Konur án heimila

Ég hef velt málefnum heimilislausra á Íslandi talsvert fyrir mér. Ég ætlaði reyndar á málþing síðasta föstudag um málefni heimilislausra, en komst ekki vegna flensunnar.
Mér finnst það skelfilegt að það skuli vera til heimilislausir einstaklingar í samfélaginu okkar og ég hugsa oft um af hverju í ósköpunum þetta er svona. Erum við ekki ein ríkasta og hamingjusamasta þjóð í heimi? (alla vega samkvæmt allskonar könnunum). Samt virðumst við ekki hafa burði til að sjá fyrir frumþörfum okkar allra. Þetta einfaldlega stenst ekki. En ég er bjartsýn að eðlisfari og trúi því að við getum breytt þessu.

Einn hópur heimilislausra hefur þó ekki mikið verið í umræðunni í þessu samhnegi og það eru konur og börn sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis. Stór hópur kvenna og barna þurfa að kúldrast hjá ættingjum og vinum eða í kvennaathvarfinu árlega vegna þessa.
Síðasta ár þurftu 99 konur að leita til kvennaathvarfsins um gistingu því þær höfðu ekki í neitt annnað hús að venda. Allt saman konur að flýja ofbeldi. Í þessari tölu er ekki fjöldi barnanna sem fylgdi þeim. Höfum líka í huga að mest eru þetta konur af höfuðborgarsvæðinu, það eru ótaldar fjöldi kvenna á landsbyggðinni sem eiga ekki auðvelt með að leita til kvennaatharfs í Reykjavík.
Margar þessara kvenna eiga erfit með að hefja nýtt líf án ofbeldismannsins, oft vegna fjárhagsaðstæðna og þar getur samfélagið gripið inní. Ég veit vel að það þyrfti gríðarlegt grettistak til að stöðva allt ofbeldi, trúlega er það ekki gerlegt, en við getum stutt af bestu getu við þá sem eru beittir ofbeldi. Til dæmis verið með einhvers konar séraðstoð innan félagsmálakerfisins til handa konum og börnum sem eru að flýja ofbeldisaðstæður. Það þarf að gera konum kleift að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Nógu skelfilegt er fyrir þær og börnin þeirra að hafa verið beitt ofbeldi með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir og missa svo heimil sín, veraldlegar eigur og stundum persónulegar líka, ofan á það.
Ég hreinlega kaupi það ekki að jafn flott samfélag og við getum haft hér, sé ráðalaust gagnvart þessu.
Það á engin að þurfa vera heimilislaus á íslandi í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Ég er innilega sammála þessum hugleiðingum. Einn anginn af þessum alvarlegu málum er án efa aðstæður hjá konum sem þurfa að flýja heimili sitt vegna ofbeldis sambýlismanns. Hvaða sanngirni er það að fórnarlambið þurfi að flýja en ofbeldismaðurinn situr eftir á heimilinu? Kolbrún Halldórsdóttir og fleiri reyndu að koma breytingu á lögum í gegnum þingið sem drukknaði á síðustu dögum um að lögregla geti meinað ofbeldismanni aðgang að íbúð þar sem grunur um að ofbeldi hafi verið beytt. Það má lesa um þau lög hér http://www.althingi.is/altext/133/s/0071.html

Það kemur ekki til að stöðva það að konur þurfi að flýja heimili sín en réttarstaða þeirra gætu stórbatnað og gefur lögreglu heimild til að fjarlægja ofbeldismanninn. Ég vona að ný stjórn með Thelmu og hennar fólki komi til með að gera grettisátak í þessum málum það er svo sannarlega þörf á því.

Þessi hugmynd mér séraðstoð innan félagsmálakerfisins er hugmynd sem ætti að skoða vel.

Kristján Kristjánsson, 27.3.2007 kl. 21:32

2 Smámynd: Heiða  Þórðar

Það er nefna heila helv. málið!

Heiða Þórðar, 27.3.2007 kl. 22:32

3 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Skelfilegt staðreynd. Fyrir jólin sl var ég á rölti í Kringlunni og auðvitað í innkaupaleiðangri. Vatt sér að mér kona og bauð mér merki til sölu. Ég spurði til styrktar hverjum og þá var það til styrktar heimilislausum. Þarna var ég...á rölti um Kringluna, áhyggjulaus með öllu meðan fólk á ekki þak yfir höfuðið. Þetta stuðaði mig, ég keypti merkið og fór heim. Þakklát fyrir það hvað ég hef það gott. Hvernig stendur á því að það er heimilislaust fólk á Íslandi? Það er algjörlega til skammar fyrir ráðamenn þjóðarinnar.

Brynja Hjaltadóttir, 27.3.2007 kl. 23:03

4 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Góður pistill Thelma. Hef líka oft pælt í þessu sem Kristján segir. Málið er bara það (og nú tala ég sem fyrrverandi sambýliskona ofbeldismanns) að maður getur ekki hugsað sér að búa áfram á heimilinu þar sem ofbeldið átti sér stað. Ég er ekki viss um að maður hefði rifið sig almennilega upp úr þessu "mynstri" ef maður hefði búið áfram á staðnum. Ég er auðvitað bara að tala fyrir sjálfa mig núna og var þar að auki heppin að hafa góðan stuðning frá ættingjum og vinum. Það búa ekki allir svo vel því miður. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa einmitt þetta úrræði í lögunum þar til önnur lausn finnst fyrir konur í þessari stöðu.

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 28.3.2007 kl. 09:02

5 identicon

Mikið er ég sammála þér.  Þetta er ekki velferðarþjóðfélag á meðan við getum ekki séð um ALLA meðlimi þess á viðunandi hátt.  Sjálf er ég hlynnt Austurrísku aðferðinni að fjarlægja ofbeldismanninn af heimilinu en ég er samt svolítið sammála Jónínu Sólborgu hér að ofan.  Hefði sjálf ekki viljað búa á heimili okkar fyrrverandi eftir að ég hafði orkuna til að skilja.  En vissulega hefði það gert manni auðveldara fyrir að hann hefði verið fjarlægður af heimilinu ef ég hefði kallað til lögreglu til dæmis.  Fjarlægður tímabundið allavega á meðan maður hefði fengið smá tíma til að átta sig og undirbúa betur framhaldið í stað þess að eins og margar þurfa að gera að flýja heimilið með ekkert með sér.

Thelma mín þú ferð bara á þyng núna og breytir kemur þessu í gegn :) 

Dísa (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 09:34

6 Smámynd: Ruth Ásdísardóttir

Algjörlega sammála. Og ef konur vilja ekki búa á heimili sínu áfram þar sem ofbeldið átti sér stað, þá á að aðstoða þær við að endurheimta eigur sínar og koma sér upp nýju heimili. Það verða að vera til úrræði fyrir þá sem lenda í svona. Góður pistill hjá þér Thelma mín. :)

Ruth Ásdísardóttir, 28.3.2007 kl. 10:47

7 identicon

Já, þið segið nokkuð. Vandamálið liggur í almennu viðhorfi. Heimilisofbeldi er vandamál þeirra á viðkomandi heimili, heimili er jú heilagt. Lögreglan getur ekkert gert fyrr en ofbeldið er orðið að veruleika, og þegar það gerist þá er karlinn hirtur upp og sleppt á næsta götuhorni. Konur sem verða skotnar í mönnum sem reyndast ofbeldisfullir eru litnar hornauga, næstum þér var nær viðhorf. Ef konur fá nálgunarbann verða þær sjálfar að sanna það með vitni/mynd ef ofbeldismaðurinn brýtur það bann. Og það sem verst er - börn sem lifa við heimilisofbeldi eru "þannig börn", starfsfólk leik- og grunnskóla eru engan veginn í stakk búin til að takast á við slík mál. Þess vegna felum við sem lendum í heimilisofbeldi okkur hjá vinum og vandamönnu, þar fáum við stuðning og aðstoð, það væri jafnvel betra að vera í felum á götunni, þar finnur ofbeldismaðurinn mann ekki. Meðan viðhorfin eru eins og þau eru verða margar konur og mörg börn á götunni vegna þessa máls.

Drífa Sig (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 11:01

8 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Frábær pistill Thelma.  Þetta eru alveg rétt og fáranlegt í okkar "ríka" þjóðfélagi.  Að sé ekki hægt að hjálpa til svo að allir eigi þess kost að hafa þak yfir höfuðið.  Varðandi konur sem verða að flýa af heimilinu vegna ofbeldis þá verður að finna lausn við því.  Sé ekki hægt að fjarlæga ofbeldismanninn af heimilinu þarf að finna lausn fyrir konuna þar sem hún getur verið óhult. 

Sædís Ósk Harðardóttir, 28.3.2007 kl. 17:11

9 Smámynd: Jens Guð

  Ráðamenn,  bæði hjá ríki og sveitarfélögum,  eru áhugalausir um heimilislaust fólk.  Það er svo stutt síðan það kom upp á borðið í umræðunni að til væri fátækt á Íslandi og að til væri heimilislaust fólk. 

  Metnaður ráðamanna gengur út á að koma Íslandi í oryggisráð Sameinuðu þjóðanna.  Það þykir ekki tiltökumál að henda 400 milljónum kr.  út um gluggann í það gæluverkefni.

  Forysta stjórnarflokkanna þótti upphefð af því að vera formlega í innrásarliði í Írak sem nú hefur skilið eftir sig dauða milljón manns og limlestingar nokkurra milljóna til viðbótar.  Sjálfsagt þótti að rústa landinu og íslensk stjórnvöld blása ekki úr nös við að setja 400 milljónir í "uppbyggingarstarf". 

  Áfram er hægt að telja.  En þegar talað er um úrræði fyrir heimilislausa Íslendinga er enginn áhugi fyrir því vandamáli.  Það er gott hjá þér,  Thelma,  að vekja athygli á málinu.  Með aukinni umræðu verður hægt og bítandi til hugarfarsbreyting sem skilar sér vonandi til ráðamanna.    

Jens Guð, 28.3.2007 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband