Færsluflokkur: Bloggar

Jólakveðja

Nú styttist til jóla og ég er komin í jólafrí, sem er bara frábært. Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá mér undanfarið, alltaf nóg um að vera í vinnunni og svo er auðvitað allt á fullu fyrir jólin. Ég er mikið jólabarn og hef óskaplega gaman að undirbúningi fyrir jólin. Aðventan er bara yndisleg.
Ég ákvað að skrifa engin jólakort í ár og þess vegna vil ég nota bloggið mitt til að senda ykkur öllum einlægar óskir um gleðileg jól. Ég vona að þið munið hafa það jafn dásamlegt og ég um jólin og finna frið í hjartanu.
Ég veit, ég verð alltaf svolítið væmin um jólin...en það er allt í lagi, ég má það alveg :)
Milljón knús til ykkar frá mér.

Skrílslæti

Veit ekki alveg hvað ég ætla að blogga um, mér dettur ýmislegt í hug hmmm....
Jú, ég hef til dæmis verið að hugsa um hvað það eru heiftarleg viðbrögð stundum hér á blogginu yfir skoðunum sumra. Eins og með femínisma. Einn yfirlýstur femínisti hér á moggablogginu er bókstaflega lögð í einelti. Um leið og hún skrifar eitthvað femíniskt á bloggið sitt þá rýkur hópur til (mest karlar) og eys yfir hana (oft mjög persónulegum) árásum og fúkyrðum. Mörg kommentin hjá þessu fólki eru svo barnaleg og fáránleg að mér finnst mesta furða að þau skuli ekki hverfa af skömm yfir því að birta sig svona bjánalega. Hvað er eiginlega að? Má manneskjan ekki hafa sínar skoðanir þó það séu ekki allir sammála?
Þetta fólk æpir hástöfum að hún (femínistinn) sé alltaf eitthvað að reyna troða sínum skoðunum uppá aðra, sé með skoðanakúganir (hvaða bull er nú það, það er engin að neyða nokkurn til að lesa bloggið hennar), og að ekki megi vera ósammála henni. Halló!!! Hverjir eru það sem eru að reyna banna hverjum að hafa ákveðnar skoðanir? Þetta fólk grenjar og orgar um að femínistinn sé stöðugt að væla yfir einhverju....en, hvað eru þau þá að gera???
Um daginn birti Femínistinn mynd af umdeildri auglýsingu frá Toyota og setti eina setningu undir sem var á þá leið að hún hefði ekki áhuga á að eiga viðskipti við þetta fyrirtæki. Og með það sama ruddist heill haugur af yfir sig æstum og stórhneyksluðum bloggurum inn á kommentakerfið hennar og fór að gera sig að erkifíflum. Mörg kommentinn voru ekki í neinu samræmi við færslu femínistans og gerði auðvitað ekkkert annað en að opinbera þröngsýna hugsun hjá viðkomandi. Þetta er svo skrílslegt, vantar bara heykvíslarnar.
Á þetta fólk ekkert líf? Er mesta spennan í tilverunni að bíða eftir því að Femínistinn bloggi nýja færslu svo að hægt sé að ausa úr sér ómálefnalegum vitleysisgangi, allt til að reyna þagga niður í femínistum? Takið ykkur saman í andlitinu og hagið ykkur eins og fullorðið fólk.
Auðvitað eru ekki allir sem kommenta hjá þessum femínista eða öðrum, með tóman kjánaskap og auðvitað er það í besta lagi að vera ósammála, en þessi heift og persónulega reiði í garð einnar manneskju, sem jaðrar á stundum við andlegt ofbeldi, gerir lítið annað en að sýna hvar fólk er sjálft statt andlega.
Æi hvað ég er eitthvað pirruð yfir þessu, kannski ég fái mér annan kaffibolla.
Komin með þetta líka svaka fína kaffi, rjúkandi heitt.
Jæja læt þetta duga núna, búin að fá fína útrás :)
Ætla að fara gera eitthvað skemmtilegt, eitthvað jólalegt :)

Kringlan og Happamaðurinn

Vá hvað ég er búin að vera eitthvað löt á blogginu undanfarið. Ég er ekkert að gefast upp á þessu, það er bara svo margt um að vera og ég hef ekki gefið mér tíma til að dóla mér á bloggsíðunni minni.
Nú styttist líka í jólin og þar sem ég er afskaplega mikið jólabarn þá er ég komin með jólafiðring. Núna er ég að hlusta á gullfallega jólatónleika sem voru teknir upp í Hallgrímskirkju fyrir þremur árum. Ýmsir flytjendur og ég er að velja lög til að setja á ipodinn minn. Ekki seinna vænna að setja saman góðan jólalista :)
Annars fór ég með góðum vini mínum í Kringluna í gær. Það var voða fínt. Alveg svakalega mikið af fólki samt, við þurftum að hafa okkur öll við til að vera ekki stöðugt að klessa á fólk. Við kíktum í Betra Líf og fengum fínan fyrirlestur um jóga og óvænta hugleiðslu í leiðinni, bara notalegt.
Svo versluðum við það sem vantaði og kortið mitt átti "fótum fjör að launa" í einni snyrtivörubúðinni. Mig vantaði bara hreinsivatn fyrir andlitið en hitti fyrir svona afskaplega duglega sölukonu sem týndi stöðugt úr hillunum dót sem henni fannst að ég yrði að eiga. Ég reyndi í örvæntingu minni að raða vörunum jafnharðan aftur upp í hillurnar og tókst það næstum. Fór bara út úr búðinni með nokkra gagnlega hluti :)
Á leiðinni út úr Kringlunni kom ég við í Happahúsinu til að kaupa mér Lottómiða. Ég kaupi mér mjög sjaldan Lottó eða nokkuð því líkt, en fannst að ég yrði að láta reyna reyna á nokkrar tölur sem mig dreymdi nýlega. Í Happahúsinu hitti ég fyrir alveg gríðarlega pirraðan mann. Hann var eiginlega alveg að springa, með samanbitnar varir, svitaperlur á enninu og brjálæðisglampa í augunum. Ég var ekki með allt á hreinu í sambandi við Lottóið og vogaði mér að spyrja manninn spurninga og ég hélt að hann myndi grýta í mig miðastandinum, hann varð svo æstur. Hann er kannski ekkert heppinn þó hann vinni í Happahúsinu.
Kannski ég fari og kíkji á Lottótölurnar og athugi hvort ég hef unnið eitthvað.

Neyðarkallinn reyndist vera kona

Ég eyddi síðustu helgi í algerri afslöppun hjá mömmu, Íris systur og Patreki litla á Eyrarbakka.  Það var alveg dásamlegt Heart

Það gerðist svo sem ekki margt fyrir utan framleiðslu á framúrskarandi graskerspæi (a la Ruth), óteljandi leiki, fettur og hlátur með honum Patreki litla; heimsókn Lindu, Moiru og Douglas og tvær stuttar ferðir á Selfoss.  Nema svo var bankað eitt kvöldið þegar við sátum að snæðingi og okkur boðið að kaupa "Neyðarkallinn".  Íris systir reið á vaðið og fjárfesti samviskusamlega í einum kalli og til þess að vera ekki minni konur ákváðum við hinar, ég, Ruth og mamma að kaupa hver sinn kall.

Það flaug í gegnum huga minn hvað þetta væri eitthvað staðlað slagorð: "Neyðarkall". " Eru engar konur í þessum björgunarsveitum?" hugsaði ég.  Ég veit að karlmenn eru í meirihluta og að það átti trúlegast líka að höfða til útkallanna í nafninu, en mér fannst þetta allt voða karllægt eitthvað og pínu pirrandi að hunsa svona framlag kvenna til björgunarstarfa GetLost.

En mikið var mér komið skemmtilega á óvart þegar ég dró pínulitla björgunarkonu upp úr bóluplastinu.  Frábært!!!  Grin Það er bara jákvætt þegar jafnréttið birtist svona í skemmtilegum smáatriðum líka.  Miklu ferskara heldur en stöðluð og pikkföst gamaldags birtingarform sem stundum virðist ekki mega hrófla við.

Áfram björgunarfólk, konur og menn!!!  


Notalegt í sveitinni

Jæja, loksins blogga ég aftur. Nú er ég á Eyrarbakka hjá mömmu, Irís systur og Patreki litla. Ruth bættist svo í hópinn í gær og var í nótt eins og ég. Það er alveg dásamlegt að vera hér og ég ætla að vera fram á sunnudag. Ég slappa svo vel af hér að ég eiginlega missi meðvitund. Hleð batteríin, hlusta á öldurnar og máfagarg og skríkina í Patreki litla frænda.
Ég var á mjög krefjandi námskeiði alla síðustu helgi hjá Kathleen Brooks sem fjallaði um hvernig hægt er að vinna með sitt innra barn. Við vorum að frá kl 14 á föstudegi til 21 á sunnudegi og vorum til miðnættis bæði föstudags og laugardagskvöld. Þetta var mikil vinna og talsverður rússíbani og það tók mig nokkra daga að vinna úr námskeiðinu. En ég lærði ýmislegt sem ég ætla að nýta mér.
Ég ætla að hætta blogga núna, Linda systir er væntanleg í heimsókn, vonandi með strákana sína tvo en dóttirin Moira Dís er þegar komin hingað og er að kúra í sófanum hjá ömmu sinni.
Góða helgi allir vinir mínir

Hugh Hefner...bjakk!!!

Mikið svakalega finnst mér það hallærislegt að vera bjóða Hugh Hefner á Airwaves. Hvað kemur hann tónlist við? Hver er eiginlega pælingin á bakvið þetta? Einhver hundgamall saurlífskarl að spóka sig með kornungum stúlkum. Stúlkum sem hefðu vafalítið ekkert við þennan hlægilega karl að segja nema af því hann borgar þeim fúlgur fjár og gefur möguleika á myndbirtingu eða framkomu í sjónvarpi. Ég bara trúi því ekki að nokkrum finnist þetta svalt. Þetta er eins glatað og hugsast getur og veldur svo miklum kjánahrolli að það er tómt vesen að losna við hann aftur.
Mennigargildi hátíðarinnar hrundi niður í kjallara við þessa frétt og ég held í þá von að þetta hafi verið einhver helber þvæla af því ég hef ekki lesið neitt meira um þetta.
Þetta er langt fyrir neðan virðingu Airwaves.
Vonandi kommentar einhver hjá mér og segir mér að þetta sé ekki rétt, að þessi stórkostlega hallærislegi karl og allt sem hann stendur fyrir sé ekki að fara að subba út alvöru menningu eins og Airwaves hefur hingað til verið.
Sveiattan...pffft...bjakk...gubb...skirp...

Komin lausn

Ég er búin að finna lausnina á nammimálinu! Semsagt hvort ég á að drekka te eða halda áfram að narta í sælgæti. Í gær var ég svo heppin að fá í gjöf mjög fallegan konfektkassa. Kassinn er eigulegur trékassi, tilvalin til að geyma í spennandi leynibréf og molarnir sjálfir eru bókstaflega himneskir. Algjör unaður.
Ein tegundin í kassanum góða heitir: "Te Ganache" og er með Earl Grey Te fyllingu. Og þar er komið te og súkkulaði í dásamlegu samspili.
Enda algjör vitleysa að ætla að hætta að borða súkkulaði, hvernig datt mér það í hug? :)

Íslendingar eru æði

Um daginn brá ég mér í Smáralindina með Atla, syni mínum, að versla ýmislegt sem okkur vantaði. Við skiptum liði og þeyttumst á milli staða til að finna allt sem okkur vantaði. Allt gekk vel og smám saman gátum við strokað yfir flest sem var á listanum okkar, nema Atli fann ekki buxur sem honum líkaði.
Ég hafði líka verið að vona að ég fyndi einhverja góða kvikmynd sem ég væri til í að eiga, en svo var ekki. BT er eins og venjulega bara með það sem er á döfinni núna og Skífan var jafnvel með enn minna úrval. Alveg ótrúlegt hvað Skífunni hefur hrakað nýlega, það er ekkert úrval þarna lengur. Hvað varð eiginlega um gömlu metnaðarfullu Skífuna sem átti alltaf eitthvað spennandi að gramsa í? Ég fæ trúlega bara myndir sem mér líst á í Nexus og hjá Sigga í 2001, hér á landi...en þetta var nú útúrdúr.
Alla vega þá endum við Atli inní Hagkaup til að versla það síðasta sem vantaði, mjólk, góðan ost og grapesafa. Og svo af þvi það var laugardagur ákváðum við að fá okkur smá nammi í poka úr nammbarnum. Við vorum hins vegar ekki alveg að fatta hvílika geðveiki við vorum að skella okkur útí. Það er nefnilega 50% afsláttur af nammi í lausu á laugardögum. Og þvílíkt stríðsástand sem ríkti á nammiganginum. Pokar og nammi útum allt gólf, fólk að troðast hvert um annað þvert með hrindingum og pústrum og það voru ekki aðeins krakkar sem voru með einhvern ruðning. Fullorðna fólkið var ekkert skárra og vílaði ekki fyrir sér að þeyta frá sér stressuðum krökkum í sykurkasti til að komast að einhverju hlaupi eða súkkulaðikúlum. Starfsfólkið hafði greinilega flúið vettvanginn fyrir löngu og lái þeim hver sem vill.
Pokarnir fyrir nammið voru við annan enda gangsins og mér sýndist að einhverjir væru að gera máttlausa tilraun til að mynda röð. Ég og Atli ákváðum að reyna þá leið, náðum okkur í poka og stilltum okkur prúðlega upp í "röðinni". Allt gekk vel svona 1/4 niður ganginn, en þá fór þetta allt í tóma vitleysu. Fólk kom æðandi að úr öllum áttum og ýtti okkur til og frá. Í æsingnum steig ein kona í hælaskó á einn pokann á gólfinu og rann næstum í splitt, en hún lét það ekkert á sig fá, sneri sér bara enn æstari að hlaupköllunum. Krakkinn hennar skyldi sko fá nammi á hálfvirði hvað sem það kostaði.
Ég reyndi hvað ég gat að halda ró minni þrátt fyrir ógnvekjandi aðstæður, en þegar ég var að bauka við að reyna klípa utan um nokkra lakkrísbita, þá kemur einn krakkinn og treðst fyrir framan mig, stígur á tærnar á mér, reif í peysuna mína og horfði á mig eins og ég væri hreinn fáviti að standa þarna. Og svo kom mamman á eftir með sama "bíbb" frekjuganginn og brjálæðisglampa í augunum. Í hreinu panikki mokaði ég bara einhverju ofaní pokann minn og hljóp í burtu með allt of mikið. Ég held líka að ég hafi verið með jafn mikið nammi undir skónum mínum og ofan í pokanum, allt útí klístri og jukki Atla hafði gengið aðeins betur en mér og náð í uppáhalds brjósygginn sinn. Úff segi ég bara.
Ég ætla hér eftir að kaupa nammið mitt á öðrum dögum þó ég þurfi að borga helmingi meira fyrir það. Kannski hætti ég bara að borða nammi og fer að drekka te í staðinn.

Skruddurnar

Ég er í æðislegum lesklúbb sem heitir Skruddurnar.
Við erum níu góðir vinir sem hittumst mánaðarlega og ræðum bók mánaðarins. Við erum þá öll búin að lesa sömu bókina og iðulega sýnist sitt hverjum. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og líka gott tækifæri til að kynnast bókum sem ég hefði kannski aldrei annars látið mér detta í hug að lesa, eins og síðustu bók sem var "Móðurlaus Brooklyn" eftir Jonathan Lethem. Venjulegur reyfari nema að aðalsöguhetjan er með tourette-heilkenni. Áhugaverð og svolítið skrítin bók, en ekkert frumleg...nema náttúrulega tourette-gaurinn.
Þetta er líka svo gott tækifæri til að hitta vini sína. Maður er nefnilega alltaf með í plani að hitta fólk en svo dregst það oft alltof lengi. Maður er í vinnu, eða í burtu, eða með milljón verkefni, eða hinn er í burtu, eða einhver er að flytja og bla bla bla... En við festum okkur fjórða hvern sunnudag og auðvitað geta ekki alltaf allir mætt, en það myndi gera okkur öll brjáluð ef við ætluðum alltaf að eltast við það og þetta virkar fínt svona.
Það er líka svo skemmtilegt að fá sýn hinna á bókina og uppgötva nýjar hliðar. Nú og svo auðvitað leysum við svona eins og eitt eða tvö heimsmál í leiðinni, enda miklir hugsuðir hér á ferð :) Og ekki má gleyma góðum veitingum sem iðulega fylgja og frumlegum skemmtiatriðum að ógleymdum einum rauðum dregli sem gerði mikla lukku.
Nú erum við að lesa "Yosoy" eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Mjög skrýtin og frumleg saga, flókin og undarleg. Talsvert orðskrúð en mjög forvitnileg. Minnir mig einhverra hluta vegna á Búlgakov, það verður gaman að sjá hvernig hún endar.
Ég á að halda næsta Skruddufund og hlakka til. Ég er búin að ákveða hvað bók ég ætla að velja, en gestgjafinn hverju sinni velur alltaf næstu bók. Ég ætla hins vegar ekki að segja frá því af því ég veit að sumar Skruddur eru á sveimi hér á blogginu og bókin er leyndó þangað til á næsta fundi :)
Hlakka til að sjá ykkur kæru vinir.

Ein hugsun

Skrýtið hvað lífið kemur manni endalaust á óvart...og þó kannski ekki. Kannski er það einmitt það sem hægt er að stóla á frá tilverunni, að ekkert er alveg eins og maður reiknaði með. Heimurinn sem býr í huga manns og heimurinn eins og hann raunverulega er, eru stundum svo ólíkir að það getur verið erfitt að fóta sig.
Ekki skrýtið þó að við langflest leitumst við að skapa okkur einhverja fasta punkta með því að búa okkur til heimili, samastað þar sem við getum verið örugg á og þar sem hlutirnir eru í samræmi við okkar hugmyndir.
Er það ekki málið? Að við erum í endalausri leit að hreiðri fyrir líf okkar og hugmyndir? Einhverjum stað til að lenda á? Hvort sem það er í formi bústaðar eða samferðarfólks?
Bara örlítil hugleiðing í morgunsárið eftir djúpar hugsanir undir heitri sæng í köldu herbergi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband