Jane Austen

Ég er lasin heima, með hausinn fullan af pensilíni, slappleika og almennri ringlun. Leiðindaflensa sem ég nenni alls ekki að gefa krafta mína í, en fæ litlu um það ráðið.
Ég er að rembast við að reyna lesa eitthvað á milli hóstakastanna og miðdegislúranna (sem geta sko verið ansi margir yfir einn dag þegar maður er með tóman graut í hausnum). Ég er enn að lesa "Hroki og Hleypidómar" eftir Jane Austen og hef gaman að henni þó ég sé nú að lesa hana í annað sinn. Mér þykir sérlega gaman að lesa hana með kynjagleraugun á nefinu og hef verið að hlæja upphátt að því hvernig konur birtast í þessari bók.
Flestar konurnar eru grunnhyggnar, bjargarlausar, ósjálfstæðar, hugmyndasnauðar, vægt til orða tekið hálf kjánalegar. Þær hafa ekki áhuga á neinu nema slúðri og framtíðarplönum um hjónaband þar sem karlpeningurinn er mældur eftir hvað hann hefur í tekjur á ári.
Nema aðalkvenhetjan, Elísabet Bennet, Lissý. Hún er greind, fjörug og frökk. Hún meira að segja hafnaði dansi við Mr. Darcy og það þó hann hefði 10.000 pund í árstekjur! Hún er semsagt femínisti síns tíma en þó alveg einstaklega stillt og prúð kona og hefur allt til að bera sem blíða og umhyggjusama eiginkonu þarf að príða. Í dag myndi auðvitað engum finnast Lissý frökk, en hún hefur svo sannarlega þótt það í sínum tíma (bókin var fyrst gefin út 1813 í London)
Þetta er samt mjög skemmtileg bók að lesa og líka gaman að máta þennan tíma, þegar konur voru bara til skrauts, rós í hnappagat eiginmannsins, við nútímann okkar. Þó að enn sé langt í land víða með jafnréttið, þá er þó gott að við konur þurfum ekki lengur að láta svona kjánlega eins og konurnar í heimi Jane Austen.
Ég held að ég muni það rétt að "Hroki og Hleypidómar" er fyrsta bókin sem Jane Austen gaf út undir sínu nafni. Áður notaði hún karlmannsnafn til að einhver fengist til að lesa bækurnar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Hæ skvís gaman að sjá þig á blogginu

Láttu þér nú batna og farðu vel með þig.  Jane er bara góð og hroki og hleypidómar brilliant

knús Sædís

Sædís Ósk Harðardóttir, 23.3.2007 kl. 17:07

2 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Æi ertu dottin í flensuna Láttu þig batna og farðu vel með þig Hlakka til að byrja lesa Hroka og Hleypidóma og það verða án efa fjörlegar viðræður á næsta skruddufundi

 Knús

Kiddi

Kristján Kristjánsson, 23.3.2007 kl. 18:14

3 identicon

Já, ég mæli með að Telma helli í sig brennivíni að westfirskum sið á meðan hún sýgur upp í nefið og les Hroki og hleypidóma sem er snilldarsaga. 

Já, konur voru ekki öfundsverðar þá en ekki heldur karlmenn. Ef þeir voru "gott mannsefni" en vildu ekki láta troða uppá sig einhverri visinni konu sem var af góðum ættum var voðinn vís fyrir samfélagslegu stöðu þeirra. A

linda (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 21:40

4 Smámynd: Jens Guð

Þú átt að kætast yfir að fá flensu.  Flensa er eitthvað það besta sem fyrir mann getur komið.  Flensan setur varnakerfi líkamans í góðan leikfimitíma.  Eftir að varnarkerfið nær að sigra flensubakteríurnar er það miklu sterkara og virkara en áður. 

Pensilín á að forðast eins og mögulegt er.  Það á ekki að nota pensilín nema fólk sé virkilega fárveikt og fátt annað til ráða.  Pensilín er stórskaðlegt til lengri tíma litið.  En EF fólk klaufast til að taka pensilin er nauðsynlegt að taka jafnframt inn mjólkursýrugerla sem heita Acidophilus (fást í matvörubúðum,  apótekum,  heilsubúðum).  Annars fer magaflóran í klessu.  LGG mjólk gerir sama gagn en hún er alltof dýr.   

Bestu hjálp í baráttu við flensu fær varnarkerfi líkamans í formi vatns.  Maður á að drekka eins mikið vatn og hægt er. 

Jens Guð, 23.3.2007 kl. 21:58

5 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Takk fyrir góð ráð Jens :) Er sammála þér með LGG, alltof dýrt þó það sé gott, svo ég er með fullt glas af gerlum í pilluformi í staðinn, sem ég tek samviskusamlega með hverri pensilínpillu. Ég vona að ég komi þrumuhress undan þessari flensu og með ónæmiskerfið á ofurhetjustigi :)

Thelma Ásdísardóttir, 23.3.2007 kl. 22:26

6 Smámynd: Heiða  Þórðar

Þarf endilega að ná mér í þessa bók! Hljómar athyglisverð. Baráttukveðjur og stríð á hendur sýklakvikindunum....

Heiða Þórðar, 24.3.2007 kl. 01:09

7 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Fyrir utan það að ég hef ætlað að lesa þessa bók í mörg ár en aldrei látið verða af því (og er ákveðin í að gera það áður en ég sé myndina) þá langar mig til að benda þér á alveg hreint brilliant hóstamixtúru, eða öllu heldur THE hóstamixtúru því allt annað er bara sykurblandað vatn í samanburðinum. Hún heitir Syr og er eingöngu fáanleg í Árbæjarapóteki og bara gegn lyfseðli. Ég var illa haldin af inflúensunni fyrir nokkrum vikum síðan og ég er sannfærð um að Syr bjargaði geðheilsu minni. Maður verður alveg yndislega syfjaður af henni (mátt alls ekki keyra) og ég svaf á nóttunni eins og hvítþvegna samviskan sjálf allan tíman sem ég var veik. Mæli sterklega með að þú fáir heimilislækninn þinn til að skrifa upp á hana fyrir þig. Góðan bata.

Jóna Á. Gísladóttir, 25.3.2007 kl. 02:20

8 Smámynd: Jens Guð

Jóna Á. Gísladóttir,  þú átt alls ekki að fá þér Syr nema þú þurfir nauðsynlega að slá á flensu (til dæmis að taka vegna fermingarundirbúningseða álíka).  Syr slær einungis á einkenni og framlengir flensunni um nokkra daga.  Veikir meðal annars varnarkerfi líkamans.  Best er að leyfa sniðganga allt svona og leyfa líkamanum sjálfum að kljást við flensuna.

Reyndar er ágætt að skella í sig koníaksfleyg þegar lagst er til svefns.  Það hjálpar varnarkerfinu að losa sig við losa sig við bakteríur með útgufun.  Að vísu bara 0,03%.  En það er svakalega gaman.   

Jens Guð, 25.3.2007 kl. 03:38

9 Smámynd: Jens Guð

Æ,  textinn hjá mér var smá brenglaður.  Ég drakk koníaksfleyg án þess að vera með flensu.  Bara til öryggis.  Til að fyrirbyggja flensu. 

Jens Guð, 25.3.2007 kl. 03:44

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Þakka þér fyrir Jens. Ég gerði það einmitt eina nóttina sem ég gat ekki sofið eftir að Syr var búin hjá mér. Skellti í mig gúlsopa af koníaki. Þú nefnir fermingarundibúning sem ''afsökun'' fyrir að innbyrða svona vökva. Hvað með að þarfnast svefns til að geta hugsað um börnin sín og komist í gegnum daginn? Er það ekki ágætis afsökun líka?

Jóna Á. Gísladóttir, 25.3.2007 kl. 09:31

11 Smámynd: Brynja Hjaltadóttir

Fyrir alla muni farðu vel með þig í þessari pest...hún er ein af þessum verri

Brynja Hjaltadóttir, 25.3.2007 kl. 11:01

12 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Takk fyrir góðar kveðjur og góð ráð, ég er sem betur fer öll að braggast. Ég hefði sko alveg örugglega fengið mér koníak í gærkvöldi fyrir svefninn ef ég hefði átt það til :)

Thelma Ásdísardóttir, 25.3.2007 kl. 12:50

13 Smámynd: Jens Guð

Jóna,  gúlsopi af koníaki dugir skammt.  Fleygur af koníaki er betri.  Eftir að ég skellti í mig einum slíkum í gær vaknaði ég í dag án flensu (reyndar ekki fyrr en eftir hádegi.  En það var svo sem ekkert að gerast fyrir hádegi sem ég missti af).  Og þakka koníaksfleygnum fyrir flensuleysið.  Sofnaði vært eins og ungbarn í gærkvöldi.  Þökk sé koníakinu.  Annars hefði ég kannski orðið andvaka. 

Thelma,  núna ert þú áreiðanlega búin að sofa meira - vegna flensunnar - en að öllu jöfnu.  það er enn eitt góða dæmið við flensu.  Fólk hvílist og streyta hverfur eins og dögg fyrir sólu. Það er nauðsynlegt fagnaðarefni að fá flensu lágmark einu sinni á ári til að vera við þokkalega heilsu afganginn af árinu.  

Jens Guð, 26.3.2007 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband