Strætó bull

Ég er ein af þeim sem fer flestra minna ferða með strætó og hef gert í mörg ár. Mér hefur þótt það fínn kostur og fundist eins og ég væri að slá margar flugur í einu höggi. Ég spara penging, ég er umhverfisvæn, ég tryggi mér hugarhvíld á hverjum degi, ég geng meira, ég hitti oft skemmtilegt fólk í vögnunum og svo er bara gaman að vera svona inní mannlífinu. Fyrir utan hvað það er oft gott að lesa og hlusta á tónlist í strætó.
En vissulega er ókostir við strætó líka, þeir eru stundum of troðnir (þó að það sé mjög hverfandi vandamál) og þeir ganga ekki alltaf þangað sem maður vil eða á þeim tímum sem hentar manni, en mér hefur fundist fram að þessu að þetta séu vandamál sem ég geti auðveldlega sætt mig við fyrir kostina.
En nú er þó svo komið að ég er af alvöru farin að velta fyrir mér að fá mér bíl. Strætó er komin út í eitthvað bull og þjónustan orðin algerlega afleit. Tíðni ferðanna minnkar stöðugt og fargjaldið hækkar bara. Vagninn í hverfið mitt gengur á hálftímafresti á virkum dögum og um kvöld og helgar. Á sunnudögum gengur hann á klukkutíma fresti. Á klukkutíma fresti!!!! ég meina hver getur notað það??
Um daginn fór ég í bíó með vini mínum á sunnudegi og var heppinn með ferð niður á Hlemm. En til þess að komast heim til mín með strætó hefði ég þurft að bíða í 49 mínútur niðrá Hlemmi. Ég hef ekkert á móti Hlemmi, en ég er ekki að nenna að hanga þar í 49 mínútur. Það er hreint bull að bjóða manni uppá svona þvælu.
Síðan ég man eftir mér hefur strætó gengið á 20 mín fresti á virkum dögum svo að það ætlar engin að segja mér að þetta sé ekki afturför. Mér finnst það næstum því krúttlegt þegar einhverjir strætókallar eru að koma í fjölmiðlum og halda því borubrattir fram að "nú sé sko aldeilis verið að bæta þjónustu strætisvagnanna. Nú sé meira að segja hægt að lesa Blaðið í strætó!!!" Bíddu hefur það ekki alltaf verið hægt?? Ég tek það blað sem mér líst á, með í strætó að lesa og hef gert lengi.
Þjónustu vagnanna hefur hrakað all svakalega undanfarin misseri og það kemur lítið á óvart að vagnarnir séu oftast næstum tómir. Ekki nema stöku hræða (eins og ég) sem enn nennir að nýta þessa "þjónustu". Ég held að það verði að stíga út úr þeirri hugmyndafræði að Strætó muni borga sig sjálfur. Það þarf að líta á þetta sem nauðsynlegar almennings samgöngur innan borgarinnar sem þarf að vera raunhæfur kostur fyrir alla, ekki bara námsmenn. Það selur enginn bílinn sinn uppá svona happaglappabull, fólk verður að geta treyst því að þjónustan sé almennileg og sé ekki endalaust að breytast og hraka.

Komin lausn

Ég er búin að finna lausnina á nammimálinu! Semsagt hvort ég á að drekka te eða halda áfram að narta í sælgæti. Í gær var ég svo heppin að fá í gjöf mjög fallegan konfektkassa. Kassinn er eigulegur trékassi, tilvalin til að geyma í spennandi leynibréf og molarnir sjálfir eru bókstaflega himneskir. Algjör unaður.
Ein tegundin í kassanum góða heitir: "Te Ganache" og er með Earl Grey Te fyllingu. Og þar er komið te og súkkulaði í dásamlegu samspili.
Enda algjör vitleysa að ætla að hætta að borða súkkulaði, hvernig datt mér það í hug? :)

Íslendingar eru æði

Um daginn brá ég mér í Smáralindina með Atla, syni mínum, að versla ýmislegt sem okkur vantaði. Við skiptum liði og þeyttumst á milli staða til að finna allt sem okkur vantaði. Allt gekk vel og smám saman gátum við strokað yfir flest sem var á listanum okkar, nema Atli fann ekki buxur sem honum líkaði.
Ég hafði líka verið að vona að ég fyndi einhverja góða kvikmynd sem ég væri til í að eiga, en svo var ekki. BT er eins og venjulega bara með það sem er á döfinni núna og Skífan var jafnvel með enn minna úrval. Alveg ótrúlegt hvað Skífunni hefur hrakað nýlega, það er ekkert úrval þarna lengur. Hvað varð eiginlega um gömlu metnaðarfullu Skífuna sem átti alltaf eitthvað spennandi að gramsa í? Ég fæ trúlega bara myndir sem mér líst á í Nexus og hjá Sigga í 2001, hér á landi...en þetta var nú útúrdúr.
Alla vega þá endum við Atli inní Hagkaup til að versla það síðasta sem vantaði, mjólk, góðan ost og grapesafa. Og svo af þvi það var laugardagur ákváðum við að fá okkur smá nammi í poka úr nammbarnum. Við vorum hins vegar ekki alveg að fatta hvílika geðveiki við vorum að skella okkur útí. Það er nefnilega 50% afsláttur af nammi í lausu á laugardögum. Og þvílíkt stríðsástand sem ríkti á nammiganginum. Pokar og nammi útum allt gólf, fólk að troðast hvert um annað þvert með hrindingum og pústrum og það voru ekki aðeins krakkar sem voru með einhvern ruðning. Fullorðna fólkið var ekkert skárra og vílaði ekki fyrir sér að þeyta frá sér stressuðum krökkum í sykurkasti til að komast að einhverju hlaupi eða súkkulaðikúlum. Starfsfólkið hafði greinilega flúið vettvanginn fyrir löngu og lái þeim hver sem vill.
Pokarnir fyrir nammið voru við annan enda gangsins og mér sýndist að einhverjir væru að gera máttlausa tilraun til að mynda röð. Ég og Atli ákváðum að reyna þá leið, náðum okkur í poka og stilltum okkur prúðlega upp í "röðinni". Allt gekk vel svona 1/4 niður ganginn, en þá fór þetta allt í tóma vitleysu. Fólk kom æðandi að úr öllum áttum og ýtti okkur til og frá. Í æsingnum steig ein kona í hælaskó á einn pokann á gólfinu og rann næstum í splitt, en hún lét það ekkert á sig fá, sneri sér bara enn æstari að hlaupköllunum. Krakkinn hennar skyldi sko fá nammi á hálfvirði hvað sem það kostaði.
Ég reyndi hvað ég gat að halda ró minni þrátt fyrir ógnvekjandi aðstæður, en þegar ég var að bauka við að reyna klípa utan um nokkra lakkrísbita, þá kemur einn krakkinn og treðst fyrir framan mig, stígur á tærnar á mér, reif í peysuna mína og horfði á mig eins og ég væri hreinn fáviti að standa þarna. Og svo kom mamman á eftir með sama "bíbb" frekjuganginn og brjálæðisglampa í augunum. Í hreinu panikki mokaði ég bara einhverju ofaní pokann minn og hljóp í burtu með allt of mikið. Ég held líka að ég hafi verið með jafn mikið nammi undir skónum mínum og ofan í pokanum, allt útí klístri og jukki Atla hafði gengið aðeins betur en mér og náð í uppáhalds brjósygginn sinn. Úff segi ég bara.
Ég ætla hér eftir að kaupa nammið mitt á öðrum dögum þó ég þurfi að borga helmingi meira fyrir það. Kannski hætti ég bara að borða nammi og fer að drekka te í staðinn.

Kodama er kominn heim!

Elsku Kodama minn er kominn heim. Ég er ekkert smáræðis hamingjusöm að hafa fengið köttinn minn heim í hús. Hann var týndur í 8 vikur en svo hringdi nágrannakona mín í mig fyrir helgi og sagðist hafa fundið Kodama bakvið blokkina sína. Þá hafði elsku vinurinn ruglast á húsum og fór að húsinu við hliðina, enda kannski ekkert skrýtið eftir 8 vikna fjarveru og hann svona óvanur að vera úti við.
Ég og Atli, sonur minn, fórum samdægurs til nágrannkonunnar og sóttum Kodama og æ hvað hann var ræfilslegur þessi elska. Hann var aðframkominn af hungri og vosbúð. Svo grindhoraður og máttfarinn að hann stóð ekki í lappirnar, hálf meðvitundarlaus og svo skítugur að fallegi hvíti feldurinn hans var orðinn grár og mattur og litlaus.
Það þarf nú ekki meira til að ég fari að háskæla og mér rétt tókst að halda andlitinu gagnvart nágrannakonu minni þegar kisinn minn kúrði sig skjálfandi í hálsakotið, en bara rétt svo.
Það var greinilegt að Kodama þekkti okkur Atla, en var svo veikur að hann gat lítil viðbrögð sýnt. Við fórum beint með hann heim og hlúðum að honum. Keyptum fínasta mat sem við fundum og líka kettlingamat því hann er svo næringarríkur.
Nú eru nokkrir dagar liðnir og Kodama er búinn að sofa út í eitt og úða í sig mat þess á milli. Hann er allur að hressast, en er þó enn máttfarinn. Hinn kötturinn okkar, Shane, var ekki alveg jafn hrifinn af heimkomu Kodama, því nú er hann ekki lengur kóngurinn í ríki sínu. Og þó, ég sá nú Shane kúra með Kodama í dag. Þeir voru góðir vinir áður og verða það eflaust aftur.
Og mikið er ég heppin með nágranna, takk fyrir að bjarga kisunni minni kæri nágranni og fyrir að hugsa svona vel um hann.
Vertu velkominn heim elsku Kodama minn, þín var sárt saknað.

Skruddurnar

Ég er í æðislegum lesklúbb sem heitir Skruddurnar.
Við erum níu góðir vinir sem hittumst mánaðarlega og ræðum bók mánaðarins. Við erum þá öll búin að lesa sömu bókina og iðulega sýnist sitt hverjum. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og líka gott tækifæri til að kynnast bókum sem ég hefði kannski aldrei annars látið mér detta í hug að lesa, eins og síðustu bók sem var "Móðurlaus Brooklyn" eftir Jonathan Lethem. Venjulegur reyfari nema að aðalsöguhetjan er með tourette-heilkenni. Áhugaverð og svolítið skrítin bók, en ekkert frumleg...nema náttúrulega tourette-gaurinn.
Þetta er líka svo gott tækifæri til að hitta vini sína. Maður er nefnilega alltaf með í plani að hitta fólk en svo dregst það oft alltof lengi. Maður er í vinnu, eða í burtu, eða með milljón verkefni, eða hinn er í burtu, eða einhver er að flytja og bla bla bla... En við festum okkur fjórða hvern sunnudag og auðvitað geta ekki alltaf allir mætt, en það myndi gera okkur öll brjáluð ef við ætluðum alltaf að eltast við það og þetta virkar fínt svona.
Það er líka svo skemmtilegt að fá sýn hinna á bókina og uppgötva nýjar hliðar. Nú og svo auðvitað leysum við svona eins og eitt eða tvö heimsmál í leiðinni, enda miklir hugsuðir hér á ferð :) Og ekki má gleyma góðum veitingum sem iðulega fylgja og frumlegum skemmtiatriðum að ógleymdum einum rauðum dregli sem gerði mikla lukku.
Nú erum við að lesa "Yosoy" eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Mjög skrýtin og frumleg saga, flókin og undarleg. Talsvert orðskrúð en mjög forvitnileg. Minnir mig einhverra hluta vegna á Búlgakov, það verður gaman að sjá hvernig hún endar.
Ég á að halda næsta Skruddufund og hlakka til. Ég er búin að ákveða hvað bók ég ætla að velja, en gestgjafinn hverju sinni velur alltaf næstu bók. Ég ætla hins vegar ekki að segja frá því af því ég veit að sumar Skruddur eru á sveimi hér á blogginu og bókin er leyndó þangað til á næsta fundi :)
Hlakka til að sjá ykkur kæru vinir.

Ein hugsun

Skrýtið hvað lífið kemur manni endalaust á óvart...og þó kannski ekki. Kannski er það einmitt það sem hægt er að stóla á frá tilverunni, að ekkert er alveg eins og maður reiknaði með. Heimurinn sem býr í huga manns og heimurinn eins og hann raunverulega er, eru stundum svo ólíkir að það getur verið erfitt að fóta sig.
Ekki skrýtið þó að við langflest leitumst við að skapa okkur einhverja fasta punkta með því að búa okkur til heimili, samastað þar sem við getum verið örugg á og þar sem hlutirnir eru í samræmi við okkar hugmyndir.
Er það ekki málið? Að við erum í endalausri leit að hreiðri fyrir líf okkar og hugmyndir? Einhverjum stað til að lenda á? Hvort sem það er í formi bústaðar eða samferðarfólks?
Bara örlítil hugleiðing í morgunsárið eftir djúpar hugsanir undir heitri sæng í köldu herbergi.

Hvað svo?

Æi ég er eitthvað kvíðin útaf þessum bletti.  Mér finnst það reyndar ágætt að það eigi loksins að fara taka til á lóðinni því það er búið að vera frekar ömurlegt að hafa þessar rústir fyrir augunum í allt sumar og gott að það á að fara gera eitthvað í málunum.  Ég hef bara áhyggjur af því að hvað kemur í staðinn.

Ég er ein af þeim sem þykir mjög vænt um gamla miðbæinn Heart, ég elska að rölta þarna um, kíkja í bókabúðir og í kaffihús.  Hitta fólk og ræða málinn.  Ég vil að miðbærinn sé fínn og snyrtilegur (samt ekki of, má ekki fara út í tilgerð) og ég hef ekkert á móti góðum breytingum, það þarf bara að vera í takt við fíling miðbæjarins.  Æi ég vona að það eigi ekki að fara reisa eitthvað glersíló til að sýnast fyrir útlendingunum.

Ég vona það besta Smile


mbl.is Austurstræti 22 rifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gellurnar í 10-11

Ég sá hluta af frétt nýlega, var sjálf á hlaupum og missti af byrjun fréttarinnar og veit ekki af hverju það var verið að tala um þetta, enda skiptir það kannski ekki öllu máli. En umræðan var um ungt fólk sem starfar í verslun og þjónustu.
Iðulega koma bæði sjónarmiðin upp, þ.e. annars vegar að unga fólkið sé ekkert verra starfsfólk, einhverstaðar þurfi krakkarnir að hafa möguleika á að byrja sína göngu í atvinnulífinu, þetta hafi forvarnargildi fyrir þau og geti stuðlað að því að krakkar endi ekki í óreglu og bulli og svo framvegis. Hins vegar er talað um hversu óþolandi það sé að viðskiptavinir fái ekki almennilega þjónustu og að sjoppu mórallinn sé óþolandi, sem sumir vilja meina að fylgji "ungum vinnustöðum".
Ég er eiginlega sammála þessu öllu. Ég á sjálf 19 ára gamlan strák og ég tel að það hefði verið ömurlegt fyrir hann að fá hvergi vinnu, en af því það eru svo margir sem fagna ungu og ódýrara vinnuafli, þá hefur hann aldrei verið í vandræðum með að fá atvinnu.
Sem viðskiptavinur finnst mér þetta hins vegar stundum alveg óþolandi. Ég sakna stundum almennrar reynslu og kunnáttu sem aldur gefur, en þetta er ekki í boði á vinnustöðum þar sem eingöngu krakkar eru að starfa á. Ég meina flest af þeim eru auðvitað alveg yndisleg, kurteis og flott, en ég sakna þess að oft getur engin svarað spurningum manns. Hér kemur lítið dæmi:
Ég í 10-11 að versla fyrir snjalla hugmynd að máltíð sem ég hafði fengið og ég spyr afgreiðslustúlkuna: Eru til gellur?
Hún: Ha?????
Ég: Eru til gellur
Hún: Ha gellur?
Ég: Já gellur
Hún fer að flissa og kallar í nálæga stúlku sem var líka að vinna í búðinni og segir við hana: Þessi kona vil kaupa gellur, ha ha ha...
Stúlka #2: Gellur!!!!
Stúlka #1: Já hún segir það
Ég sá að það var alveg ljóst að þær höfðu enga hugmynd um hvað gellur voru svo að ég spurði þær kurteislega hvort þær gætu spurt einhvern sem vissi hvað gellur væru. Þær sögðust ætla að ná í verslunarstjórann og ég beið þolinmóð, kíkti í frystinn á meðan í þeirri von að ég fyndi þar frystar gellur. Og svo kemur verslunarstjórinn, krúttlegur strákur, kannski 18-20 ára. Örlítið rauður í framan með búttaðar kinnar. Hann fann greinilega pínulítið til sín, reyndi að setja í brýnnar og ætlaði sér örugglega að vera ábúðarfullur, enda frekar mikilvægt að vera kallaður svona fram.
Ég endurtók spurningu mína um gellurnar og drengurinn setti upp sinn strangasta svip og sagði með næstum því fullorðnisrödd: Það eru engar gellur hér, stelpurnar hér eru sko ekki kallaðar gellur og ef þú ætlar að vera með einhvern dónaskap....að þá hérna...að þá sko...
Ég brosti þolinmóð og útskýrði fyrir þeim að gellur væru hluti af fiskhausum og að ég hafi ætlað að kaupa þetta í kvöldmatinn, að ég hafi ekki verið með neinn dónatón. Þau gláptu á mig eins og ég væri geimvera og ég sá að þetta var vita tilgangslaust. Ég nennti þessu ekki lengur, fór og keypti fiskibollur í dós frá Ora og bjó til bleika sósu með.


Vertu velkomin ágúst

Nú eru kaldari vindar farnir að blása og sólardagarnir ekki eins margir og fyrr í sumar.  Meira að segja hressandi rigning öðru hvoru.  Að vísu var sólin hátt á lofti í dag og skein hún skært á Gay Pride.

Annars finnst mér fínt að það sé að kólna og mér finnst rigningin æðisleg.  Ég er lítið fyrir svona hitamollu og endalausa sól.  Ég kýs frekar fersk og kalt loft, loft sem skilur eftir sig þá tilfinningu að lungun séu full af einhverju æðislegu.  Ég er líka með ofnæmi fyrir nokkrum tegundum af frjókornum og svifryki og fæ auðveldlega astma einkenni.  Þannig að svona margra vikna tímabil eins og kom í sumar finnst mér yfirleitt bara ergjandi.  Tómt vesen.

Mér finnst vetrarmánuðirnir alltaf bestir, ferskt súrefni, nógu dimmt á kvöldin til að ég geti kveikt á kertunum mínum og lesið bók eða horft á góða mynd án þess að allir í kringum mann séu að böggast yfir því "...að manni detti nú í hug að vera inni í svona góðu veðri" GetLost.

Þegar ég segi vinum mínum að ég sé alltaf virkari á veturna, það sé minn tími og að ég fái jafnvel þunglyndiseinkenni yfir hásumarið, þá horfir fólk stundum á mig eins og þau séu að hugsa: "Ææ, greyið hún, ætti ég að bjóða henni að tjá sig eitthvað um þetta?" Flestum finnst ég alveg á hliðinni með þetta Sideways

En alla vega þá fagna ég ágúst mánuði sem kemur með kulda og rómantískt rökkur á kvöldin og enn meira fjör í borgina, Gay Pride, Menningarnótt og dásamleg sólsetur.


Frí

Ég er ein af þeim sem er heima hjá mér þessa miklu ferðahelgi. Ég fer sjaldan eitthvað útá land um verslunarmannahelgina, ég eiginlega forðast það. Mér finnst ekki eins gaman að ferðast um landið um leið og allir hinir Íslendingarnir, þá eru þjóðvegirnir fullir og allir stoppistaðir að springa undan kaupglöðu eða nestisþurfi fólki, biðraðir á öll salerni. Svipaður fílingur eins og að vera í Bónus á föstudegi, maður rekst alls staðar utan í fólk.
Mér finnst miklu skemmtilegra að fara útá landsbyggðina og einmitt upplifa þessa mannlausu eða mannfáu víðáttu. Komast í tengsl við náttúruna, heyra fuglana syngja eða garga, hlusta á þögnina, finna lykt af mosa og bláberjum, stinga tánum ofan í jökulkaldan læk, pissa bakvið þúfu og vita að engin er nógu nálægt til að sjá...nema kannski jórtrandi kind.
Þetta er einmitt það sem mig langar að gera það sem eftir lifir sumars. Ég er komin í sumarfrí, byrjaði í dag og nýt þess út í ystu æsar, og ég er svo heppin að eiga nokkur heimboð í farteskinu frá vinum mínum sem eru búsettir hingað og þangað um landsbyggðina svo að ég ætla að leggja land undir fót. Ég er samt ekki búin að ákveða alveg hvenær. Vá hvað ég nýt þess að þurfa ekki að plana neitt næstu vikur, þetta er æði.
Ég ætla líka að reyna fá son minn til að koma með í eitthvað roadtripp á nýja bílnum hans. Ég get örugglega sameinað það einhveru heimboðinu. Hann var að kaupa sér kraftmikinn og fallegan bíl og er að prufukeyra gripinn í fyrsta sinn útá þjóðvegunum nú um helgina. Hann er góður og reyndur ökumaður...samt er erfitt að hugsa ekki um allar hætturnar sem geta skapast þegar troðningur myndast á vegunum, það eru nefnilega ekki allir góðir ökumenn þarna úti.
Ég óska syni mínum og öllum góðs gengis í umferðinni um helgina. Komdu heill heim.
Ég er farin í bili, ætla að njóta þess að geta verið nákvæmlega eins löt og ég nenni að vera :)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband