Færsluflokkur: Bloggar

Hvað svo?

Æi ég er eitthvað kvíðin útaf þessum bletti.  Mér finnst það reyndar ágætt að það eigi loksins að fara taka til á lóðinni því það er búið að vera frekar ömurlegt að hafa þessar rústir fyrir augunum í allt sumar og gott að það á að fara gera eitthvað í málunum.  Ég hef bara áhyggjur af því að hvað kemur í staðinn.

Ég er ein af þeim sem þykir mjög vænt um gamla miðbæinn Heart, ég elska að rölta þarna um, kíkja í bókabúðir og í kaffihús.  Hitta fólk og ræða málinn.  Ég vil að miðbærinn sé fínn og snyrtilegur (samt ekki of, má ekki fara út í tilgerð) og ég hef ekkert á móti góðum breytingum, það þarf bara að vera í takt við fíling miðbæjarins.  Æi ég vona að það eigi ekki að fara reisa eitthvað glersíló til að sýnast fyrir útlendingunum.

Ég vona það besta Smile


mbl.is Austurstræti 22 rifið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vertu velkomin ágúst

Nú eru kaldari vindar farnir að blása og sólardagarnir ekki eins margir og fyrr í sumar.  Meira að segja hressandi rigning öðru hvoru.  Að vísu var sólin hátt á lofti í dag og skein hún skært á Gay Pride.

Annars finnst mér fínt að það sé að kólna og mér finnst rigningin æðisleg.  Ég er lítið fyrir svona hitamollu og endalausa sól.  Ég kýs frekar fersk og kalt loft, loft sem skilur eftir sig þá tilfinningu að lungun séu full af einhverju æðislegu.  Ég er líka með ofnæmi fyrir nokkrum tegundum af frjókornum og svifryki og fæ auðveldlega astma einkenni.  Þannig að svona margra vikna tímabil eins og kom í sumar finnst mér yfirleitt bara ergjandi.  Tómt vesen.

Mér finnst vetrarmánuðirnir alltaf bestir, ferskt súrefni, nógu dimmt á kvöldin til að ég geti kveikt á kertunum mínum og lesið bók eða horft á góða mynd án þess að allir í kringum mann séu að böggast yfir því "...að manni detti nú í hug að vera inni í svona góðu veðri" GetLost.

Þegar ég segi vinum mínum að ég sé alltaf virkari á veturna, það sé minn tími og að ég fái jafnvel þunglyndiseinkenni yfir hásumarið, þá horfir fólk stundum á mig eins og þau séu að hugsa: "Ææ, greyið hún, ætti ég að bjóða henni að tjá sig eitthvað um þetta?" Flestum finnst ég alveg á hliðinni með þetta Sideways

En alla vega þá fagna ég ágúst mánuði sem kemur með kulda og rómantískt rökkur á kvöldin og enn meira fjör í borgina, Gay Pride, Menningarnótt og dásamleg sólsetur.


Frí

Ég er ein af þeim sem er heima hjá mér þessa miklu ferðahelgi. Ég fer sjaldan eitthvað útá land um verslunarmannahelgina, ég eiginlega forðast það. Mér finnst ekki eins gaman að ferðast um landið um leið og allir hinir Íslendingarnir, þá eru þjóðvegirnir fullir og allir stoppistaðir að springa undan kaupglöðu eða nestisþurfi fólki, biðraðir á öll salerni. Svipaður fílingur eins og að vera í Bónus á föstudegi, maður rekst alls staðar utan í fólk.
Mér finnst miklu skemmtilegra að fara útá landsbyggðina og einmitt upplifa þessa mannlausu eða mannfáu víðáttu. Komast í tengsl við náttúruna, heyra fuglana syngja eða garga, hlusta á þögnina, finna lykt af mosa og bláberjum, stinga tánum ofan í jökulkaldan læk, pissa bakvið þúfu og vita að engin er nógu nálægt til að sjá...nema kannski jórtrandi kind.
Þetta er einmitt það sem mig langar að gera það sem eftir lifir sumars. Ég er komin í sumarfrí, byrjaði í dag og nýt þess út í ystu æsar, og ég er svo heppin að eiga nokkur heimboð í farteskinu frá vinum mínum sem eru búsettir hingað og þangað um landsbyggðina svo að ég ætla að leggja land undir fót. Ég er samt ekki búin að ákveða alveg hvenær. Vá hvað ég nýt þess að þurfa ekki að plana neitt næstu vikur, þetta er æði.
Ég ætla líka að reyna fá son minn til að koma með í eitthvað roadtripp á nýja bílnum hans. Ég get örugglega sameinað það einhveru heimboðinu. Hann var að kaupa sér kraftmikinn og fallegan bíl og er að prufukeyra gripinn í fyrsta sinn útá þjóðvegunum nú um helgina. Hann er góður og reyndur ökumaður...samt er erfitt að hugsa ekki um allar hætturnar sem geta skapast þegar troðningur myndast á vegunum, það eru nefnilega ekki allir góðir ökumenn þarna úti.
Ég óska syni mínum og öllum góðs gengis í umferðinni um helgina. Komdu heill heim.
Ég er farin í bili, ætla að njóta þess að geta verið nákvæmlega eins löt og ég nenni að vera :)

Klukk á mig

Ég var klukkuð af henni Grumpu og ætla að vera með þó að ég sé venjulega mjög dugleg að kasta öllu svona keðjubulli beint í ruslið. Ég á semsagt að segja frá 8 atriðum um sjálfa mig sem þið vissuð ekki og klukka svo 8 manns. Hér koma 8 smá leyndarmál um mig:

1. Fyrsta ljóðið sem ég samdi heitir "Valdimarakakan" en þá var ég 8 ára
2. Á unglingsárum stalst ég til að lesa ástarsögur systur minnar, en vildi ekki viðurkenna það af því ég skammaðist mín fyrir að lesa asnalegar ástarsögur.
3. Mér leiðast vel snyrtir garðar, ég kýs villta órækt.
4. Ég hef mjög gaman af útsaumi þar sem þarf að telja fyrir hverju spori, en gef mér aldrei tíma til að sauma.
5. Mér finnast beljur mest ógnvekjandi dýr á Íslandi (og naut)
6. Ég þekki ekki í sundur trjátegundir, í mínum huga heita tré bara, tré, grenitré og runnar.
7. Ég gekk einu sinni á glerhurð í banka eftir að mér hafði verið neitað um lán.
8. Mér finnast flestar bækur Laxness leiðinlegar og stórlega ofmetnar

Og þau sem ég ætla að klukka eru:
Ingibjörg Þ
Júlli
Dóra í Stígó
Sædís
Garún
Sunneva á ísafirði
Sigrún sveitó
Guðrún Þorleifs

Ef það er búið að klukka ykkur þá veðrur bara að hafa það, ég nennti ekki að tékka á öllum :)


2007...eða 1807?

Mikið er þetta er ömurleg niðurstaða.  Hvernig er hægt að horfa framhjá öllum sönnunargögnunum?

Hvernig er hægt að líta svo á að þó konan hafi ekki barist um og öskrað að þá sé hún að samþykkja kynmök?  Það er mjög þekkt að þetta eru algeng og eðlileg viðbrögð þolenda nauðgana, að frjósa.

Og af hverju er verið að hengja sig í skilgreiningar á ofbeldi eins og segir hér í frétt Mbl:

"Hins vegar segir dómurinn að ef byggt sé á frásögn stúlkunnar af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra tveggja inni á snyrtingunni verði að líta svo á, að það að maðurinn ýtti konunni inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hafi verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægi þetta eitt til þess að maðurinn verði sýknaður af ákærunni."

Ef svona árásir eru ekki skilgreindar sem ofbeldi í almennum hegningarlögum, þá þurfum við að breyta lögunum okkar.  Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt.  Er þá leyfilegt á íslandi í dag að ýta fólki, læsa það inni, þrýsta því niður á gólf og taka úr fötunum?  Má þetta bara?  Eru skilaboðin að þetta sé bara allt í lagi?

Fyrir utan það að sýnt þótti að kynmökin voru ekki með vilja stúlkunnar (í dómnum stóð að "...óhætt væri að slá því föstu.") og þá er um nauðgun að ræða.  Það hefði átt að vera manninum ljóst.  Enda reynir stúlkan að koma honum af sér þegar hún finnur til, henni blæðir og hún er þurr og mökin því erfið.

NAUÐGUN ER OFBELDI!!!!

Ég er ekki jafnlögfróð og dómararnir sem dæmdu í þessu máli og kannski, bara kannski, luma þeir á einhverjum rökum sem toppa allt annað en hefur komið fram í fréttum og í dómasafni Héraðsdóms og sé svo þá væri gott að heyra þau.  En að rökstyðja sýknuna með þessum rökum ásamt fleirum, eins og að stúlkan hafi verið ölvuð er ekkert nema skömm fyrir íslenskt réttarkerfi.

Ég vil senda stúlkunni baráttukveðjur, ég hugsa hlýlega til þín.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunkaffið

Það er runnið upp fyrir mér að ég er algjörlega háð kaffi á morgnana. Jamm það hefur tekið mig talsverðan tíma að horfast í augu við það en nú er ég viss.
Í síðustu viku vaknaði ég frekar seint og hafði engan tíma til að hita mér kaffi áður en samstarfskona mín var mætt fyrir utan, en við ætluðum að vera samferða í vinnuna. Við ræddum eithvað saman á leiðinni en ég man ekkert um hvað og eflaust hef ég ekki sagt neitt af viti.
Svo komum við í vinnuna og ætluðum að byrja daginn á fundi um skipulagningu verkefnis sem við vorum að setja saman. Einhvernveginn svona byrjaði fundurinn okkar:
Hún: Jæja Thelma, ég er búin að fara yfir þýðinguna, varst þú búin að kíkja á þetta?
Ég: Humgklrstdddlioo....
Hún: Ha, varstu að prenta út?
Ég: Bragegagammmzzz...
Hún: Bíddu, ég ætla að sýna þér það sem ég prentaði út.
Ég: Zzzzzzz.....
Hún fór fram að ná í einhverja pappíra og það var alveg að slokkna á heilanum á mér þegar mynd af rjúkandi kaffibolla birtist í næstum meðvitundarlausum huga mínum og ég áttaði mig. KAFFI!!! Mig vantar kaffi!!. Ég dróst aðframkomin að kaffivélinni og á adrenalíni einu saman tókst mér að útbúa mér góðan kaffibolla. Með skjálfandi taugaveiklunarhlátri sturtaði ég í mig kaffinu og það var eins og við konu mælt; allt fór í gang með það sama.
Ég og samstarfskona mín áttum svo góðan fund um verkefnið okkar og allt gekk vel.
Niðurstaðan mín er semsagt sú að það gerist einfaldlega ekkert í mínum kaffilausa haus...nema vinir mínir hafa eitthvað haft á orði að ég geti orðið eitthvað pirruð ef ég fái ekki kaffið mitt...en það hlýtur að vera tóm vitlaeysa.

Sólarblogg

Ég ætlaði að fara blogga eitthvað í dag en svo var veðrið bara svo gott að ég nennti því ekki. Minnti mig á þegar ég var lítil og mamma bannaði manni að vera inni að leika af því veðrirð var svo gott. Dásamlegt svona sólarsumar :)

Bloggheimar

Vá hvað mannlífið er stundum skrýtið. Samfélag manna er stundum stórmerkilegt fyrirbæri, finnst mér. Eins og bloggsamfélög. Það er skrýtið að stundum láta bloggarar í bloggsamfélögum allt öðru vísi en fólk lætur í "hinu samfélaginu" þar sem fólk hittist og talar beint við hvort annað. Ætli bloggarar séu kannski ný tegund af fólki?
Ég velti því fyrir mér hvort sama heift og þras væri í gangi ef til dæmis fólk væri að skiptast á skoðunum við ókunnuga á meðan beðið væri eftir strætó, eða í ræktinni eða hvar sem er?
Ekki það að ég hef ekki fengið nein leiðindi í hausinn og sem betur fer virðast meirihluti bloggara vera málefnalegir og kunna að taka tillit til annara og sýna kurteisi í skoðanaskiptum. En ég sé samt víða í "Bloggheimum" einhverja svona öskureiðar og árásargjarnar atlögur í orðum . Það er eins og einhver uppsöfnuð útrásarþörf sé að springa út hjá sumum. Það er eins og það sé stundum einhver firring í gangi. Eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því að þegar það er að hella skítkasti og jafnvel hótunum yfir annan bloggara þá er verið að hrauna yfir manneskju. Manneskju með tilfinningar og líf og líðan.
Kannski er þetta merki um bælingu í "maður við mann" samfélaginu okkar? Að við séum alltaf svo rosalega að passa okkur að vera stillt og prúð og að gera okkur ekki að fíflum á almannafæri að við kunnum ekki lengur að skiptast á skoðunum á heilbrigðan hátt? Og þess vegna brjótist það út á blogginu.
Margir skrifa undir dulnefnum og leyfa sér þá kannski í skjóli þess að æla ábyrgðarlaust út úr sér alls konar svívirðingum yfir annað fólk. Sem er auðvitað ekkert annað en hugleysi.
Kannski er bara svona mikið til af reiðum einstaklingum sem finnst bloggið kjörin vettvangur til að æsa sig á? Og kannski er það ekki alls ekki slæmt að fólk skuli frekar vera með svona læti í þögulum orðum en að vera öskrandi á strætóstoppistöðvum og í ræktinni?
Bara smá hugleiðing

Morgan Kane

Það var Skruddu-fundur hjá okkur félögunum í gærkvöldi og virkilega gaman.  Linda hélt fundinn af mikilli röggsemi og myndarskap á Eyrarbakka og fékk hún því að velja lesefni fyrir næsta fund.

Hún hafði verið að hóta því áður að hún myndi velja ofaní okkur eitthvað ættfræðisafnið, örnefnafræði eða mállýskuæfingar og ekki laust við að það væri skjálfti í fólki fyrir þennan fund Crying

En Linda kom öllum á óvart og skellti á borðið fullum kassa af Morgan Kane bókum og sagði að við skyldum öll velja okkur eina til að lesa og svo ættum við öll að lesa eitthvað upp úr bókunum á næsta fundi.   Mér fannst þetta bara fínt enda las ég Morgan Kane spjaldanna á milli hér áður fyrr og var sannfærð um að þetta yrði bara afslöppuð lesning sem myndi lítið reyna á vitsmuni eða annað.

Og það er svo sem ekki mikil ögrun í Morgan Kane sem bókmennt, nema hvað að það er stundum verulega erfitt að tapa ekki þræðinum yfir viðhorfunum sem eru ríkjandi í bókunum.  Sumt er hreinlega drepfyndið og hér koma nokkur dæmi:

Kona í bókinni segir þetta:

"Ef þú heldur áfram að hræða biðlana mína svona, verður þú að dragnast með visna, skorpna, flatbrjósta piparjúnku í áraraðir."  Hún ýtti fram ungum oddmjóum brjóstum sínum eins og til að sýna hvað hún ætti við, og byrjaði að hlæja.

Og síðar á sömu síðu:

Linda (nafn í bókinni) leit hlýðnislega niður og spennti greipar um magann.  Hún leit upp til hans, undirgefinn eins og hvolpur eftir barsmíð

Það er náttúrulega ekki annað hægt en hlegið að þessu...og þó.  Ætli það séu til svona forpokaðir gamaldags kúrekar enn á Íslandi í dag?  Kona bara spyr sig. 


Heim í Stígamót

Jæja, þá erum við komin heim aftur, komum á sunnudagskvöld.

Hringferðin okkar var hreint út sagt frábær og munaði litlu að við hefðum bara keyrt framhjá Reykjavík og farið annan hring Wink

Móttökurnar voru all staðar mjög góðar og víða kom hugrekki Stígamótafólks á landsbyggðinni í ljós.  Það var allstaðar hugsað vel um okkur og á Vopnafirði var okkur komið skemmtilega á óvart með siglingu um fjörðinn og síðar með myndarlegum bálkesti í "Námunni".  Þetta var bara gaman.  Þúsund þakkir til ykkar allra, bæði rútufólks og allra sem lögðu leið sína á fundina okkar eða sýndu okkur stuðning á annan hátt.

Landsbyggðin er aldeilis frábær Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband