Misskilin afþreying

Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju sumar bókmenntir þykja "fínni" en aðrar. Að fólk sem les Shakespeare gamla sé þá dýpra og gáfaðra heldur en fólk sem les Ísfólkið. Þetta verður eins og hluti af sjálfsmyndinni.
Ekki það að að ég leyfi mér hiklaust, eins og flestir gera, að velja og hafna. Auðvitað gerir maður það. Og ég segi hiklaust að hin og þessi bókin sé allt of mikið rusl til að ég eyði tíma mínum í að lesa hana. En það er samt svo oft sem búið er að ákveða fyrirfram í samfélagsvitundinni hvað er flott að lesa og hvað ekki. Og yfirleitt eru það afþreyingarbókmenntirnar sem þykja lélegasti pappírinn.
Ég hef bæði lesið Shakespeare og Ísfólkið og ég mun ekki bera það saman sem eitthvað svipað (þó það væri nú eflaust hægt að finna ýmislegt sameiginlegt með þeim ef hausinn væri lagður í gott bleyti :) Ég elska bækur sem vekja hjá mér alveg nýja hugsun, snúa einhverri sýn hjá mér alveg á hvolf og ég hef svo sem hvorki upplifað það hjá Morgan Kane né Ísfólkinu. En stundum er ég líka bara að lesa til að hvíla hugann. Fara á gott flug um ástir, örlög og ævintýri. Og mér finnst bækur sem geta veitt mér það alveg jafn mikilvægar og hinar sem dýpka vitneskju mína um sjálfa mig og heiminn.
Sumum þykir voða fínt að lesa texta sem er svo torlesinn og ruglaður að hann skilst varla. Mér finnst slíkar "sögur" bara vera bull og alls ekki bera höfundi góð vitni. Hver er tilgangurinn með að skrifa sögu sem engin skilur? Ef höfundar hafa sögu að segja þá vil ég láta segja mér söguna og mér sé síðan sjálfri leyft að fara á flug út frá sögunni sem ég las. Mér sem lesanda er alveg sama hvort höfundur veit svo mikið um íslenskt mál að hann/hún getur troðið 300 orðum í sömu setningu og að sú setning innihaldi 3000 samhljóða. Eða að höfundur sé að brjóta blað í frásagnarhætti á einhvern hátt. Það má eflaust kalla þetta einhvers konar list, en í mínum huga er það ekki frásagnarlist. Ég tel að frásagnarlist felist einmitt í því að segja þannig frá að þú vekjir áhuga og að hægt sé að hverfa inn í söguna sjálfa án þess að vera endalaust með hugann við einhvern "stórkostlegan frumleika" höfundarins.
Ég upplifi þetta oft sem tilgerð og stæla í höfundum. Eins og einhverja tilraun til að vera svo "spes". Eða til að fela eigið hæfileikaleysi.
Ég man eftir bók sem kom út fyrir ekki svo löngu síðan og hafði einhvern titil sem ég nennti ekki að leggja á minnið. Nema hvað allar síðurnar í bókinni voru auðar og átti þetta að vera eitthvert tjáningarform hjá "höfundi". Það besta var að fólk keypti þetta sem eins konar list!!! Þetta er auðvitað bara fyndið og minnir óneitanlega á "Nýju fötin keisarans"
Semsagt þá ætla ég að halda áfram að lesa Milton og Shakespeare, Harry Potter eða bara góða Manga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get sko kvittað algjörlega undir þetta hjá þér þar sem ég er 100% sammála þér

Dísa (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 13:40

2 Smámynd: Grumpa

æjá hvað það er sorglegt þegar fólk er að snobba fyrir bókmenntum. maður á auðvitað að lesa það sem manni finnst skemmtilegt hvort sem það eru Hómerkviður eða ævisaga Lemmy. en reyna að hafa þetta svolítið fjölbreytt

Grumpa, 16.6.2007 kl. 14:01

3 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Sammála Thelma. Þetta gerist líka dálítið í tónlistinni. Það er stundum snobbað fyrir ákveðnum tónlistarstefnum og sumt þykir ekki nógu "fínt"  

Kristján Kristjánsson, 16.6.2007 kl. 14:19

4 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Jedúddamía hvað ég er sammála þér Thelma! En þetta getur hins vegar líka snúist algjörlega við. Ég er alin upp af .... já líklega bókmenntasnobburum og er  t.a.m mjög mikið fyrir fornsögur og ævisögur gamalla hetja á borð við Einar Ben, Jón Sig og Matthías, og ég get sagt þér að það er bara alls ekki 'inn' hjá fólki á mínum aldri eða það hef ég allavega upplifað. Hins vegar er ég bundin Harry Potter ævarandi tilfinningaböndum og mamma er bara miður sín vegna smekkleysu minnar (og það þarf vart að taka fram að hún hefur að sjálfsögðu ekki lagst svo lágt að glugga í Harry Potter)

Ég les mér til skemmtunar fyrst og fremst og það eina sem lesning þarf að hafa til að bera skemmtanagildi , nú eða fróðleiksgildi ef það er það sem ég sækist eftir. Sumum finnst mest kúl að lesa bækur sem eru nánast ólæsilegar sökum orðskrúðs og ... jújú þá er ég svosem alveg til í að taka ofan af fyrir þeim. En ekki fyrir snilldarsmekk heldur fyrir það afrek að hafa komist í gegnum þær

Góður punktur! 

Aðalheiður Ámundadóttir, 16.6.2007 kl. 16:49

5 Smámynd: Garún

Mjög góður punktur Thelma.  Ég les einnig mjög mikið og reyndar er þekkt fyrir það að lesa sömu bækurnar aftur og aftur.  Hef lesið Eragon 4 sinnum bara á þessu ári.  Tók meðvitaða ákvörðun fyrir fimm árum þegar ég reyndi að lesa bók eftir Milan Kundera.  Ákvörðunin snérist um það að koma útúr skápnum með leshneigð mína.   Ég byrjaði þá að safna bókum með flottum titlum, og á nú mjög flott safn. t.d "sekur flýr þó engin elti", "í klóm kamelljónsins"  "ólöf eskimói" "Þegiðu Sigríður" og fleiri skemmtilega titla.  Ég safna einnig öllum Agatha Christie bókunum.   Hef lesið Ísfólkið svona einu sinni á ári í 15 ár og finnst ég betri manneskja eftir það.  Eina bókmenntarsnobbið mitt er reyndar að ég safna ljóðum og finnst ekkert skemmtilegra en að lesa upp ljóð fyrir Guðbjörgu maka minn henni til mikillar ánægju.  

En svaka góður punktur Thelma....p.s ég væri til í að stofna svona leshóp.  Hvar finnur maður svoleiðis....

Garún  

Garún, 17.6.2007 kl. 10:30

6 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Þó að Rowling sé að stela ansi miklu frá öðrum, þá er Harry Potter náttúrulega bara tær snilld :). Það er líka mikið af frábærum sögum í Íslendingasögunum, eins og Njála, sem þú varst að skrifa um nýlega Aðalheiður.

Svona lesklúbb stofnuðum við bara nokkrir vinir í hóp. Við ákváðum að hittast fjórða hvern sunnudag og höldum okkur fast við það, svo það leysist ekki uppí endalausar frestanir eins og gengur. Svo fær sá sem heldur fundinn hverju sinni (við skiptumst á) að velja næstu bók sem á að lesa og það er allt leyfilegt, Morgan Kane, Jane Austen...allt nema Thor Vilhjálmsson, það vorum við öll sammála um :) Þetta er svakagaman.

Er sammála þér Garún með ljóð, þau eru mörg æðisleg. Ég til dæmis elska að lesa upphátt fyrir sjálfa mig "The Raven" eftir E. A. Poe. ótrúlega falleg orð. Ég reyndi einu sinni að lesa þetta fyrir son minn sem þá var 13 og hann fussaði svo svakalega að ég ákvað bara að lesa fyrir mig sjálfa eftir það :)

Thelma Ásdísardóttir, 17.6.2007 kl. 17:35

7 identicon

Já mikið rétt. Annars veit ég ekki betur en að Shakespear hafi verið álit afþreyingarleikhús á þeim tíma sem hann var að skrifa og það var bara vegna þess að fólkið elskaði þessi lámenningarstykki hans sem hann varð svona frægur... og er enn í dag.  Kannski smá ýkjur ég er ekki ve að mér í leikhúsfræði en ég heyrði þetta einmitt að hann hefði brotið allar reglur varðandi leikhúshandrit og verið með söguþráðin svona aðeins of slísí fyrir skemm margra. 

Hver veit nema Morgan Kane eigi eftir að verða námsefni í skólum seinna? Þá sem kennsluefni í kynjafræði árið 2075 ....?

Linda Ásdísardóttir (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 20:57

8 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Góðir punktar hjá þér og mikið er ég sammála þér! 

Guðrún Þorleifs, 20.6.2007 kl. 07:22

9 identicon

Hef aldrei skilið svona flokkanir. Lestrarefni þessarar viku samanstendur af Harry Potter, Harvard Buisness Review, Einar Áskell og Dimmalimm. Er ég þá ýkt greind eina stundina og á kafi í lágmenningunni þá næstu? Móðir sem ýmist segir dóttur sinni að vera uppátækjasöm og grandskoða umhverfið eða sitja og vera sæt? Come on!!!

Monopoly (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband