Á faraldsfæti

Ég lagði land undir fót um helgina og skellti mér á ættarmót norður í landi. Þetta varð hin skemmtilegasta ferð. Gaman að hitta allt þetta fólk, við fengum ljómandi veður alla helgina og svo er bara svo óskaplega gaman að skoða okkar fallega Ísland. Ég hitti líka óvænt gamla vini í sjoppunni við Brú sem var sérlega gleðilegt.
Mótið var haldið að Húnavöllum, en móðurætt mín er mest þaðan úr nágrenninu. Við fórum á Blönduós, Skagaströnd og að bænum Hof til að skoða staði og hitta fólk. Ég finn alltaf illa fyrir því að ég er andlitsblind á svona samkomum og gengur afar illa að þekkja fólk í sundur. Það er líka svo mikill ættarsvipur með mörgum í ætt minni og það flækti málin. Ég þorði stundum ekki að fara að fólki og kynna mig og segja:
"Sæl, ég heiti Thelma og er dóttir Ásdísar Páls", því ég var svo hrædd við að fá svarið:
"Heyrðu væna mín, þú varst að kynna þig fyrir mér fyrir hálftíma síðan. Hvurslags vitleysisgangur er þetta?"
Svo að ég hélt mér til hlés og vonaði að aðrir myndu stökkva á mig. Það gekk alveg ágætlega og ég gat kynnt mig fyrir fullt af fólki :)
Á sunnudaginn ákváðum við Ruth systir (en við vorum saman í bíl) að skella okkur til Akureyrar fyrst við vorum nú komnar hálfa leiðina hvort sem var. Íris, mamma og Patrekur litli ákváðu að koma með okkur í samfloti á Írisar bíl og svo eyddum við góðum tíma á Akureyri saman í dásamlegu veðri. Við fengum okkur að borða á Bautanum og ég gef þeim stað toppeinkunn. Maturinn var mjög góður og þjónustan aldeilis frábær.
Á leiðinni heim villtust Íris, mamma og Patti inná Blönduós og þeim fannst svo gaman að vera í ferðalagi að þau ákváðu að vera degi lengur. Fengu sér gistingu og gerðust túristar og fóru að skoða alls konar staði. Síðast frétti ég af þeim við einhverja steinakirkju. Vonandi rata þau heim.
Við komum heim frekar seint í gærkvöldi sem var ágætt því þannig sluppum við við örtröðina í umferðinni. Urðum auðvitað vitni að nokkrum bjánum í umferðinni, en þannig er það trúlega alltaf. Við sáum bæði fólk sem ók á alltof miklum hraða og skapaði þannig hættu fyrir alla í kring og svo líka nokkra sem óku alltof hægt, söfnuðu löngum röðum fyrir aftan sig, og bjuggu þannig til hættuástand
Í heildina var þetta frábær helgi. Ég ætla að gera meira af þessu það sem eftir er sumars.

Bíóferð

Mér var boðið í bíó í síðustu viku og var það bara skemmtilegt.  Við fórum á Harry Potter í Álfabakka og var myndin ágæt, samt ekta svona "millikafla"-mynd.

Vinur minn var flottur á því og við fórum í Vip salinn.  Ég hef séð myndir þar áður og alltaf verið voða ánægð, en þetta varð svolítið skondin bíóferð.  Fyrst þurftu allir að bíða í forsalnum fyrir aftan band og okkur var ekki hleypt inn fyrr en talsverður fjöldi var komin og þá ruddust auðvitað allir inn í einu og bestu sætin kláruðust strax.  Ég og vinur minn fengum sæti í fremstu röð og ég hafði engar áhyggjur af því, vegna þess að ég hafði setið fremst áður og vissi að ef maður bara hallar sætinu vel aftur þá yrði þetta fínt.  Þegar við vorum passlega búin að koma okkur vel fyrir þá koma þrjár konur og biðja okkur um að vera svo væn að færa okkur um einn rass svo að þær gætu setið saman.

Verð að viðurkenna að mér fannst það ekkert æðislegt, enda tekur hvert sæti svo mikið pláss í salnum að þetta gerði það að verkum að við vorum komin meira út til hliðar en við óskuðum okkur, en við ákváðum samt að vera voða indæl og færðum okkur, enda ekkert gaman fyrir konurnar að vera fara þrjár saman í bíó og þurfa svo að sitja dreifðar út um allan sal.

Alla vega; svo byrjar myndin og ég ætla að fara stilla sætið mit, þá kemur upp úr dúrnum að neðri hreyfanlegi hlutinn (skemmillinn) er bilaður og getur bara verið í neðstu stöðu Angry, þannig að ég gat ekki hallað mér eins langt aftur og ég hefði viljað...ég er nefnilega frekar stutt og allt var í vitlausu jafnvægi þegar bara annar hlutinn af sætinu virkar.  Ekki laust við að ég fyndi til smávegis öfundar í garð konunnar sem sat í "sætinu mínu" við hliðina á mér, þar sem allt virkaði voða vel.  En ég nennti ekki að vera svekkja mig á þessu og naut bara myndarinnar.  Í hléinu nennti ég svo ekki að fara fram að kvarta, enda ekki trúlegt að gert yrði við sætið í hléinu, sennilegra var að mér hefði bara verið vísað á annað sæti og það fannst mér ekki freistandi, vildi sitja við hliðina á vini mínum.

Svo þegar sýningin var búin og ég ætlaði að stilla bakið aftur upp í efstu stöðu þá var sú stilling hætt að virka líka GetLost.  Mér tókst tiltölulega auðveldlega að klöngrast upp úr mínu sæti, og þegar ég er staðin upp þá sé ég að allir eru að brölta eitthvað voða mikið í salnum.  Ég sé þá að öll sætin höfðu bilað, rafmagn farið af öllum stölunum og sætin því föst í þeim stöðum sem fólk hafði hreiðrað um sig í.  Ég get rétt ímyndað mér vesenið á mér ef skemmillinn hefði verið í uppréttri stöðu hjá mér, ég með mínu stuttu lappir, ég væri örugglega ennþá föst Sideways.

Ég reyndi að hlæja ekki of mikið, en það var erfitt.  Ég er nefnilega illa haldin af aulahúmor þegar ég verð vitni að svona bauki og brölti og þetta var bara drepfyndið LoL.

Skemmtileg bíóferð.  Takk Kiddi Smile


Klukk á mig

Ég var klukkuð af henni Grumpu og ætla að vera með þó að ég sé venjulega mjög dugleg að kasta öllu svona keðjubulli beint í ruslið. Ég á semsagt að segja frá 8 atriðum um sjálfa mig sem þið vissuð ekki og klukka svo 8 manns. Hér koma 8 smá leyndarmál um mig:

1. Fyrsta ljóðið sem ég samdi heitir "Valdimarakakan" en þá var ég 8 ára
2. Á unglingsárum stalst ég til að lesa ástarsögur systur minnar, en vildi ekki viðurkenna það af því ég skammaðist mín fyrir að lesa asnalegar ástarsögur.
3. Mér leiðast vel snyrtir garðar, ég kýs villta órækt.
4. Ég hef mjög gaman af útsaumi þar sem þarf að telja fyrir hverju spori, en gef mér aldrei tíma til að sauma.
5. Mér finnast beljur mest ógnvekjandi dýr á Íslandi (og naut)
6. Ég þekki ekki í sundur trjátegundir, í mínum huga heita tré bara, tré, grenitré og runnar.
7. Ég gekk einu sinni á glerhurð í banka eftir að mér hafði verið neitað um lán.
8. Mér finnast flestar bækur Laxness leiðinlegar og stórlega ofmetnar

Og þau sem ég ætla að klukka eru:
Ingibjörg Þ
Júlli
Dóra í Stígó
Sædís
Garún
Sunneva á ísafirði
Sigrún sveitó
Guðrún Þorleifs

Ef það er búið að klukka ykkur þá veðrur bara að hafa það, ég nennti ekki að tékka á öllum :)


Kodama er týndur

Týnd Kisa

Elsku kötturinn minn hann Kodama stakk af að heiman og hefur ekki sést síðan.  Ég sakna hans sárlega þó hann hafi stundum verið alger pína.  Kodama er hvítur með svart skott og nokkra svarta bletti á búk og við eyrun

Við búum við Hringbraut, rétt hjá Meistaravöllum og síðast sást til Kodama í garði við Grandaveg.  Hann er fælinn en skilur nafnið sitt.  Hann er ekki með hálsól en er eyrnamerktur.  Ef þið sjáið til hans, viljiði þá vera svo yndisleg og láta mig vita?

Ég vil fá Kodama heim Heart


2007...eða 1807?

Mikið er þetta er ömurleg niðurstaða.  Hvernig er hægt að horfa framhjá öllum sönnunargögnunum?

Hvernig er hægt að líta svo á að þó konan hafi ekki barist um og öskrað að þá sé hún að samþykkja kynmök?  Það er mjög þekkt að þetta eru algeng og eðlileg viðbrögð þolenda nauðgana, að frjósa.

Og af hverju er verið að hengja sig í skilgreiningar á ofbeldi eins og segir hér í frétt Mbl:

"Hins vegar segir dómurinn að ef byggt sé á frásögn stúlkunnar af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra tveggja inni á snyrtingunni verði að líta svo á, að það að maðurinn ýtti konunni inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hafi verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægi þetta eitt til þess að maðurinn verði sýknaður af ákærunni."

Ef svona árásir eru ekki skilgreindar sem ofbeldi í almennum hegningarlögum, þá þurfum við að breyta lögunum okkar.  Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt.  Er þá leyfilegt á íslandi í dag að ýta fólki, læsa það inni, þrýsta því niður á gólf og taka úr fötunum?  Má þetta bara?  Eru skilaboðin að þetta sé bara allt í lagi?

Fyrir utan það að sýnt þótti að kynmökin voru ekki með vilja stúlkunnar (í dómnum stóð að "...óhætt væri að slá því föstu.") og þá er um nauðgun að ræða.  Það hefði átt að vera manninum ljóst.  Enda reynir stúlkan að koma honum af sér þegar hún finnur til, henni blæðir og hún er þurr og mökin því erfið.

NAUÐGUN ER OFBELDI!!!!

Ég er ekki jafnlögfróð og dómararnir sem dæmdu í þessu máli og kannski, bara kannski, luma þeir á einhverjum rökum sem toppa allt annað en hefur komið fram í fréttum og í dómasafni Héraðsdóms og sé svo þá væri gott að heyra þau.  En að rökstyðja sýknuna með þessum rökum ásamt fleirum, eins og að stúlkan hafi verið ölvuð er ekkert nema skömm fyrir íslenskt réttarkerfi.

Ég vil senda stúlkunni baráttukveðjur, ég hugsa hlýlega til þín.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunkaffið

Það er runnið upp fyrir mér að ég er algjörlega háð kaffi á morgnana. Jamm það hefur tekið mig talsverðan tíma að horfast í augu við það en nú er ég viss.
Í síðustu viku vaknaði ég frekar seint og hafði engan tíma til að hita mér kaffi áður en samstarfskona mín var mætt fyrir utan, en við ætluðum að vera samferða í vinnuna. Við ræddum eithvað saman á leiðinni en ég man ekkert um hvað og eflaust hef ég ekki sagt neitt af viti.
Svo komum við í vinnuna og ætluðum að byrja daginn á fundi um skipulagningu verkefnis sem við vorum að setja saman. Einhvernveginn svona byrjaði fundurinn okkar:
Hún: Jæja Thelma, ég er búin að fara yfir þýðinguna, varst þú búin að kíkja á þetta?
Ég: Humgklrstdddlioo....
Hún: Ha, varstu að prenta út?
Ég: Bragegagammmzzz...
Hún: Bíddu, ég ætla að sýna þér það sem ég prentaði út.
Ég: Zzzzzzz.....
Hún fór fram að ná í einhverja pappíra og það var alveg að slokkna á heilanum á mér þegar mynd af rjúkandi kaffibolla birtist í næstum meðvitundarlausum huga mínum og ég áttaði mig. KAFFI!!! Mig vantar kaffi!!. Ég dróst aðframkomin að kaffivélinni og á adrenalíni einu saman tókst mér að útbúa mér góðan kaffibolla. Með skjálfandi taugaveiklunarhlátri sturtaði ég í mig kaffinu og það var eins og við konu mælt; allt fór í gang með það sama.
Ég og samstarfskona mín áttum svo góðan fund um verkefnið okkar og allt gekk vel.
Niðurstaðan mín er semsagt sú að það gerist einfaldlega ekkert í mínum kaffilausa haus...nema vinir mínir hafa eitthvað haft á orði að ég geti orðið eitthvað pirruð ef ég fái ekki kaffið mitt...en það hlýtur að vera tóm vitlaeysa.

Sólarblogg

Ég ætlaði að fara blogga eitthvað í dag en svo var veðrið bara svo gott að ég nennti því ekki. Minnti mig á þegar ég var lítil og mamma bannaði manni að vera inni að leika af því veðrirð var svo gott. Dásamlegt svona sólarsumar :)

Bloggheimar

Vá hvað mannlífið er stundum skrýtið. Samfélag manna er stundum stórmerkilegt fyrirbæri, finnst mér. Eins og bloggsamfélög. Það er skrýtið að stundum láta bloggarar í bloggsamfélögum allt öðru vísi en fólk lætur í "hinu samfélaginu" þar sem fólk hittist og talar beint við hvort annað. Ætli bloggarar séu kannski ný tegund af fólki?
Ég velti því fyrir mér hvort sama heift og þras væri í gangi ef til dæmis fólk væri að skiptast á skoðunum við ókunnuga á meðan beðið væri eftir strætó, eða í ræktinni eða hvar sem er?
Ekki það að ég hef ekki fengið nein leiðindi í hausinn og sem betur fer virðast meirihluti bloggara vera málefnalegir og kunna að taka tillit til annara og sýna kurteisi í skoðanaskiptum. En ég sé samt víða í "Bloggheimum" einhverja svona öskureiðar og árásargjarnar atlögur í orðum . Það er eins og einhver uppsöfnuð útrásarþörf sé að springa út hjá sumum. Það er eins og það sé stundum einhver firring í gangi. Eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því að þegar það er að hella skítkasti og jafnvel hótunum yfir annan bloggara þá er verið að hrauna yfir manneskju. Manneskju með tilfinningar og líf og líðan.
Kannski er þetta merki um bælingu í "maður við mann" samfélaginu okkar? Að við séum alltaf svo rosalega að passa okkur að vera stillt og prúð og að gera okkur ekki að fíflum á almannafæri að við kunnum ekki lengur að skiptast á skoðunum á heilbrigðan hátt? Og þess vegna brjótist það út á blogginu.
Margir skrifa undir dulnefnum og leyfa sér þá kannski í skjóli þess að æla ábyrgðarlaust út úr sér alls konar svívirðingum yfir annað fólk. Sem er auðvitað ekkert annað en hugleysi.
Kannski er bara svona mikið til af reiðum einstaklingum sem finnst bloggið kjörin vettvangur til að æsa sig á? Og kannski er það ekki alls ekki slæmt að fólk skuli frekar vera með svona læti í þögulum orðum en að vera öskrandi á strætóstoppistöðvum og í ræktinni?
Bara smá hugleiðing

Öfga-femínisti?

Ég hef tekið eftir að þetta orð "öfga-femínisti" hefur birst nýlega hjá sumum bloggurum.  Og ég velti fyrir mér hvað er eiginlega verið að meina?  Svo rakst ég á blogg í dag þar sem bloggari var að tjá sig um öfga-femínista.  Bloggið virkaði reyndar eins og það hafi verið skrifað í reiði og þá er kannski ekki mikið að marka það...og þó, það speglar alla vega skoðanir þessa manns og einhverjir í kommentunum voru sammála.

Bloggarinn tók nokkur dæmi um öfgana og ég verð bara að viðurkenna að ég skil ekki rökin á bakvið.  Ekki það að þessi bloggari kom ekki með nein rök, kastaði þessum dæmum bara fram sem öfgum og vitleysu, en ég átta mig ekki á hvar öfgarnir eiga að liggja.  Hann tók dæmi eins og það að Ingibjörg Sólrún vildi hafa jafnræði á milli kynja í ráðherrastólum Samfylkingarinnar.  Hvernig er hægt að kalla það öfga að vilja jafnan hlut kynja í ríkistjórn?  Ég veit vel að sumir, eins og þessi bloggari, eru ekki sammála Ingibjörgu Sólrúnu, en að rjúka upp og orga um öfga í femínistum finnst mér stórskrýtið.  Eru það þá öfgar að konur skuli vera helmingur þjóðarinnar? 

Hann nefndi líka "öfga-femínistann" Sóley sem hefur fylgst með hlutfalli kynjanna í Silfri Egils.  Af hverju eru það öfgar að vekja athygli á þessu?  Ættli það ekki að þykja eðlilegt að fjölmiðlar vinni út frá jöfnu hlutfalli kynjanna?  Ég hreinlega skil ekki af hverju það þykja vera svo stórundarlegar og öfgafullar væntingar og af hverju ástæða þykir að skrifa einhver öskureið blogg út af svona hlutum.

Ef það er að vera öfga-femínisti að vera óhræddur við að segja skoðanir sínar og vekja athygli á misrétti milli kynjanna, og að fara fram á bætur þar um, nú þá er ég í þeim hópi líka.  Ég kýs þó að kalla mig femínista þar sem ég get ekki séð að um öfga sé að ræða.

Ætli þessi maður kalli þá sjálfan sig öfga-bloggara fyrst hann hefur skoðanir um stöðu kynjanna, sem hann segir upphátt?


Misskilin afþreying

Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju sumar bókmenntir þykja "fínni" en aðrar. Að fólk sem les Shakespeare gamla sé þá dýpra og gáfaðra heldur en fólk sem les Ísfólkið. Þetta verður eins og hluti af sjálfsmyndinni.
Ekki það að að ég leyfi mér hiklaust, eins og flestir gera, að velja og hafna. Auðvitað gerir maður það. Og ég segi hiklaust að hin og þessi bókin sé allt of mikið rusl til að ég eyði tíma mínum í að lesa hana. En það er samt svo oft sem búið er að ákveða fyrirfram í samfélagsvitundinni hvað er flott að lesa og hvað ekki. Og yfirleitt eru það afþreyingarbókmenntirnar sem þykja lélegasti pappírinn.
Ég hef bæði lesið Shakespeare og Ísfólkið og ég mun ekki bera það saman sem eitthvað svipað (þó það væri nú eflaust hægt að finna ýmislegt sameiginlegt með þeim ef hausinn væri lagður í gott bleyti :) Ég elska bækur sem vekja hjá mér alveg nýja hugsun, snúa einhverri sýn hjá mér alveg á hvolf og ég hef svo sem hvorki upplifað það hjá Morgan Kane né Ísfólkinu. En stundum er ég líka bara að lesa til að hvíla hugann. Fara á gott flug um ástir, örlög og ævintýri. Og mér finnst bækur sem geta veitt mér það alveg jafn mikilvægar og hinar sem dýpka vitneskju mína um sjálfa mig og heiminn.
Sumum þykir voða fínt að lesa texta sem er svo torlesinn og ruglaður að hann skilst varla. Mér finnst slíkar "sögur" bara vera bull og alls ekki bera höfundi góð vitni. Hver er tilgangurinn með að skrifa sögu sem engin skilur? Ef höfundar hafa sögu að segja þá vil ég láta segja mér söguna og mér sé síðan sjálfri leyft að fara á flug út frá sögunni sem ég las. Mér sem lesanda er alveg sama hvort höfundur veit svo mikið um íslenskt mál að hann/hún getur troðið 300 orðum í sömu setningu og að sú setning innihaldi 3000 samhljóða. Eða að höfundur sé að brjóta blað í frásagnarhætti á einhvern hátt. Það má eflaust kalla þetta einhvers konar list, en í mínum huga er það ekki frásagnarlist. Ég tel að frásagnarlist felist einmitt í því að segja þannig frá að þú vekjir áhuga og að hægt sé að hverfa inn í söguna sjálfa án þess að vera endalaust með hugann við einhvern "stórkostlegan frumleika" höfundarins.
Ég upplifi þetta oft sem tilgerð og stæla í höfundum. Eins og einhverja tilraun til að vera svo "spes". Eða til að fela eigið hæfileikaleysi.
Ég man eftir bók sem kom út fyrir ekki svo löngu síðan og hafði einhvern titil sem ég nennti ekki að leggja á minnið. Nema hvað allar síðurnar í bókinni voru auðar og átti þetta að vera eitthvert tjáningarform hjá "höfundi". Það besta var að fólk keypti þetta sem eins konar list!!! Þetta er auðvitað bara fyndið og minnir óneitanlega á "Nýju fötin keisarans"
Semsagt þá ætla ég að halda áfram að lesa Milton og Shakespeare, Harry Potter eða bara góða Manga.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband