Reiðhjól í Umferðinni

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg sumt hjólreiðarfólk í umferðinni.
Ég varð vitni að því nýlega í hverfinu mínu að smá hópur hjólreiðafólks var saman úti að hjóla. Allir hjóluðu í röð uppá gangstéttinni sem var alveg auð fyrir utan mig, og nóg pláss. Nema einn maður. Hann var útá götunni en þó út í kantinum. Þegar hópurinn nálgaðist svo næstu gatnamót, biðu allir rólegir eftir grænum göngukalli, nema maðurinn sem var ekki uppá gangstéttinni. Hann snarbeygði allt í einu út á götuna. Bíll sem var að koma fyrir aftan hann, hafði greinilega gert ráð fyrir að maðurinn myndi fylgja hinum í hópnum og haga sér eins og gangandi vegfarandi. Bíllinn þurfti að sveigja snögglega frá manninum og fara vel út á akreinina fyrir bíla sem voru að koma úr gagnstæðri átt, vegna óvæntrar hegðunar hjólreiðamannsins.
Það merkilega var að hjólreiðamaðurinn brást mjög illa við. Hann barði bílinn í reiði, í húddið og í hliðarrúðuna og æpti einhver ókvæðisorð að bílstjóranum. Þegar það kom svo grænt ljós á allan hópinn, beygði bíllinn til vinstri, trúlega dauðfeginn að vera laus við reiða hjólreiðamanninn. Flest hjólreiðafólkið hjólaði yfir götuna á gangbrautinni nema sá reiði, hann stillti sér uppá miðri götunni og hjólaði áfram, frekar hægt og var fyrir allri bílaumferð. Mér fannst hann vilja ítreka þann rétt sem hann hefur í lögum sem farartæki. því auðvitað vitum við öll að reiðhjól flokkast sem farartæki, en þetta er gjörsmlega út í hött.
Og þetta er ekkert einsdæmi, ég hef nýlega, nokkrum sinnum orðið vitni að undarlegri hegðun hjólreiðafólks í umferðinni sem er alls ekki til eftirbreytni. Maður á Hverfisgötu hjólaði eins og bíll og í þrígang (sem ég sá til) tóku bílar sveig framhjá manninum og í tvö skipti munaði engu að slys yrði.
Kona með lítið barn í stól aftan á hjólinu, hjólaði út á götu á miðri Miklubraut!!!! Ekki aðeins skelfileg slysahætta, heldur einnig þvílík mengun sem vesalings barninu var boðið uppá.
Út um gluggann heima hjá mér sá ég nýlega mann hjóla á miðri Hringbraut og þrír bílar klesstu næstum hver á annan þegar þeir reyndu að sveigja fram hjá manninum. Ekkert nema mildi að ekki varð stórslys.
Svona hegðu er náttúrulega bara ávísun á óhöpp og slys í umferðinni.
Það má kannski segja sem svo að hjólreiðfólkið beri ekki ábyrgð á glöpum bílstjóranna, en þetta er auðvitað ekki svona einfalt. Við nefnilega berum öll sameiginlega ábyrgð á því að láta umferðina ganga upp. Við viljum ekki annað svona skelfingarár í umferðinni eins og 2006 var.
Ef hjólreiðarmönnum og konum finnst skipta máli að standa á rétti sínum og vera flokkuð sem farartæki en ekki gangandi vegfarandur, eða vilja berjast fyrir bættri reiðhjólamenningu í Reykjavík, þá er það bara gott og blessað. En í guðanna bænum finnið ykkur annan baráttustað en umferðina okkar þar sem líf og limir fólks eru í húfi.
Hjólið uppá gangstéttunum þar sem er yfirleitt nóg pláss. Ekki vera reyna að kenna bílstjórunum einhverja lexíu með því að búa til stórhættulegar slysagildrur. Högum okkur eftir aðstæðum hverju sinni og ég er nokkuð viss um að við séum flest sammála um að hvorki Miklabraut né Hringbraut eru reiðhjólastígar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er greinilega spennandi að búa við umferðargötu. Alveg sammála þér í þessu. Þótt hjólreiðamaðurinn hafi byrjað í rétti þá endar hann í órétti og fullorðið fólk hlýtur að vita að maður kemur aldrei vitinu fyrir hina í umferðinni!!! Ruth ætluðum við ekki að vinna verkefni um þetta???? :) 

Linda Ásdísardóttir (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 23:02

2 Smámynd: SigrúnSveitó

úff, púff...þessi reiði hjólreiðamaður hljómar eins og dani á hjóli...þeir HATA
bílana!!
Ég myndi eiginlega segja að það sé ekki pláss fyrir hjólreiðafólk í Rvk, gangstéttar eru ætlaðar fyrir gangandi og göturnar...já, ég er sammála þér um þessar götur, þær eru ekki beinlínis hjólastígar.  Það vantar einfaldlega að ráð sé gert fyrir hjólreiðafólki.

Knús

SigrúnSveitó, 24.4.2007 kl. 07:37

3 identicon

Mér finnst nú reyndar Reykjavík alls ekki vera boðleg hjólreiðafólki á neinn hátt og næstum svo slæmt að það þyrfti að banna hjólreiðar á vissum svæðum (eins og Miklubraut og Hringbraut).

Í fyrsta lagi býður landslagið ekki alveg upp á afslappaðar hjólreiðar með öllum brekkum sem fyrirfinnst í borginni.

Í öðru lagi eru skammarlega fáir hjólreiðastígar.

Í þriðja lagi er hjólamenningin hérlendis það ný að fæstir kunna þær reglur sem gilda fyrir hjólreiðafólk - hvorki það sjálft né bílstjórarnir í kring.

Sennilega bara langbest að gera eins og ég og leggja hjólinu þar til í sveitina er komið

Dísa (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 09:27

4 identicon

Nú virðist Rvk.borg samt vera að gera eitthvað í málunum, t.d. með þessum fínu hjólreiðastígum sem eru komnir í Lönguhlíðina. Eða er það Bólstaðarhlíð... Æi, þarna þar sem maður beygir af Miklubrautinni í áttina að Hlíðaskóla.
Ég vil sjá fleiri hjólreiðastíga, enda veit ég að það er stefnan hjá þeim að fjölga þeim.

Maja Solla (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 15:46

5 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Ég er alveg sammála þessu. Nú er ég ökumaður sjálf og hef ítrekað lent í því að þurfa taka stóran sveig framhjá hjólreiðarmönnum sem virðast ekki hafa neinn áhuga á að vera eins mikið úti í kanti og þeir mögulega geta, eða hreinlega hjóla bara utan vegar. Er samt sammála, Reykjavíkurborg mætti alveg leggja fleiri hjólreiðastíga í borginni.

Ruth Ásdísardóttir, 24.4.2007 kl. 18:07

6 Smámynd: Jens Guð

  Hjólreiðamönnum er vorkunn.  Að minnsta kosti ef þeir hafa dvalið erlendis og hafa vanist sérstakri reiðhjólaakrein.  En það afsakar svo sem ekki vonda hegðun þeirra.  Það er meira en aldarfjórðungur síðan ég hef stigið á reiðhjól en ég keyri bíl daglega.  Þess vegna á ég erfitt með að setja mig í spor hjólreiðamanna.  Það eru áreiðanlega einhverjir skapofsamenn á reiðhjólum eins og akandi í bílum.

  Annað þykir mér skondið.  Það er þegar nánast engin uferð er.  Maður er einn að dóla á bílnum.  Nálgast gangbraut um leið og vegfarandi.  Vegfarandinn skellir á mann rauðu ljósi.  Röltir síðan ofurrólega yfir.  Á meðan bíð ég aleinn á rauðu ljósi.

  Í gær var ég að keyra eftir Miklubraut á háannatíma,  þ.e.a.s.  upp úr klukkan 4.  Ég held að það hafi verið unglingur (sá það ekki glöggt) sem nýtti sér gangbrautarljós.  Í því tilfelli þurfti hann á því að halda.  Umferð var það þétt.  En þegar hann var kominn yfir götuna ýtti hann aftur á gangbrautarljósið í sprelli.  Við sem biðum á rauða ljósinu þurftum þess vegna að bíða tvöfaldan biðtíma án þess að nokkur notaði gangbrautina seinni hluta biðtímans.  Svo sem ágætis hrekkur en kom hugsanlega einhverjum illa sem var seinn fyrir í þungri umferð. 

Jens Guð, 24.4.2007 kl. 20:43

7 Smámynd: Grumpa

'Eg myndi hreinlega ekki þora að vera hjólandi í umferðinni í Reykjavík þannig að ég skil bara ekki þá hjólreiðamenn sem reyna ekki að halda sig sem mest á gangstéttunum. Þar eru alla vega ekki einhverjir jeppabavíanar sem halda að göturnar séu bara fyrir þá

Grumpa, 24.4.2007 kl. 20:47

8 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég hef notað reiðhjól mikið á sumrin. Að vísu var hjólinu mínu stolið í vetur (læst inní hjólageymslu grrrr). Ég hef litið á hjólreiðar meir sem heilsurækt og um leið ágætis leið fyrir styttri vegalengdir. Ég mundi aldrei hjóla á umferðagötum. Hef lent í því að jafnvel þó ég sé eins langt útí kanti og hægt er er alltaf einhver jeppinn sem sveigir fyrir mann.

Ég er sammála Thelmu að margir hjólreiðamenn eru ótrúlega skrítnir. Það er ekkert sem réttlætir það að hjóla á miðjum umferðargötum og stofna líf og limi í hættu. Stundum verður maður orðlaus þegar maður sér aðferðirnar hjá sumum. Eins eru margir tilitslausir sem hjóla á gangbrautum. Ég var fljótur að finna skástu leiðir að hjóla í bænum og það er alveg hægt með smá útsjónarsemi og tilitssemi. Það ætti að vera forgangsmál að bæta hjólreiðasamgöngur. Bæði er það mjög heilsusamlegt og ég tala nú ekki um hvað það mengar minna :-)

Kristján Kristjánsson, 25.4.2007 kl. 21:17

9 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Það er ekki vænlegt til árangurs fyrir hjólreiðafólk að reiða sig á bílana á einn eða neinn hátt. Sjálfur geng ég alltaf út frá því að ég sé ósýnilegur í umferðinni, eða þá að bílstjórar sitji um líf mitt.

Ég ólst upp við að það væri bannað að hjóla á gangstéttum og það var ekki fyrr en ég fór að hjóla með börnunum mínum að ég fór fyrst að prófa þessa nýlundu sem var lögleiddd einhvern tímann upp úr 1980. Eftir sem áður hafa reiðhjól þó alveg sama rétt og bílar á götunum.

Eitt hrekur mig af götunum meira en nokkuð annað: íslenskir bílstjórar eru alveg hræðilegir. Ég er ekki að tala um tillitsleysið, enda er það þekkt breyta. Ég er að tala um hversu ótrúlega óútreiknanlegir þeir eru. Ég vann sem hjólreiðasendill í Lundúnum í marga mánuði þar sem ég hjólaði uþb 200 kílómetra á degi hverjum í umferðinni í miðborginni þar sem minna var um hjólastíga en hér og enn bannað að hjóla á gangstéttum og aldrei sá maður breska ökumenn gera neitt sem var ekki útreiknanlegt. 

Elías Halldór Ágústsson, 30.4.2007 kl. 09:23

10 identicon

Þessi hjólreiðamaður hefur sennilega verið á keppnishjóli (racer). Slík hjól þola ekki kantana á mótum göngustíga og gatna og þess vegna hjóla menn á götunum. Einnig er slysahættan mikil þegar hjólað er á slíku hjóli á gangstétt þar sem gangandi vegfarendur og ljósastaurar eru til staðar. Það er ekkert óvanalegt að hjólreiðamenn hjóli á 40km/klst á racerum. Ég hjóla sjálfur á racer í Danmörku og mun flytjast til Íslands í haust. Ég geri ráð fyrir því að hjóla á götunum, út á kanti. Þið ættuð að íhuga að sýna hjólreiðamönnum þakklæti fyrir að menga ekki loftið. Jafnvel að prófa að hjóla í vinnuna. Þið eruð fljót að borga upp 50.000kr gæðafjallahjól og að auki sameina líkamsrækt og ferðalög í og úr vinnu.

Árni (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 12:41

11 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég fer allra minna ferða á hjóli allan ársins hring og þau einu skipti sem ég hjóla á götunni er þegar bílum er lagt upp á gangstétt svo að enginn kemst framhjá, til dæmis á Hringbrautinni á móts við Hofsvallagötu og á Hverfisgötunni, á hvorugum staðnum er gott að þurfa að fara út í umferðina. Það eru einstaka gangstéttir þar sem bannað er að hjóla, held samt að það sé bara Laugavegurinn. það sárvantar fleiri hjólastíga um borgina. En annars, þessi maður sem þú lýstir hlýtur að eiga eitthvað bágt, svona framkoma er bara bjánaskapur.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 2.5.2007 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband