framtíðinni og allra sem koma að samtökunum.
Takk fyrir mig kæru konur og takk líka, Hótel Ísafjörður fyrir að hugsa svona vel um mig :)
Með baráttukveðju
Vefslóð Sólstafa
http://www.solstafir.is/

10 mínútur í vinnunni

Ég veit ekkert hvað ég ætla að blogga um.  Hluta af mér finnst að ég eigi að tjá mig eitthvað um niðurstöðu kosninganna, en ef satt skal segja þá nenni ég því ekki.  það er búið að skrifa svo mikið um þetta og ég er sjálf búin að lesa tonn af kosninganiðurstöðuútskýringum undanfarið að ég er búin að fá nóg í bili.

Eurovision var á laugardaginn og ég var látin horfa á það (jamm, alveg satt, hafði ekki um neitt að velja Crying) og ég verð að viðurkenna að mér drepleiddist ekki alveg allan tímann.  Allir sem þekkja mig vita að ég er yfirlýstur anti-Eurovisionari, þannig að ég þurfti að halda reppinu og fussa og sveia reglulega yfir öllu saman.  Samt skal ég viðurkenna það hér og nú að það voru nokkur slatti góð lög þarna.  Ég ætla samt ekki að nefna hvaða lög mér fundust góð því þá verður mér úthýst úr vinahópi mínum Whistling

Semsagt sjálfsmynd mín er í molum, ég er farin að fíla Eurovision og mun jafnvel kaupa diskinn!!!  Ætli þetta hafi eitthvað með aldurinn að gera?  Ég meina, ég varð nú fertug í vor.  Hmmm...þarf að skoða þetta.


Reiðhjól í Umferðinni

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg sumt hjólreiðarfólk í umferðinni.
Ég varð vitni að því nýlega í hverfinu mínu að smá hópur hjólreiðafólks var saman úti að hjóla. Allir hjóluðu í röð uppá gangstéttinni sem var alveg auð fyrir utan mig, og nóg pláss. Nema einn maður. Hann var útá götunni en þó út í kantinum. Þegar hópurinn nálgaðist svo næstu gatnamót, biðu allir rólegir eftir grænum göngukalli, nema maðurinn sem var ekki uppá gangstéttinni. Hann snarbeygði allt í einu út á götuna. Bíll sem var að koma fyrir aftan hann, hafði greinilega gert ráð fyrir að maðurinn myndi fylgja hinum í hópnum og haga sér eins og gangandi vegfarandi. Bíllinn þurfti að sveigja snögglega frá manninum og fara vel út á akreinina fyrir bíla sem voru að koma úr gagnstæðri átt, vegna óvæntrar hegðunar hjólreiðamannsins.
Það merkilega var að hjólreiðamaðurinn brást mjög illa við. Hann barði bílinn í reiði, í húddið og í hliðarrúðuna og æpti einhver ókvæðisorð að bílstjóranum. Þegar það kom svo grænt ljós á allan hópinn, beygði bíllinn til vinstri, trúlega dauðfeginn að vera laus við reiða hjólreiðamanninn. Flest hjólreiðafólkið hjólaði yfir götuna á gangbrautinni nema sá reiði, hann stillti sér uppá miðri götunni og hjólaði áfram, frekar hægt og var fyrir allri bílaumferð. Mér fannst hann vilja ítreka þann rétt sem hann hefur í lögum sem farartæki. því auðvitað vitum við öll að reiðhjól flokkast sem farartæki, en þetta er gjörsmlega út í hött.
Og þetta er ekkert einsdæmi, ég hef nýlega, nokkrum sinnum orðið vitni að undarlegri hegðun hjólreiðafólks í umferðinni sem er alls ekki til eftirbreytni. Maður á Hverfisgötu hjólaði eins og bíll og í þrígang (sem ég sá til) tóku bílar sveig framhjá manninum og í tvö skipti munaði engu að slys yrði.
Kona með lítið barn í stól aftan á hjólinu, hjólaði út á götu á miðri Miklubraut!!!! Ekki aðeins skelfileg slysahætta, heldur einnig þvílík mengun sem vesalings barninu var boðið uppá.
Út um gluggann heima hjá mér sá ég nýlega mann hjóla á miðri Hringbraut og þrír bílar klesstu næstum hver á annan þegar þeir reyndu að sveigja fram hjá manninum. Ekkert nema mildi að ekki varð stórslys.
Svona hegðu er náttúrulega bara ávísun á óhöpp og slys í umferðinni.
Það má kannski segja sem svo að hjólreiðfólkið beri ekki ábyrgð á glöpum bílstjóranna, en þetta er auðvitað ekki svona einfalt. Við nefnilega berum öll sameiginlega ábyrgð á því að láta umferðina ganga upp. Við viljum ekki annað svona skelfingarár í umferðinni eins og 2006 var.
Ef hjólreiðarmönnum og konum finnst skipta máli að standa á rétti sínum og vera flokkuð sem farartæki en ekki gangandi vegfarandur, eða vilja berjast fyrir bættri reiðhjólamenningu í Reykjavík, þá er það bara gott og blessað. En í guðanna bænum finnið ykkur annan baráttustað en umferðina okkar þar sem líf og limir fólks eru í húfi.
Hjólið uppá gangstéttunum þar sem er yfirleitt nóg pláss. Ekki vera reyna að kenna bílstjórunum einhverja lexíu með því að búa til stórhættulegar slysagildrur. Högum okkur eftir aðstæðum hverju sinni og ég er nokkuð viss um að við séum flest sammála um að hvorki Miklabraut né Hringbraut eru reiðhjólastígar.

Komin úr útlegð

Ég er komin í netsamband aftur!!!!! Yesss!!!! Ég datt út á föstudaginn síðasta og er búin að bylta mér, sveitt og magnvana, svefnlausar nætur og gráta þess á milli. Nei bara grín, eða alla vega svolitlar ýkjur. Ég reyndi að sjá eitthvað jákvætt og uppbyggjandi við það að vera netlaus alla helgina, en verð að viðurkenna að það tókst ekkert sérlega vel. Ég játa það hér með að ég er orðin háð netinu.
Sennilega verð ég að skella mér í nokkurra ára leiðangur til Tíbet til að finna mitt innra netlausa sjálf :)

Kók og kjánahrollur

Ég er ein af þeim sem er alls ekki sátt við þessar hallærislegu Kók Zero auglýsingar. Svo fullar af mannfyrirlitningu, ekki aðeins gagnvart konum heldur líka körlum. Ég trúi því ekki að margir karlar vilja vera álitnir svona grunnir í huganum.
Ósvífni kók er jafnvel svo mikil að þeir leyfa sér að segja að verið sé að auglýsa til karlmanna sem markhóps sem jafngildir að "við höfum nú ekki meira álit á ykkur en þetta"
En alla vega þá hafa þessar auglýsingar komið mér ágætlega, já eiginlega breytt lífstíl mínum. Ég er nefnilega næstum hætt að drekka gos. Ég var ein af þeim sem drakk 2-4 lítra af kóki á viku, en eftir Zero herferðina hef ég ekki fengið það af mér að kaupa kók. Ég vil ekki styrkja fyrirtæki sem leyfir sér svona framkomu gagnvart viðskiptavinum sínum og sér ekki sóma sinn í að draga þetta til baka þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar.
Mér finnst Pepsi hins vegar vont, svo að ég sleppti því oftast að kaupa nokkuð gos. Enn kaupi ég mér stöku dós inná Hlemmi á leið í vinnu en það er allt og sumt.
Ég ætti kannski að senda Vífilfell þakkarbréf? Nei ég held ekki, enda eru þeir enn að valda mér kjánhrolli í hvert sinn sem ég sé þennan aulaskap þeirra.

Þið eruð æði!

Nú er ég komin heim úr sveitinni þar sem ég átti yndislega daga. Þetta heppnaðist vonum framar og ég komst að raun um að það er alls ekki slæmt að vera fertug :)
Mig langar til að þakka fjölskyldu minni og öllum vinum mínum sem deildu þessu með mér á einn eða annan hátt. Þið eruð æðisleg!
Það var líka alveg frábært að komast aðeins út fyrir bæinn og njóta náttúrunnar, vakna við fuglasöng og önnur dýrahljóð (já og hamagang í yngri gestum hússins :)
Takk aftur, þetta hefði ekki verið mögulegt nema með ykkur. Ég hef aldrei átt jafn gott afmæli og er alveg örugg um að gera þetta einhvern tíma aftur, að halda uppá það með því að leigja hús útí sveit og bjóða öllum að koma og gista. Ég alla vega mæli með þessu.

Ammæli

Ég hef lítið komist á bloggið undanfarið, það hefur verið svo mikið að gera og ég rétt kem heim til mín til að sofa.  Tel mig heppna ef ég næ að stinga í eina vél.

Ég fór á Hitt Feminístafélagsins í gærkvöldi, en þar var verið að ræða um vændi og heimilislausar konur á Íslandi, ja eða mest í Reykjavík.  Guðrún í Stígamótum og Eva Lind talskona heimilislausra voru með frábær erindi og þetta var kraftmikið og fræðandi.

Ég ætla samt ekki að ræða það meira, enda þegar komnir góðir pistlar hjá Guðfríði Lilju, Sóley og Katrín Önnu (sjá bloggvini mína).

Ég hugsa eiginlega ekki um neitt núna nema dagana sem eru framundan, páskahelgina.  Ég á afmæli á morgun og ætla að eyða helginni allri út í sveit með fjölskyldu minni og vinum og ég hlakka óhemjumikið til Grin.  Það er allt of sjaldan sem ég hitti fólkið mitt án þess að vera á einhverjum hlaupum og nú hef ég fjóra, næstum fimm daga, til að slappa af með öllum.  Æðislegt!!  Aldrei að vita nema ég narti jafnvel í eitt páskaegg? Tounge

Gleðilega páska!!!

Gleðilega páska


Ég vil fá að kjósa!

Nú styttist í að kosið verði um stækkun álversins í Hafnarfirði og ég verð að viðurkenna að það er svolítill titringur í mér vegna þess. Ég vil alls ekki að þetta álver stækki. Vegna alls kyns ástæðna sem þegar er búið að ræða mikið um og ég nenni ekki að skrifa um í smáatriðum núna, enda flestir nokkuð vel með á nótunum um rökin með og á móti.
Það sem mig langar að svekkja mig á er af hverju ég fæ ekki að kjósa um þetta líka. Ekki aðeins vegna þess að ég ólst upp í Hafnarfirði og mér stendur alls ekki á sama um framtíð Hafnarfjarðar, heldur líka vegna þess að mér finnst þetta ekki vera mál Hafnfirðinga eingöngu.
Ég meina mun mengunin af þessu álveri vita að hún má ekki svífa lengra með andrúmsloftinu en að mörkum Garðabæjar? Verða kannski einhver mengunarviðsnúningartæki umhverfis Hafnarfjörð til að aðeins Hafnfirðingar muni súpa seyðið af þessu. Nei ég held ekki, enda alls ekki æskilegt.
Mér finnst að þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar um málefni sem varða svo marga, allt höfuðborgarsvæðið, já alla Íslendinga, þá á ekki að fara eftir því í hvaða bæjarfélagi lóðin liggur, heldur hugsa í víðara samhengi um áhrif ákvörðunarinnar. Það er líka alveg ljóst að ef Hafnfirðingar kjósa að setja svo mörg egg í sömu fjárhagskörfuna og það færi síðar illa, þá munu önnur bæjarfélög og ríkið þurfa að grípa þar inn í.
Ég vil fá að kjósa um þetta líka, þetta kemur mér svo sannarlega við.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband